«

»

Molar um málfar og miðla 953

Norskur miðvörður í Selfoss, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (11.07.2012). Hvað skyldi þetta þýða? Knattspyrnulið á Selfossi hefur keypt sér norskan atvinnumann í knattspyrnu.

 

Fyrsta frétt í seinni fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (11.07.2012) var að bandaríska fulltrúadeildin hefði fellt  frumvarp Obama forseta um heilbrigðismál. Ekki var þetta meiri frétt en svo vestra að það náði ekki inn  í  fréttayfirlitið hjá Brian Williams í aðalfréttatíma NBC. Var smáfrétt inni í miðjum fréttatíma. Enda ekki í fyrsta skipti sem fulltrúadeildin hafnar frumvarpinu. Heldur var þetta í 33. skipti sem fulltrúadeildin hafnar eða breytir þessu frumvarpi Obama. CBS sagði svolítið frá málinu. Í þeim anda að þetta væri marklaust. Öldungadeildin mundi aldrei hafna frumvarpinu með sama hætti. Svo gæti Obama beitt neitunarvaldi. Meginatriði fréttar CBS var að fulltrúadeildin hefði rætt málið í 80 klukkustundir, eða tvær vinnuvikur. Það hefði kostað bandaríska skattgreiðendur tæplega 80 milljónir dala. Kostnaður við fulltrúadeildina næmi 24 milljónum dala á viku. Svona getur fréttamatið verið misjafnt. Hvað skyldi málþóf og andsvarabull Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á Alþingi Íslendinga hafa kostað íslenska skattgreiðendur?

 

Morgunblaðið birti á fimmtudag (12.07.2012) greinargerð um rekstur sinn. Þar kemur fram að sægreifar í Vestmannaeyjum sem allir eru á vonarvöl svo sem alkunna er eiga þriðjung blaðsins. Ekki kemur fram hve mikið af skuldum gamla útgáfufélagsins var  afskrifað á kostnað skattgreiðenda beint eða óbeint þegar kvótaaðlinum var afhent blaðið. Það munu hafa verið um þrír milljarðar króna. En það var snjallt auglýsingabragð hjá Mogga að gefa stúdentum spjaldtölvu gegn áskrift. Ekki stendur eldri borgurum slíkt til boða.

 

Í fréttatíma bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS á miðvikudagskvöld (11.07.2012) var sagt frá nýrri og merkri uppgötvun á sviði erfðafræði í tengslum við rannsóknir á Alzheimersjúkdómnum. Að engu var Íslenskrar erfagreiningar getið í fréttinni. Það hefði þó verið eðlileg fréttamennska. Aðeins var sagt í hvaða tímariti hefði verið greint frá uppgötvuninni.

 

Í Fréttablaðinu (12.07.2012) segir: Konurnar eru meðlimir í pönksveitinni Pussy Riot,,, Hér hefði dugað að segja konurnar eru í pönksveitinni … Sleppa hefði mátt orðinu meðlimur, – eins og oftast, reyndar. Meira úr Fréttablaðinu sama dag: Næsta skref prófananna verður að fljúga búnaðinum nærri gjósandi eldfjalli. Fréttin var um skynjara sem nema öskuský í allt að 100 km fjarlægð. Það er út í hött að fljúga búnaði. Flogið er með búnað. Einfaldast hefði verið að segja: Næsta skref er að prófa búnaðinn í grennd við gjósandi eldfjall.

 

Úr bílaumsögn í fylgiriti Morgunblaðsins, finnur.is (12.07.2012): Í GS 450 er ný fjöðrunartækni og þó svo akstur forvera hans hafi verið silkimjúk er hún enn betri nú … Hér hefur eitthvað skolast til hjá skrifara sem auðsætt er. Enginn les yfir frekar en fyrri daginn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>