…þar verða allir hröðustu menn heimsins samankomnir, sagði íþróttaafréttamaður Stöðvar tvö (14.07.2012). Hann var segja frá íþróttamóti þar sem mestu hlaupagarpar í heimi reyna með sér. – Annie sem sigraði Heimsleikana í fyrra, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins (14.07.2012). Það sigrar enginn leika fremur en keppni. Sami fréttamaður talaði um bát sem flaug í heilhring !
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins og aftur í morgunfréttum (14.07.2012) var sagt frá eldsvoða í sænskri kirkju frá 13. öld í Enköpings-Näs þar sem var margt fornra muna. Fréttin var eiginlega botnlaus því ekki var sagt frá skemmdum á kirkjunni eða hvort tekist hefði að bjarga hinum fornu kirkjugripum. Við athugun á fréttavef Dagens Nyheter kom í ljós, að kirkjan var steinkirkja sem hefur margsinnis verið endurbyggð. Kirkjumunir skemmdust ekki en nokkurn tíma tók að fást við eldinn sem var í þaki kirkjunnar. Rjúfa þurfti málmklæðningu á þakinu til að komast að eldinum. Ekki mjög vel unnin frétt sem botninn vantaði í.
… þyrlur og skriðdrekar hafa ollið miklum skemmdum, var sagt í frétt Ríkissjónvarpsins (14.07.2012) frá Sýrlandi. Sögnin að valda veldur miklum vanda í fjölmiðlum. … þyrlur og skriðdrekar hafa valdið miklum skemmdum.
Fréttaþulur Ríkissjónvarpsins (14.07.2012) talaði um tvö göng og fjögur göng sem eiturlyfjasmyglarar höfðu grafið milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Eins og var nefnt í Molum 954 er orðið göng fleirtöluorð, – ekki til í eintölu. Þessvegna hefði átt að tala um tvenn göng og fern göng. Málfarsráðunautur ætti að funda um málið með útvarpsstjóra. Í sama fréttatíma sagði þulur um sýningu á vatnslitamyndum: Sýningin fer fram í Norræna húsinu. Fer fram ? Einfaldara hefði verið að segja að sýningin væri í Norræna húsinu. Um sama efni og fleira sendi Gunnar eftirfarandi athugasemd: ,,Útvarpsstjóri hefur verið eitthvað annars hugar, þegar hann las fréttir á laugardagskvöldið. Hann sagði: „Lögreglan í Mexíkó fann tvö stór göng …“ Ætli þeir hafi fyrst fundið „eitt gang“ og svo „annað gang“? Tvenn göng hefði verið eðlilegt að segja og furðulegt að máltilfinning hans hafi ekki rekið hann til að leiðrétta sig.
Svo er komin ný plata með Bubba Morthens og þar syngur hann: „Allir góðir vættir vaki yfir þér“ en ég hef vanist því að talað sé um góðar vættir. Til er kvenkynsorðið „vætt“ Sorglegt að hann láti engan prófarkalesa textana sína áður en hann mætir í hljóðver.” Móðurmálið , Gunnar, er ekki hin sterka hlið þessara tveggja ágætu manna sem þú nefnir.
Úr mbl.is (14.07.2012): Göngufólkið eru sagt hafa frosið til bana en það fannst í um 4.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Að frjósa til bana eins og það er orðað á mbl.is hét einu sinni að verða úti á íslensku.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
16/07/2012 at 22:00 (UTC 0)
Jú, – þetta er kannski svolítið á reiki hjá mér og fleirum.
Gunnlaugur Lárusson skrifar:
16/07/2012 at 14:59 (UTC 0)
Segir maður ekki „Af mbl.is“?
Eiður skrifar:
16/07/2012 at 14:09 (UTC 0)
Þakka þér þetta , Sigurður. Í mínum skóla var reyndar kennt að orðið vættur væri kvenkyns og enginn afsláttur á því.
Sigurður Karlsson skrifar:
16/07/2012 at 13:47 (UTC 0)
„Allir góðir vættir vaki yfir þér“ gæti einmitt bent til að Bubbi hafi látið kunnáttumann lesa textann yfir eða e.t.v. vitað sjálfur hvað hann var að yrkja.
Orðabókin gefur nefnilega upp að vættur sé bæði til karlkyns og kvenkyns, og bætir við innan sviga: karlkyn eldri mynd, talin betri.