«

»

Molar um málfar XV

 Ungur stjórnmálaleiðtogi  sagði í viðtali í dag um úrslit  prófkjörs eða  forvals:  „Við erum að sjá nýtt fólk  koma sterkt inn.“  Þetta er  sjálfsagt býsna  algengt orðalag,en ekki finnst mér það til  fyrirmyndar.

 Meira um prófkjör.  Í vefmogga  er  tekið  svo til orða: “ … sem sigraði prófkjör  Framsóknarflokksins á  Suðurlandi í dag.“ Menn sigra ekki prófkjörkjör  fremur en menn sigra keppni eða  leik. Menn bera   sigur úr býtum eða  sigra í prófkjöri . Það  er næstum daglegt brauð um þessar mundir  að hnjóta um þessa  ambögu.

Eftirfarandi mátti lesa á  dv. is  í í kvöld. Verið var að  fjalla um ófærð og óveður  nyrðra.

„Lögreglan hefur þó mest einbeitt sér að vandræðagangi innan bæjarmarkanna og lætur björgunarsveitunum um erfiðari verkefni á vegum úti. Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Akureyri hefur fólk á smærri bílum sérstaklega verið að lenda í vandræðum vegna snjóofsans þar sem lítið sem ekkert hefur verið um snjómokstur innanbæjar í dag.“ 

Við þessa  stuttu málsgrein  geri ég  þrjár athugasemdir.

1, Vandræðagangur  er ekki rétta  orðið í þessu  sambandi. Betra  væri að tala um vandræði, erfiðleika.

2. Rangt er að  segja : „..lætur björgunarsveitunum um erfiðari verkefni“. Þarna ætti að standa: „.. lætur björgunarsveitirnar um erfiðari verkefni..“

3. Loks  spyr   ég: Hvað er  snjóofsi ?   Er það fannfergi,  er það  stórhríð ?

Ríkisútvarpið hyggst ráða  nýjan málfarsráðunaut. Það er mikilvægt  starf og  næg eru verkefnin. Aðalsteinn Davíðsson gegndi því starfi með  sóma. Miklu  skiptir  að í starfið veljist  maður sem vill veg íslenskrar tungu sem  mestan. Ríkisútvarpið á lögum samkvæmt „að  leggja rækt  við íslenska tungu , sögu þjóðarinnar og  menningararfleifð“. Þessvegna  má  ekki ráða í þessa  stöðu úr flokki  svonefndra „reiðareksmanna“, – þeirra sem vilja láta  reka á reiðanum um vernd móðurmálsins.   

 

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Ég bloggaði nýlega um tískusetningarnar „við erum að sjá“ og „við erum að tala um.“ Einu sinni notaði sjónvarpsmaður einn orðin „við erum að tala um“ í annarri hverri setningu að því er virtist til þess eins og lengja mál sitt, því að til dæmis er styttra mál að segja: „Það verður kaldara…“ heldur en að segja: „Við erum að tala um kólnandi veður.“

    Í tilvitnuninni áðan segir stjórnmálaleiðtoginn: „Við erum að sjá nýtt fólk koma sterkt inn“ þegar helmingi fljótlegra og einfaldara er að segja: „Nýtt fólk kemur sterkt inn.“

  2. Birgir Örn Birgisson skrifar:

    Þá vitum við hver bar ábyrgð á kjötsúpunni 🙂

  3. Grétar skrifar:

    Sæll, Hr. Alvitur.

    Í annarri línu hjá þér þarf að vera bil á eftir kommu.

    Í fjórðu línu kemur fram orðið prófkjörkjör. Er þetta nýtt orð?

    Í sjöttu línu skrifar þú ,,í í kvöld“. Þetta er ekki rétt.

    Í elleftu línu ættir þú að hafa punkt á eftir 1 en ekki kommu.

    Kveðja, Grétar.

  4. Eiður skrifar:

     Sæll Tobbi,

    Takk fyrir þessi góðu ráð. Allt er það rétt,sem þú segir „eraðismann“. Þetta fyrirbæri breiðist út eins og bráðafarsótt. B kv ESG

  5. Tobbi skrifar:

    Eiður! Tölvan þín gefur möguleika á réttum gæsalöppum eins og allar tölvur nú til dags. þú getur gert þetta á tvennan hátt. Annaðhvort ferðu í insert og svo symbol og leitar að gæsalöppum, eða þá, sem er einfaldara, heldurðu niðri vinstri alt takkanum og svo slærðu eldsnöggt 0132 á talnaskikanum hægra megin (num lock verður að vera á) og þá koma þessar fínu gæsalappir „. Til að loka heldurðu alt og slærð 0147 og þá koma „gæsalappir“ uppi “.

    En af því þú ert nú að ræða málfar. Það sem ég held að sé hættulegast á vorum tímum er andskotans „eraðisminn“. Menn eru hættir að eyða. Þeir eru að eyða. Þeir eru að skilja. Prófið er að ganga vel etc. Að sönnu er í samræmi við mélhefða að nota vera+nafnhátt en þá eingöngu um það sem stendur yfir núna og lýkur innan skamms. Bíllinn minn er ekki að eyða neinu nema hann sé í gangi.

    Og sjá; innan örfárra ára munu sagnbeygingar hverfa ef svo fer sem horfir.  Það væri skaði.

  6. Eiður skrifar:

    Sæll Birgir Örn, — þakka  þér orðin um Molana mína.  Þetta er  rétt hjá þér með  gæsalappirnar íslensku.   Tölvan mín gefur,  held ég ekki, aðra  möguleika en  að hafa  bæði greinarmerkin „uppi“. Kannski er ég   bara ekki nógu  leikinn á  tölvuna?

    K kv  Eiður

  7. Birgir Örn Birgisson skrifar:

    Mér finnst frábært að lesa molana þína, þeir eru bæði skemmtilegir og fræðandi. Ég vona að þeir eigi eftir að birtast hérna um ókomna framtíð, því ég á margt eftir ólært þegar kemur að íslensku.

    En hvernig er það með þessar blessuðu gæsalappir?

    Ég sé að þú notar enskar gæsalappir, eru þær íslensku ekki fyrst niðri og svo uppi?   ,,Gæsalappir“ ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>