Eftirfarandi setning er á vefmogga í dag:
„Það er hörmulegt að lesa það í dagblaði eftir forsætisráðherra, að það sé farið með slíka staðlausa starfi á prenti,“ sagði Geir þegar umræða hófst um stjórnlagafrumvarpið á ný á Alþingi í dag.
Hér er eitthvað sem ekki stemmir. Efast reyndar stórlega um að Geir H. Haarde hafi orðað þetta eins og blaðamaður skrifar. Líklega er meiningin sú að hörmulegt sé að forsætisráðherra skuli fara með staðlausa stafi sem síðan komist á prent. Skýrt er hugsunin ekki orðuð.
Meira af vefmogga í dag. Verið var að segja frá sýningu í Amsterdam: „Myndir þú fela gyðing frá nasistum?”. Það er ekkert til á íslensku sem heitir að „fela frá “. Við felum eitthvað fyrir einhverjum. Betri hefði þessi setning verið svona: Mundir þú fela gyðing fyrir nasistum? Ef til vill er sögnin að forða með forsetningunni frá að rugla skrifara í þessu tilviki. Spyrja hefði mátt: Mundir þú forða gyðingi frá nasistum?
Erfiðlega gengur mönnum að beygja orðið fé. Á dv. is mátti lesa í kvöld: „Um var ræða eftirstöðvar ráðstöfunarfés frá fyrra ári…”. Eignar fallið af fé er auðvitað fjár, ekki „fés”. Þessi sama beygingarvilla var á dv. is í fyrradag. Sennilega er sami bögubósinn að verki í báðum fréttum. Það væri gaman að sjá fésið á honum.
Ráðherra sem er einna best máli farinn allra sem á Alþingi, sitja brá fyrir sig kansellístíl nútímans í dag þegar hann talaði um að „setja fyrirtæki í söluferli”. Einfaldara hefði verið að tala um að selja fyrirtæki.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/03/2009 at 17:25 (UTC 0)
Ásláttarvillan í tilvitnaðri setningu er ekki mín.
Svanur Gísli Þorkelsson skrifar:
11/03/2009 at 16:34 (UTC 0)
„…staðlausa starfi á prenti,“ Eflaust meinleg ásláttarvilla hjá þér eða blaðamanni.
Og átti þetta kannski að vera; Mundir þú fela gyðing fyrir nasista?