Vita hlustendur Rásar tvö hvað kú-skali fyrir brönd er? Hafa þeir heyrt talað um Galileuhafið? Þetta er meðal þess sem bar á góma í vikulegum slúður- og slettu pistli (24.08.2012)sem Ríkisútvarpið kaupir af konu sem búsett er í Los Angeles (Ellei á máli Rásar tvö). Þetta bull vellur vestan að og er svo dembt yfir okkur hlustendur Ríkisútvarpsins. Hef á tilfinningunni að umsjónarmenn hlýði opinmynntir á spekina. Til glöggvunar er giskað á að kú-skali fyrir brönd sé gæðakvarði á vörureða vörumerki og að Galileuhafið sé Galileuvatn (á ensku Sea of Gaililee) sem þetta ágæta fólk las líklega um í biblíusögum bernsku sinnar. Ríkisútvarpið getur verið stolt af mörgu. Ekki þessu. Það á ekki að efla enskuslettur og miðla rugli af þessu tagi.
Það var gott framtak hjá Ríkissjónvarpinu að sýna beint frá dómsuppkvaðningu í máli norska fjöldamorðingjans Breivik. Þakkir fyrir það. Molaskrifari sat uppi með óvirkan myndlykil frá Símanum og beið mátulega þolinmóður eftir lagfæringu. Hafði því ekki aðgang að beinum útsendingum norska sjónvarpsins.
Úr Morgunblaðinu (24.08.2012) : … og bætir við að gæði timbursins séu mjög góð. Ekki er rétt að tala um góð gæði. Gæði geta verið mikil en ekki góð.
Það er ekki að spyrja að því með vandræðasögnina að valda. Hún veldur mörgum fjölmiðlamönnum erfiðleikum. Í fréttum Ríkissjónvarps (24.08.2012) sagði frá ESB umræðunni sem varaformanni VG þótti erfið, – það hefði ollið henni miklum vonbrigðum, sagði þulur. Hann átti við að það hefði valdið henni miklum vonbrigðum.
Í fréttum Stöðvar tvö var viðtengingarháttur ekki tiltækur þegar á þurfti að halda. Þulur sagði um hryðjuverkamanninn Breivik að hann hefði undirbúið hryðjuverkin í níu ár án þess að nokkur varð þess var. Hann hafði undirbúið hryðjuverkin í níu árán þess að nokkur yrði þess var.
Molaskrifari var nokkuð harðorður í garð Ríkissjónvarpsinsvegna þáttarins um Höfn í Hornafirði þar sem kostnaður varð margfaldur miðað við það sem lagt var upp. Biðst hann velvirðingar á því að hafa haft Ríkissjónvarpið fyrir rangri sök í þessu efni og birtir hér leiðréttingu frá Þórhalli Gunnarssyni, sem ber nokkra ábyrgð á þessum þáttum. Þórhallur segir:
,,Eiður, hvernig getur þú sagt að hlutur RÚV hafi ekki verið góður og í skötulíki? Mér þætti vænt um að þú kynntir þér málið ofurlítið áður en þú staðhæfir slíkt.
Í fyrsta lagi komu bæjaryfirvöld ekki að gerð þáttanna. Þau fjármögnuðu hinsvegar þær breytingar sem gerðar voru á hafnarsvæðinu á Höfn og báru því alla ábyrgð á þeim framkvæmdum.
Hvað varðar áætlanir bæjarfélagsins vegna framkvæmdanna er rétt að vísa í yfirlýsingu bæjarstjórans sem vitnað er til í Fréttablaðinu í gær. Í fréttinni segir:
„Í yfirlýsingu sem Hjalti bæjarstjóri sendi í gær undirstrikar hann að RÚV beri enga ábyrgð á framkvæmdum bæjarins vegna þáttagerðarinnar. „Framkvæmdir sem ráðist var í í tengslum við upptöku á sjónvarpsþætti RÚV eru á ábyrgð starfsmanna sveitarfélagsins en ekki á ábyrgð RÚV eða annarra,“ segir Hjalti.“
Það er einnig rétt að halda því til haga að kostnaður RÚV við þáttagerðina var undir áætlunum. Kveðja, Þórhallur Gunnarsson.”
Molaskrifari þakkar Þórhalli tilskrifið. Hann hefur ef til dregið fullvíðtækar ályktanir af upphaflegri frétt í Fréttablaðinu. Molaskrifari gerði það einkum vegna þessara ummæla bæjarstjórans á Höfn:: ,,Bæjarráðinu var stillt upp með vonda valkosti skömmu fyrir töku þáttanna um það hvort þeir eigi að fara fram eða hvort menn ættu hreinlega að sleppa þessu“. Það var eiginlega ómögulegt að skilja þessi orð bæjarstjórans á annan veg en að hann væri hér að tala um Ríkissjónvarpið. En rétt skal vera rétt. Ríkissjónvarpið bar ekki ábyrgð á því að fjármálin við gerð þessa þáttar fóru gjörsamlega úr böndunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar