«

»

Molar um málfar og miðla 1001

Sérkennilega var að orði komist í Kastljósi á þriðjudagskvöld (04.09.2012) þegar sagt var að Gísli Kristjánsson væri staddur í Noregi. Molaskrifari veit ekki betur en Gísli Kristjánsson hafi átt heima í Noregi hátt í tuttugu ár, – ef ekki lengur. Í Kastljósi var skemmtilegt innslag um álftina einu á Arnarnesvoginum. Molaskrifari átti leið um gangstíginn við voginn þar sem hún spókaði sig í góða veðrinu á sunnudaginn. Gaman að þessu. Svo má benda umsjónarmanni (04.09.200012) á að fólk er yfirleitt hætt að sletta ensku og segja at þegar lesin eru póstföng á netinu. Nú segja nær allir hjá , ekki at. Sjónvarpsfólk ætti að tileinka sér það líka. Það gerði reyndar Brynja Þorgeirsdóttir í Kastljósi kvöldið eftir og fær hrós fyrir það.

Börn á aldrinum 16 og 17 ára sem þjást af tíðum endurteknum verkjum fer fjölgandi. Svona var tekið til orða í yfirliti kvöldfrétta Ríkisútvarpsins á fimmtudag (06.09.2012). Börn fer ekki fjölgandi. Börnum fer fjölgandi. Hversvegna flaskar fréttastofa Ríkisútvarpsins á svona sára einföldum hlutum? Kæruleysi? Hroðvirkni? Vankunnátta? Kannski er bara allt þegar þrennt er, eins og þar stendur.

Ungir Sjálfstæðismenn á Suðurnesjum álykta, segir visir.is (04.09.2012): Það vekur furðu að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið á þessum tímapunkti að gera breytingar á þingflokksformanni … Það er auðvitað ekki af hinu góða að vera að gera breytingar á fólki. Þótt stundum sé það nauðsynlegt.

Molalesandi sendi eftirafandi (04.09.2012): ,, Fáránlegt er að heyra aftur og aftur auglýsingar með málfræðivillum frá fyrirtækjum í Ríkisútvarpinu. Dæmi: Egill Árnason: „Fermeter“ en ekki fermetri. Kostur: „Líterinn“ en ekki lítrinn. Kostur: „Grammiti“ en ekki grænmeti” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Þegar einhver dettur niður á eitthvað sem verður heitt, sagði lögfræðingur sem rætt var við um hönnun og hugverkarétt í morgunþætti Rásar tvö (05.09.2012). Lögfræðingurinn átti við: Þegar einhver hannar eitthvað, eða skapar eitthvað, sem verður vinsælt …

Í Speglinum, fréttaskýringaþætti á Rás eitt (05.09.2012) var sagt að skýrsla hefði komist að niðurstöðu. Skýrslur komast ekki að niðurstöðu. Skýrsluhöfundar geta komist að niðurstöðu. Í skýrslu er komist að niðurstöðu. Þetta er eiginlega svolítið undarleg villa.

Það er svolítið þreytandi að heyra fjölmiðlamenn kalla annan hvern útlending sem hingað kemur Íslandsvin. Ben Stiller var nýjasti Íslandsvinurinn í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (05.09.2012).

Þegar konuröddina sem í sífellu tönnlast á hér á rúv þegar dagskrárefni sjónvarpsins er kynnt er það lítilsvirðing við okkur hlustendur/horfendur. Það á ekki að þurfa að segja okkur að Ríkissjónvarpið sé að kynna efni sem sýnt verður í Ríkissjónvarpinu.

Í Ríkissjónvarpinu var í fréttum (05.09.2012) sagt að verða að ósk einhvers. Eðlilegra er að tala um að verða við ósk einhvers.

Stórverslunin Nettó auglýsir ódýran frosinn lambabóg í sjónvarpi, en ári er kjötstykkið í auglýsingunni er grunsamlega líkt lambalæri, svona séð úr stofunni heima !

Molaskrifari þakkar góðum vinum og velunnurum hlýjar kveðjur og vinsamleg ummæli víða að þegar þúsundasti Molinn birtist í gær.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

 1. Jón Axel Egilsson skrifar:

  Í dag er leggurinn sniðinn af bógnum og seldur sem „bógur“ – þetta er kallað lamablæri fátæka mannsins á mínu heimili.

 2. Eiður skrifar:

  Og ég sem hélt auðskilið!

 3. Konráð Erlendsson skrifar:

  Nú fór í verra Eiður minn, ég skil bara alls ekki setninguna. Skrifaðir þú þetta sjálfur;-)

  ,,Þegar konuröddina sem í sífellu tönnlast á hér á rúv þegar dagskrárefni sjónvarpsins er kynnt er það lítilsvirðing við okkur hlustendur/horfendur. “

  http://eidur.is/2550

  Kveðjur, Konráð

 4. Sigurður Hreiðar skrifar:

  Ég held að þessum verkjabörnum fari ekkert fjölgandi. Nema þau séu að fjölga sér. En þeim fjölgar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>