«

»

Molar um málfar og miðla 1004

Molavin sendi eftirfarandi (08.09.2012): ,,Á götustrákamál heima í fyrirsögnum dagblaða? Hér er fyrirsögn dv.is (8.9.2012): Fyrrverandi landsliðsmaður drullar yfir prófessor. Hvergi í þeirri athugasemd, sem er tilefni fréttarinnar er þetta orð notað.” :Þetta eru furðulega skrif. Réttnefni er götustrákamál eins og Molavin segir.

Molalesandi sendi eftirfarandi (08.09.2012): ,,Veröld/Fólk | mbl | 8.9.2012 | 13:27 | Uppfært 13:50 – Sean Penn snæðir á Geysi-
Sá er ekkert blávatn. Ætli hann sé á gossúlunni eða fljóti bara á pollinum?” Það skortir náttúrulega á nákvæmnina hjá mbl.is að skýra þetta ekki nánar.

Í Lottóútdrætti (08.09.2012) var talað um einn komma sex milljarð þar sem hefði átt að tala um 1,6 milljarða að mati Molaskrifara.

Auglýsingamynd eða kynningarmynd Umferðarstofu um hættur fyrir börn á leið í skóla (Stöð tvö 09.09.2012) hefur orðið Molaskrifara umhugsunarefni. Barnið sem sýnt er í myndinni er svo ungt, svo lítið, að það mundi aldrei hvarfla að Molaskrifara að senda það eitt út á götu. Eftir myndinni að dæma er það varla mikið meira en 3-4 ára.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps(08.09.2012) var sagt nýtt fyrirkomulag verður tekið í notkun á Vopnafirði. Eðlilegra væri að mati Molaskrifarar að segja að nýtt fyrirkomulag yrði tekið upp, ekki að nýtt fyrirkomulag verði tekið í notkun.

Milli klukkan átta og níu á sunnudagsmorgni (09.09.2012) fylgdist Molaskrifari með tónlist á Rás eitt og Rás tvö. Á Rás eitt var vandaður þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur, Á tónsviðinu þar sem flutt var (Una Margrét flutti ekki, eins og þulur sagði) tónlist af ýmsu tagi sem tengdist Akureyri. Að venju voru kynningar á tónlistinni, flytjendum og höfundum til stakrar fyrirmyndar. Að þættinum loknum var flutt lag þar sem kynning höfunda og flytjenda var einnig til óaðfinnanleg. Á Rás tvö var á dagskrá þáttur sem kenndur er við stjórnandann, Sirrý. Þar var einungis sagt frá heiti laganna og flytjanda, ekkert var sagt um höfund ljóðs eða texta. Það á að sýna listamönnum sama sóma, sömu kurteisi á báðum rásum.

Það er ekki nákvæmt þegar fjölmiðlar segja hvað eftir annað að Bjarni Benediktsson hafi sett Ragnheiði Elínu Árnadóttur þingflokksformann af og sett Illuga Gunnarsson sem þingflokksformann í hennar stað. Ef vinnubrögð eru hin sömu í Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum sem Molaskrifari þykist viss um, þá er þetta ákvörðun þingflokksins. Flokksformaðurinn leggur tillögu fyrir þingflokkinn sem síðan samþykkir eða hafnar, – en ef þingflokkurinn hafnaði tillögu formanns væri staða formannsins heldur slæm.

Málfar í fréttum klukkan átta á sunnudagsmorgni (09.09.2012) í Ríkisútvarpinu var vandað og um flest til fyrirmyndar.

Í dagskrárkynningu Stöðvar tvö (09.09.2012) var talað um fjögur Emmy-verðlaun. Fern verðlaun. Ekki fjögur verðlaun.

Byggðalínan datt út, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (10.09.2012). Alltaf að vanda sig.

Það þarf dálítið til að Molaskrifari sleppi upphafi kvöldfrétta Ríkissjónvarps. Það gerðist þó (10.09.2012) í gærkveldi. Þá hafði Ísland í dag á Stöð tvö vinninginn, líklega í fyrsta skipti. Stórgóður þáttur Kristjáns Más Unnarssonar frá virkjunarframkvæmdum 300 km norðan við heimskautsbaug á norðvestur Grænlandi sem þar sem Ístak vinnur að stærstu framkvæmd í 40 ára sögu fyrirtækisins. Oft skýtur Stöð tvö ríkisfréttastofunni ref fyrir rass. Hefur þó ríkisfréttastofan margfalt fleira fólk og margfalt meira fé til ráðstöfunar. Hlakka til að sjá meira frá Grænlandi frá Kristjáni Má í kvöld.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>