«

»

Molar um málfar og miðla 1006

Dyggur Molalesandi , Einar Kr. sendi eftirfarandi sem á erindi til lesenda , – og ekki til síst fjölmiðlamanna:,, Ég rakst á athyglisverða bloggfærslu Sigurbjörns Sveinssonar læknis undir fyrirsögninni „Farið um Brattabrekku en ekki Bröttubrekku“ (http://sigurbjorns.blog.is/blog/sigurbjorns/entry/1256907/), sem mér finnst rétt að vekja athygli á í heild sinni. Hann segir: „Þegar komið var af fjallinu á póstleiðinni vestur í Dali og niður í Suðurárdal var farinn svokallaður Bratti. Leiðin liggur austan við núverandi vegarstæði vestur. Brattabrekka dregur nafn sitt af þessum Bratta. Því er rétt að segja að farið sé um Brattabrekku en ekki Bröttubrekku. Svipað dæmi er Kaldakinn. Maður fer í Kaldakinn en ekki Köldukinn. Hljóðvörpin vinna á þessum orðum með tímanum og nöfnin glata upprunalegri merkingu sinni.“ Sama má segja um mörg önnur kennileiti eða staðarheiti. Á Vestfjörðum er Rauðasandur, ekki Rauðisandur. Maður fer í Breiðavík, ekki í Breiðuvík. Maður fer í Djúpavík, ekki Djúpuvík, tekur mið af kennileitinu Djúpa. Allt tekur þetta mið af kennileitum á eða í nágrenni þessara staða.” Molaskrifari þakkar góða sendingu.

Í Morgunblaðinu í dag (13.09.2012) er skemmtileg , já skemmtileg, grein eftir Pál Magnússon útvarpsstjóra. Greinin er svar við grein eftir Guðna Ágústsson. Þar fer ekki á milli mála að í grein Páls er skotið föstum skotum að Ólafi Ragnari Grímssyni, þótt ekki sé hann nefndur á nafn. Stjórnmálaforinginn sem kveinkaði sér undan stöðugt undan Spaugstofunni. Páll Magnússon segir:,,Um þá kveinstafi alla fóru fram margir skrítnir fundir og samtöl sem ekki verða rifjuð upp hér.” Engum dylst við hvern er átt. Það skilst fyrr en skellur í tönnum. Útvarpsstjóri má til með að rifja þessa fundi upp. Sú upprifjun gæti orðið efni í nýja gamanþáttaröð á borð við Spaugstofuna sem Ríkissjónvarpið missti svo klaufalega frá sér yfir á læsta rás Stöðvar tvö.

Föst venja er að útvarpa og sjónvarpa frá setningu Alþingis. Engu er líkara en löngu boðuð þingsetning í fyrradag (11.09.2012) hafi komið stjórnendum í Efstaleiti gjörsamlega í opna skjöldu. Í prentaðri dagskrá útvarps og sjónvarps í Morgunblaðinu þriðjudaginn, 11. september, var hvergi gert ráð fyrir að útvarpað eða sjónvarpað væri frá setningu Alþingis. Setningu þingsins bar ekki brátt að. Fyrirvarinn var margir mánuðir. Undarleg vinnubrögð.

Af mbl.is (11.09.2012): Þá bar þingsetninguna upp á laugardegi og fjöldi mótmælenda var á Austurvelli til að mótmæla. Molaskrifari hefði hér annaðhvort sagt: Þá bar þingsetninguna upp á laugardag, eða, – þá var þingsetningin á laugardegi. Svo hefði alveg nægt að segja: … og fjöldi mótmælenda var á Austurvelli. Knappur texti er oftast betri.

Annar Molalesandi sendi þetta (10.09.2012): ,,Það er varla hægt að lesa nokkra klausu í fjölmiðli án þess að rekast á ambögur. Ég er svo sannarlega ekki að leita að þeim!
,,Hann segir að eftir það muni lægja hægt og rólega með kvöldinu og inn í nóttina.“ ,,Inn í nóttina“. Er það ekki útlenska?
,,Á Mánárbakka, austan Akureyrar var 43, millimetrar sem er, samkvæmt Sigurði, nálægt meðaltali mánaðar úrkomu.“
Þetta finnst mér klén landafræði. Tjörnes er vissulega austar en Akureyri, er nóg að vísa til vegar með því að segja að Þórsmörk sé austan Reykjavíkur?
(http://www.dv.is/frettir/2012/9/10/vedrid-naer-hamarki-um-hadegi/)” Kærar þakkir.

Margt skrautlegt og skemmtilegt er að finna á því sem mbl.is kallar Smartland. Molalesandi,gamall vinur, benti skrifara á eftirfarandi fyrirsögn á Smartland (10.09.2012) : Kærasta Chris Browns kokkáluð.
http://www.mbl.is/smartland/stars/2012/09/09/kaerasta_chris_browns_kokkalud/ Kokkáll er sá sem á konu sem heldur framhjá honum; hann er kokkálaður, segir orðabókin. Mikið er umburðarlyndi stjórnenda mbl.is.

Málgleði þingmanna seinkaði seinni fréttum sjónvarps (12.09.2012) um 20 mínútur. Lítið við því að gera. Bogi þulur bað hlustendur/horfendur afsökunar á seinkuninni. Aðrir þulir geta margt af honum lært.

Óvenjulegt og ánægjulegt að fá sígilda tónlist með svolítið léttu ívafi rá Vínarborg (12.09.2012) í Ríkissjónvarpinu. Takk fyrir það. Mætti gerast oftar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sjálfsagt er þetta rétt hjá þér, Sigurður Hreiðar!

  2. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Þetta með sögnina að kokkála: í samræmi við nútíma útsléttun (les: jafnrétti) þykjast konur þess ábyggilega umkomnar að vera kokkálaðar, ekkert síður en karlarnir. Ég hef heyrt talað um kviðmágkonur, sem er angi af þessum sama meiði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>