Í fréttum Stöðvar tvö (30.09.2012) var talað um fjögur Emmy-verðlaun. Átti að sjálfsögðu að vera fern Emmy-verðlaun. Það er eins og Molaskrifara minni að hann hafi heyrt þetta orðalag áður á Stöð tvö.
Fyrirsögn á mbl.is (29.09.2012) Þjóðin tekur tillögunum ekki alvarlega. Fyrirsögnin er tilvitnin í ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins. Molaskrifari hallast að því að betra hefði verið að segja: Þjóðin tekur tillögurnar ekki alvarlega.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (29.09.2012) var talað um þrautarlendingu. Rétt er að tala um þrautalendingu, ekki þrautarlendingu.
Fréttir Ríkissjónvarps (29.09.2012): Þetta þýðir auðvitað aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin. Betra væri: Þetta þýðir auðvitað aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin.
Mannlaus bifreið rann út í Jökulsárlón og fór á bólakaf. Úr frétt um málið á mbl.is (30.09.2012): Spurður hver næstu skref verða segir hann einungis hægt að bíða og sjá hvort bifreiðin losi olíu í lónið. Heldur er þetta nú illa orðað. Betra hefði verið til dæmis að segja …. bíða og s já hvort olía lekur úr bifreiðinni. Bifreiðin losar ekki eitt né neitt í þessu tilviki.
Fréttir Stöðvar 2 (29.09.2012) Önnur var útskúfuð úr vinahópnum.. Hér hefði átt að segja: Annarri var útskúfað úr vinahópnum…
Fyrirsögn á mbl.is (30.09.2012): Fann ein milljón á götunni. Er þetta fallafælni? Ætti að vera: Fann eina milljón á götunni.
Forsetninganotkun með staðaheitum í íslensk er nokkuð föst og venjubundin. Undarlegt var því að heyra í fréttum Stöðvar tvö talað um að koma við á Stykkishólmi og á Borgarnesi. Málvenja er að segja í Stykkishólmi og í Borgarnesi.
Þær bregðast ekki þýðingarnar á mbl.is! (mbl.is 18.09.2012) Bandaríska öfgafréttastöðin sýndi mann fremja fremja sjálfsmorð í beinni útsendingu. Við klúðruðum þessu algerlega,“ sagði Anchor Shepard Smith, fréttamaður á Fox News í dag og baðst um leið afsökunar á mistökunum. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/09/28/syndu_myndir_af_sjalfsmordi/ Það sem er athugavert hér er að vissulega heitir maðurinn Shepherd Smith. Hann heitir hinsvegar ekki Anchor Shepherd Smith! Anchor er stytting úr anchorman, – fréttaþulur !” Sjá: http://watching-tv.ew.com/2012/09/28/fox-news-airs-live-suicide-anchor-shepard-smith-apologizes-we-really-messed-up-video/
Orðið þingkona er arfleifð frá Kvennalistanum sáluga. Þær konur vildu ekki vera þingmenn. Af einhverjum misskilningi fóru þær að kalla sig þingkonur. Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta konan sem kjörin ar til setu á Alþingi kallaði sig alþingismann. Ekki alþingiskonu. Þingkonur komu mjög við sögu í fréttum Ríkisútvarps og sjónvarps (28.09.2012) þegar greint var frá því hvaða þingmenn ætluðu ekki að bjóða sig fram að nýju. Þar var talað mikið um þingkonur. Þuríður Backman var hinsvegar sögð vera alþingismaður. Í anda jafnfréttis ættu fjölmiðlar að hætta að tala um alþingiskonur, eða þingkonur. Konur eru menn. Þessvegna eru allir sem kjörnir eru til setu á alþingi Íslendinga alþingismenn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
02/10/2012 at 18:51 (UTC 0)
Satt segirðu !
Ólafur Þórir Auðunsson skrifar:
02/10/2012 at 18:00 (UTC 0)
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/02/leitarmadur_fell_ofan_i_holu_hja_kind/
Verð að segja að fyrirsögnin og öll fréttin er frekar barnalega skrifuð.Var holan hjá kind?
Eiður skrifar:
02/10/2012 at 09:51 (UTC 0)
Með góðum hug má líta á þetta sem ritvillu fremur en málvillu, – en prófarkalestur , yfirlestur er greinilega enginn.
Björn S. Lárusson skrifar:
02/10/2012 at 09:35 (UTC 0)
Sæll Eiður
Forsvarsmenn mbl.is ættu alvarlega að fara að hugsa sinn gang varðandi starfsfólk. Í fyrradag birtist fyrirsögnin; 10 ár grafin úr fönn eftir 18 daga. Átti auðvitað að vera 10 ær.
Eftir ábendingar og hæðnistóna á Fb var þetta leiðrétt.
Hvað er hægt að sökkva djúpt í fen vankunnáttu á málinu okkar.
Með kveðju