Bæjarstjórn Garðabæjar er einbeitt í þeim ásetningi sínum að eyðileggja hluta Garðahrauns/ Gálgahrauns með allsendis óþarfri vegarlagningu. Þessar fyrirhuguðu framkvæmdir bæjarstjórnarinnar munu valda skaða sem aldrei verður hægt að bæta. Eyðilagt eldhraun er ekki hægt að byggja upp að nýju.
En hér er brotaviljinn svo einbeittur að lög eru teygð og toguð til hins ítrasta. Þegar vilji er fyrir hendi er stundum hægt að finna leiðir til að fara á svig við gildandi lög. Þetta gerir bæjarstjórnin í Garðabæ þegar kemur að eyðileggingu hraunsins..
Þetta gerir líka bæjarstjórinn í Garðabæ. Hann birtir í dag (06.12.2012) tvær greinar um hið nýja skemmdarverk Garðahrauni/Gálgahraunisem nú er á döfinni. Greinarnar birtast í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Þær eru eins að uppistöðu og efni. Sama mynd með sama texta birtist í báðum blöðum. Setningum er hnikað til á stöku stað, en þetta er sama greinin.
Þegar greinar eru sendar til birtingar í greinakerfi Morgunblaðsins segir á innsendingarsíðunni: Greinar sem sendar eru til annarra miðla eru ekki birtar í Morgunblaðinu. Bæjarstjóri Garðabæjar fer í kringum þessa reglu með því að örbreyta grein sinni. Hnika til setningum. En þetta er sama greinin. Morgunblaðið hefði ekki birt grein bæjarstjórans ef vitað hefði verið að hún var líka send Fréttablaðinu, nánast óbreytt. Ekki samkvæmt reglunum. Þetta eru nákvæmlega sömu vinnubrögð og bæjarstjórnin beitir gegn hraundjásnum í landi bæjarins. Farið er á svig við reglurnar og í kringum þær.
Bæjarstjórnin getur ekki verið stolt af þessum vinnubrögðum.
Bæjarstjórinn getur heldur ekki verið stoltur af sínum vinnubrögðum varðandi þessi greinarskrif.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/10/2012 at 15:55 (UTC 0)
Sæl, María. Takk fyrir þetta. Hef það í huga. K kv Eiður
María Grétarsdóttir skrifar:
06/10/2012 at 15:32 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Mér þætti vænt um þegar þú nefnir bæjarstjórn Garðabæjar að í stað orðalagsins bæjarstjórn Garðabæjar að segja meirihluti í bæjarstjórn Garðabæjar, sjá nánar bókanir og afstöðu FÓLKSINS- í bænum til þessarar framkvæmdar á xm.is.
Með kveðju, María Grétarsdóttir, bæjarfulltrúi FÓLKSINS- í bænum