Fréttamenn eiga að nefna fólk fullu nafni þegar það kemur við sögu í fréttum. Ekki segja Eygló Harðar eins og gert var í hádegisfréttum á laugardegi (08.12.2012) heldur Eygló Harðardóttir. Í sama fréttatíma var sagt frá umræðum á Alþingi og sagt að ráðherra hefði mælt með frumvarpi. Ráðherra mælti fyrir frumvarpi við fyrstu umræðu þess og kynnti efni þess. Hann mælti að sjálfsögðu með því að frumvarpið yrði samþykkt.
Auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins þarf að ráða prófarkalesara. Hið snarasta. Þá hættum við að sjá villur í skjáauglýsingum eins og … í íþróttavöruverslunum landssins. Auglýsingar á föstudagskvöld (07.12.2012)
Breskur hjúkrunarfræðingur réði sér bana eftir að hafa orðið fórnarlamb ósmekklegs símahrekks ástralskar útvarpsstöðvar. Fulltrúi eigenda stöðvarinnar hefur komið í sjónvarpi um víða veröld og sagt að ekki hafi neinar verklagsreglur verið brotnar. Það eru undarlegar verklagsreglur þar sem starfsmönnum útvarpsstöðvar leyfist að ljúga og villa sér heimildir! Þarna voru að verki dómgreindarlausir, sjálfumglaðir útvarpskjánar. Þekkt fyrirbæri.
Þrátt fyrir … tókst heimakonum ekki að stela sigri var sagt í íþróttafréttum Ríkisjónvarps ((08.12.2012). Hvernig er sigri stolið? Er stolinn sigur ekki illa fenginn sigur? Eins og annað þýfi. Við hvað er átt þegar talað er um að stela sigri?
Það er umhugsunarefni að Morgunblaðið skuli birta langa umfjöllun um andsetin börn og særingar (09.12.2012). Efnið er reyndar svo ógeðfellt að engu tali tekur. Ekki beinlínis aðventulesefni.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (09.12.2012): Ríkin þurfa svo að ákveða sín á milli hverjar skuldbindingar hvers og eins verður. Þetta var lesið athugasemdalaust í tíufréttum. Hér hefði átt að standa: Ríkin þurfa svo að ákveða sín á milli hverjar skuldbindingar hvers og eins verða.
Í endurteknum matreiðsluþætti í Útvarpi Sögu í liðinni viku talaði útvarpsstjórinn írekað um hamborgarahrygg, matreiðslumeistarinn Siggi Hall hélt sig við að tala um hamborgarhrygg. Sami útvarpsstjóri auglýsir súkklakökur og talar ævinlega um þjófélagið! Hvaða félag skyldi það nú vera?
Ágæt úttekt og umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu í fréttum og Kastljósi Ríkissjónvarps (10.12.2012). Sigmar saumaði að Kára Stefánssyni sem var háll sem áll.
Í fréttum Stöðvar tvö (10.12.2012) var sagt frá eldsvoða á Laugavegi. Fréttamaður sagði: … þegar reykur lagðist um allt. Betra hefði verið: … þegar reyk lagði um allt. Í sömu frétt var sagt: Verslunin á jarðhæðinnin opnar í dag. Ekkert var sagt um hvað versluninni mundi opna. Enda átti að opna verslunina. Hún átti ekki að opna eitt né neitt.
Sagt var frá afhendingu friðarverðlauna Nóbels í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðva (10.12.2012) á mánudagskvöld. Undarlegt fréttamat hjá Ríkissjónvarpi að sýna langt myndskeið frá fámennum mótmælafundi ESB andstæðinga í Osló daginn áður með dónalegu skilti, sem lengi sást á skjánum. Ekkert var hinsvegar sagt frá hefðbundinni blysför að Grand Hótel að kveldi dagsins sem verðlaunaveitingin fór fram. Líklega hafa stjórnendur Ríkisútvarpsins ekki haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að hafa beina útsendingu í heild eða að hluta frá Osló eða Stokkhólmi þar sem önnur Nóbelsverðlaun voru afhent í gær.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
Skildu eftir svar