«

»

Molar um málfar og miðla 1087

Molavin benti á þetta (15.12.2012): ,,Í þættinum Orð um bækur verður tillt niður í leshring glæpasagna í Borgarbókasafninu…“ Þannig hefst orðrétt dagskrárkynning á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Einhver verður að lesa yfir það sem sett er á síðuna.”. Takk fyrir þetta Molavin. Það verður greinilega að bæta við starfsfólki í Efstaleitinu.

Lesandi sendi þetta (13.12.2012): ,,Ruglið að ræða um ásakanir sem ávirðingar á hendur einhverjum fer sívaxandi. Hingað til hafa ávirðingar verið það sem viðkomandi verður á, en ekki það sem hann sakar annan um.“
Þetta er rétt. Ávirðing er yfirsjón eða misgerð, segir orðabókin og máltilfinningin. Vísað er í þessa frétt um ummæli þingmanns: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/12/liggur_vid_ad_manni_verdi_flokurt/

Merkilegt er hvernig fréttamenn Ríkisútvarps, allir nema Sveinn Helgason , fréttaritari vestra, virðast leggja metnað sinn í að bera heitir ríkisins Connecticut rangt fram. Hér má heyra réttan framburð: http://www.howjsay.com/index.php?word=connecticut Molaskrifari hlustaði á einar fjórar erlendar sjónvarpsstöðvar (16.12.2012). Þar sem nafn ríkisins var allsstaðar borið fram eins og á að gera, án – k – hljóðs í miðjunni. Þetta eru óvönduð vinnubrögð. Fréttastofa Stöðvar tvö er reyndar undir sömu sök seld. – Hinsvegar var rétt farið með nafnið í morgunþætti Rásar tvö í morgun (17.12.2012). Þeir félagar ættu að taka fréttastofuna í læri.

Í fyrirsögn og frétt á dv.is (13.12.2012) er talað um bílabatterí! http://www.dv.is/frettir/2012/12/12/lestarstodinni-lokad-vegn-bilbatter/ Í áratugi hefur þetta heitir geymir eða rafgeymir á íslensku. Fleiri ráku augum í þetta, og fleira. Jón G. Guðmundsson segir (14.12.2012): Sælir og takk fyrir gott starf.
eitt sem stingur í augu varðandi fréttaflutning er þegar fjölmiðlamenn nenna
ekki að þýða orð.
Snjóstormur er allt of algengt tökuorð.
Íslenska hefur nóg af eigin orðum yfir þetta;
Bylur, hríðarveður, kafald, eða kafaldsbylur o.s.frv.
Ég rakst t.d. á orðið bílabatterí í umfjöllun um rýmingu á aðallestarstöðinni
í Kaupmannahöfn.
Þetta er nokkuð sem á íslensku kallast rafgeymir.
Og svo að lokum eitt orðskrípi sem ég þoli ekki. Það er að ,,fókusera“
menn leggja áherslu á, beina sjónum sínum að, einbeita sér að,
hafa auga með, en á íslensku „fókusera“ þeir ekki.” Molaskrifari þakkar Jóni bréfið.

Egill Helgason í Ríkissjónvarpinu og Pétur Gunnlaugsson í Útvarpi Sögu eiga það sameiginlegt að hafa mikið dálæti á konunni sem var svo ánægð þegar ýmsu lauslegu var kastað í alþingismenn á leið til kirkju við þingsetningu hér um árið. Konan tvítók á sínum tíma ánægju sína með þetta í beinni útsendingu Ríkissjónvarps. Viðtalið er ekki finnanlegt á vef Ríkisútvarpsins. Andrea Jóhanna Ólafsdóttir er fastagestur í Silfrinu. Hún vildi verða forseti í sumar. Fékk 1,8 % greiddra atkvæða. Vill nú verða þingmaður. Kannski fær hún 2,0%. Egill Helgason og Pétur Gunnlaugsson hafa tekið höndum saman um að hjálpa til við það. Það er auðvitað fallega gert.

Í tíufréttum Ríkisútvarps (13.12.2012) var sagt: … þar ber hæst tillaga um… Rétt hefði verið að segja: … þar ber hæst tillögu um … Þetta heyrist ærið oft.

Skemmtileg og vönduð samantekt Andrésar Indriðasonar um Jón Múla Árnason úr safni Sjónvarpsins á sunnudagskvöldi.(16.12.2012) Lögin hans Jóns Múla eru perlur.

Á tónlistarkvöldi Ríkisútvarpsins á Rás eitt (13.12.2012) voru fluttir tónleikar World Orchestra for Peace sem Sir George Solti stofnaði, en 100 ár voru frá fæðingu hans á þessu hausti. Þetta var góðra gjalda vert og margt afbragðsefni er að finna á Rás eitt. Norska sjónvarpið NRK sýndi sínu fólki (09.12.2012) klukkutíma heimildamynd um hljómsveitarstjórann Solti og drjúgan hluta tónleikanna. Hversvegna fengum við ekki að sjá þetta?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>