«

»

Molar um málfar og miðla 1089

Fargjöld í Herjólf hækka um áramót,er fyrirsögn(15.12.2012) á fréttavef Ríkisútvarpsins. Átt er við fargjöld með Herjólfi.

Molalesandi spyr (15.12.2012):,, Í Fréttablaðinu í gær var þessi stríðsfyrirsögn á forsíðu: Innflutningsbann á jólatré? Segir ekki beygingareglan að þetta eigi að vera:Innflutningsbann á jólatrjám? Eða hvað?”. Jú , Molaskrifari hallast að því.

Annar lesandi spyr vegna fyrirsagnar á visir.is (13.12.2012): ,,Spurning hvort að hér sé komin fyrirsögn ársins. „Lönsj í bikiníi“
http://www.visir.is/lonsj-i-bikinii/article/2012121219781 “ Það gæti svo sem verið!

Í fréttum Ríkissjónvarps (15.12.2012)var sagt að helmingi dýrara væri að senda jólakort fyrir þessi jól en var fyrir jólin 2007. Þarna átti að segja tvöfalt dýrara, ekki helmingi dýrara. Borið var saman hvað kostaði að senda 20 gr. jólakort þá og 50 gr. jólakort nú. Sá samanburður orkar tvímælis.

Af mbl.is (14.12.2012): Þrír ökumenn voru handteknir af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, … Germynd er alltaf betri: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá ökumenn í nótt, … Í sömu frétt var talað um upplýsingatöku. Venjulegra er að tala um skýrslutöku.

Vikið hefur verið að því hér áður að það hljóti verabyggt á ítarlegum hlustendakönnunum Ríkisútvarpsins að vera með barnaþáttinn Leynifélagið á dagskrá á Rás eitt á milli klukkan sjö og átta ásunnudagsmorgnum. Þetta er ágætur þáttur en tæplega á réttum stað ídagskránni. Svo er hálfhallærislegt að ljúka þætti snemma morguns á því að segja að þetta verði ekki lengra ,,í kvöld”, og geta þess ekki frekar enn fyrri daginn að um endurflutt efni hafi verið að ræða. Í kjölfarið fylgdi svo prýðilegur þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur, – Á tónsviðinu.

Alexander Gunnar sendi þetta (16.12.2012): Norðmenn höfðu unnið fern mót í röð“ sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins í dag (16.12.12) Er ekki réttara að segja fjögur mót? Fjögur mót, – sjálfsögðu. Ekki fern.

Í myndatexta í DV (17.12.2012) stendur: … áður en hún kastaðist niður brattafjallshlíðina eftir vindkviðu. Vindhviða er skrifað með hv- ekki kv- , vindhviða. Þetta var kennt í gagnfræðaskólum í gamla daga. Svo hefði ef til vill verið eðlilegra að segja:… eftir að vindhviða feykti henni niður bratta fjallshlíðina.

Fréttaþulur Stöðvar tvö sagði frá því að lögreglan leitaði fanga ,sem strokið hefði af fangelsinu á Litla Hrauni (17.12.2012) . Fanginn strauk úr fangelsinu á Litla Hrauni. Hann strauk af Litla Hrauni. Önnur forsetning var á röngum stað í þessum sama fréttatíma. Þar var talað um saltverksmiðju eða saltsuðu á Reykhólum. Sagt var: … hófst svo bygging verksmiðjunnar en hún verður í hafnargarðinum á Reykhólum. Verksmiðjan verður ekki í hafnargarðinum. Hún verður á hafnargarðinum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. -ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Björn S. Lárusson skrifar:

    Vegna umræðu um „helmingi dýrara“ langar mig að vekja enn og aftur athygli á orðinu „prósentustig“. Í hagfræði er til ágætt orð sem notað er í staðin en það er orðið „punktar“. Ef vextir eru hækkaðir úr 10 í 10,5 % er talað um að vextir hækki um 50 punkta en ekki hækkun um 0,5 prósentustig. Prósentustig er ekki til í hagfræði eða stærðfræði.

  2. Guðlaug Hestnes skrifar:

    Það stóð viðkviða í frétt á dögunum, og fótboltamaður var borinn af velli á sjúkrabörnum!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>