«

»

Molar um málfar og miðla 1097

Molavin sendi Molum þetta í lok árs 2012: ,,Margir fjölmiðlar birta orðrétt upp úr fréttatilkynningum lögreglunnar, líkt og þetta á gamlárskvöld: ,,framkvæmdi húsleitir á þremur stöðum.“ Hér er átt við að lögreglan hafi,,leitað í þremur húsum.“ Nafnorðið ,,húsleit” er jafnan notað í eintölu þótt leitað sé í fleiri húsum. Þótt upplýsingafulltrúi lögreglunnar telji sér rétt og skylt að nota óþjált stofnanaorðalag, þá er það hlutverk fjölmiðla að færa slíkt á mannamál.”
Satt og rétt.

Nú er yfirleitt tekið þannig til orða í fréttum um drukkið fólk eða fólk undir áhrífum annarra vímuefna eða eiturlyfja að það sé í annarlegu ástandi. Það er auðvitað rétt. Þetta orðalag var notað um þrjá einstaklinga í sexfréttum Ríkisútvarpsins að morgni sunnudags (30.12.2012) Þó kastaði fyrst tólfunum þegar talað var um annarleika ástandsins !
Undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (0201.2013): Dr. Eiríkur Bergmann Einarsson hefur hlotið framgang sem prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir í tilkynningu frá skólanum. Enn undarlegra verður þetta að teljast sé það tekið orðrétt úr tilkynningu frá einum af háskólum landsins!
Norrænu stöðvarnar leggja sérstaka rækt við að velja góðar kvikmyndir fyrir sitt fólk um hátíðarnar. Sama daginn (30.12.2012) sýndi danska sjónvarpið Driving Miss Daisy og As Good as it Gets. Í sænska sjónvarpinu var Sting með Paul Newman og Robert Redford, og er þá fátt eitt nefnt. Allt sígildar öndvegismyndir. Íslenska Ríkissjónvarpið finnur afar sjaldan efni af þessu tagi. Kvikmyndavalið er stundum eins og bundið sé fyrir bæði augu innkaupastjóranna. Gott væri að fela danska sjónvarpinu kvikmyndainnkaupin fyrir Ríkissjónvarpið í Efstaleiti.

Oft er áfengi með í spilunum sagði á ágætri viðvörunarauglýsingu björgunarsveitanna í sjónvarpi (30.12.2012) . Molaskrifari hallast að því að betra hefði verið að segja: Oft er áfengi í spilinu … ef til vill er þetta þó jafngilt.
Þessi frétt á mbl.is (30.12.2012) er dálítið sérstök: ,,Vatsleki (svo!) kom upp í íbúðarhúsi í Hafnarfirði á sjötta tímanum í dag. Að sögn slökkviliðsmanns hjá Slökkviliði Reykjavíkur hafði allmikið magn vatns flætt niður í kjallara hússins og þurfti að dæla upp úr honum. Talið er líklegt að lítilsháttar eignatjón hafi hlotist af lekanum, en þeim tilmælum er beint til húsnæðiseigenda að byrgja vel glugga og dyr á neðri hæðum húsa sinna þegar úrkoma er mikil eða snjóþungt.” Fréttinni fylgdi mynd af lögreglubíl. Vírnetsgirðing á forgrunni! Meistaraflokkur mbl.is var ekki á vaktinni þetta kvöld. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/30/leki_i_husi_i_hafnarfirdi/ Þetta sama kvöld komu Sauðkræklingar við sögu á mbl.is, – í annarri dásemdarvel skrifaðri frétt: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/30/kveikir_i_brennu_med_boga_og_or
Í frétt í Fréttablaðinu á gamlársdag um áramótabrennur segir í undirfyrirsögn: Varðstjóri brýnir fyrir fólki að skilja baukinn og flugeldana eftir heima. Má nú ekki lengur taka í nefið við áramótabrennurnar? Líklega ruglar fyrirsagnahöfundur þarna saman bauki og pela.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á gamlársdag var sagt: Bálkestirnir hafa fennt í kaf. Hér hefði átt að segja: Bálkestina hefur fennt í kaf.

Athugull hlustandi og Molalesandi sendi þessar línur á gamlársdag: ,,Hlustaði áðan á Samfélagið í nærmynd, m.a. á viðtal við konu sem var að gefa út disk með söng og frásögnum, heyrðist mér, sem mikið hefði vantað til að spila um áramót.
Tók hún sérstaklega fram að á diskinn þyrfti að hlusta með hjartanu.
Það kom því dálítið við hjartað í mér þegar ég hlustaði á Snorra Wium syngja lag af diskinum, sem mikið er sungið á þessum tíma árs, bæði í útvarpi og víðar.
Þar var að mér heyrðist búið að ,,betrumbæta“ þýðingartexta Jónasar Hallgrímssonar, a.m.k. miðað við það sem ég lærði sem barn og allstaðar þar sem ég hef leitað m. a. í ljóðmælum Jónasar frá fyrri tíð. Nú syngur þessi ágæti söngvari Snorri í einu erindinu í nútíð þar sem Jónas hafði í þátíð: ,, er það út af ástinni ungu sem ég ber, eða er það feigðin sem kallar að mér.”
Má ekki ætlast til að menn séu ekki að breyta textum þjóðskáldsins upp á eindæmi eða er þetta viðurkennd aðferð?
Hvað finnst þér?” Þetta er rétt hjá bréfritara. Þarna er ekki farið rétt með þýðingu Jónasar Hallgrímssonar á ljóði þýska ljóðskáldsins Heinrichs Heines. Hann var ekki textahöfundur. Hann var ljóðskáld. Hann hét ekki Hæn eins og sagt var í þættinum. Þetta er ekki viðurkennd aðferð. Langt í frá. Þetta eru afleit vinnubrögð hjá útgefanda disksins. Hann hefur ekki vandað sig og söngvarinn ekki vitað betur. Slæmt. á Þjóðlagakvöldi á Rás eitt á gamlárskvöld söng Kristinn Hallsson Álfareiðina og hjá honum var textinn að sjálfsögðu réttur.

Við óskum landsmönnum gleðilegt nýár, segir í auglýsingu frá Rúmfatalagernum. Ætti að vera: Við óskum landsmönnum gleðilegs nýs árs.

Lokaskot: Verk Jóhannesar Karval á Kjarvalsstöðum af vef Ríkisútvarpsins (02.01.2012). Hvar var gæðaeftirlitið? Enginn yfirlestur.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir. Þakka þér hlý orð og óskir og óska þér alls hins besta á nýju ári.

  2. valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Fyrirgefðu, Eiður. Ég sé að mér hefur orðið illilega á, misgripið mig bæði á tónverkum og flytjendum! Slíkt er vel af sér vikið , og tekst varla öðrum en hálf-níræðum, og veikum í þokkabót! En þakklæti mitt til þín fyrir fróðleik og skemmtan stendur óhaggað, svo velfarnaðaróskir.
    K, kv. VS.

  3. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Má ég, gamall og sjúkur, slást í hópinn og þakka molaskrifara alla skemmtun og fróðleik á gamla árinu, um leið og ég óska alls velfrnaðar á hinu nýja. Kærar þakkir, Eiður! En um leið langar mig að benda á, í elli-nöldri mínu, að sá Kristinn sem söng fyrir okkur á nýjásdag, er ekki Hallsson, heldur Sigmundsson.
    K. kv. VS.

    ES/ Halldór Halldórsson próf, vildi að menn hefðu j í orðinu nýjár!

  4. Eiður skrifar:

    Aldrei heyrt þetta með bauk af öli! Alltaf lærir maður eitthvað nýtt . Hef hinsvegar heyrt menn úr ónefndum landshluta tala um að þeir hafi ,,tekið tvær hurðir“. Drukku tvisvar sinnum allt sem var í í ísskápnum á hóteherberginu!
    Minnir líka á Íslendinginn sem var spurður við brottför af þýsku hóteli hvort hann hefði neytt nokkurs úr ísskápnum á herberginu. Hann hikaði aðeins en sagði svo: Alles, zweimal!

  5. Þorvaldur S skrifar:

    Þetta með baukinn. Í sumum landshlutum drekka menn öl úr bauk. Og fá sér einn eða tvo bauka. Við það er átt þegar menn eru hvattir til að sleppa bauknum við brennuna. Hinsvegar bendir ýmislegt til að Eiður sé ekki vanadrykkjumaður úr því hann kannast ekki við þetta orðalag, og er það vel, en hugsanlega tekur hann í nefið.
    Svo er það Hofsós. Snjóflóðahætta skapaðist á Hofsósi en lítil hætta var þó á því að flóð félli á allan Hofsós. Býsna algengt er að þágufalls -i hverfi og er það illa.

  6. Eiður skrifar:

    Aldrei heyrt um hvos. Áreiðanlega ekki til íslensku. Kvos þekkja allir, – vonandi!

  7. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Á vef Ríkisútvarpsins og á vef vísis.is er fjallað um hættu á snjóflóði á Hofsós. Sagt er frá snjóhengjum í bökkunum fyrir ofan Hvosina
    http://www.ruv.is/frett/haettuastand-enn-a-hofsosi

    http://visir.is/snjoflodahaetta-a-hofsosi/article/2013130109881

    Er örnefnið Hvos til? Er orðið hvos til í íslensku máli?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>