«

»

Molar um málfar og miðla 1100

Valur Óskarsson sendi þetta (03.01.2013): ,,Um áramótin voru menn sífellt að tala um kommentakerfi DV. Skyldi orðið athugasemd vera alveg týnt, nema hvað?
Mér fannst rétt að koma með komment og kommentera á það.” Rétt athugað.

Stefán Jónsson vitnar í mbl.is (03.01.2013) þar sem segir: Myndir af atburðinum náðust á myndskeið. Hér hefði alveg nægt að segja: Myndir náðust af atburðinum. Takk fyrir ábendinguna, Stefán.

Ragnar Gunnarsson skrifaði (02.01.2013): ,,Mikið fjári fer það í mínar fínustu taugar þegar menn eru sífellt að segja ,,Ja“ inni í miðri setningu í tíma og ótíma. Er þetta til dæmis áberandi hjá einum veðurfræðinga Sjónvarpsins. Er ekki hægt að venja menn af þessu ?
Fyrir nokkru var sagt í dagskrárkynningu útvarps: „Klukkan tólf hefst tónlistarþátturinn Nýjustu lögin undir stjórn Jóns Einarssonar sem stendur til klukkan tvö“ (Nöfn á manni og þætti tilbúin). Það var og. Þakka sendinguna.

Þær voru handteknar þegar átta kíló af kókaíni fannst í farangri þeirra … var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (03.01.2013). Átta kíló fannst ekki. Átta kíló af kókaíni fundust í farangri þeirra. Nauðsynlegt er að einhver lesi fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Líka þegar virðulegur fréttastjórinn les fréttir.

Af mbl.is (03.01.2013): Starfsmaður Vegagerðarinnar bar að í sama mund og … Hér hefði átt að segja: Starfsmann Vegagerðarinnar bar að í sama mund og …Enn eitt dæmið um beygingafælni, eða nefnifallssýki.

Af vef Ríkisútvarpsins (03.01.2013): Hæstiréttur dæmdi í dag að litháiskur (ætti að vera litháískur) karlmaður skuli framseldur til heimalandsins. Þetta var úrskurður Hæstaréttar. Ekki dómur. Fréttamenn eiga að kunna skil á þessu. Les enginn yfir?

Af mbl.is (03.01.2013): Þrátt fyrir færri verkefni á Íslandi eftir hrun sitja verkfræðingar ekki með auðar hendur og sýnir verkefnið á Langjökli það vel. Að tala um að sitja með auðar hendur er eins og hvert annað bull. Talað er um að sitja ekki auðum höndum, vera ekki iðjulaus, aðgerðalaus.
Meira af mbl. is. Fyrirsögn (03.01.2013) Landsliðsmenn vilja lúkka á vellinum. Sá sem samdi þessa fyrirsögn er mikil málfarssubba. Skiptir engu þótt sá sem rætt var við hafi notað þessa slettu. Hún á ekki að rata í fyrirsögn.
Þetta stóð langtímum saman á mbl.is í gær (06.01.2013): Hópur fólks lagði af stað til Bretlands í dag til Búrma í þeim tilgangi að hefja uppgröft breskra orrustuflugvéla af Spitfire-gerð … Fylgist enginn með síðunni?
Af dv.is (04.01.2013): Táningsstúlka sem var ósátt við takmarkaða netnotkun brá á það ráð að byrla foreldrum sínum svefnlyfjum svo hún kæmist á netið . Þetta er rangt. Sama villa er í fyrirsögn. Þarna hefði átt að standa, til dæmis: Táningsstúlka … brá á það ráð að gefa foreldrum sínum svefnlyf… Nokkuð fast er í málinu að tala um að byrla einhverjum eitur eða ólyfjan. Ekki byrla einhverjum svefnlyfjum.
Miklu skiptir að ljóðum sé ekki breytt eða þau afbökuð í flutningi. Söngstjórar og flytjendur verða að vanda sig. Nýlega var hér bent á að á nýjum diski væri rangt farið með þýðingu Jónasar á Álfareiðinni, Stóð ég úti í tunglsljósi. Á dögunum heyrði skrifari ágætan kór flytja Hafið, bláa hafið (Siglingu) eftir Örn Arnarson (Magnús Stefansson) við lag Friðriks Bjarnasonar sem næstum allir kunna. Kórinn söng: Beggja skauta byr, bauðst mér ekki fyrr, … Í ljóðinu segir hinsvegar: Beggja skauta byr, bauðst mér aldrei fyrr… Það á ekki að breyta ljóðum góðskálda.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Ásmundur, fyrir þessa athylgisverðu hugleiðingu. Þetta er til eftirbreytni og á erindi við fleiri en þá sem lesa þessar athugasemdir.

  2. Ásmundur Hafliðason skrifar:

    Nokkur orð í tilefni lýsingarorðsins litháiskur / litháískur
    (… „litháiskur (ætti að vera litháískur) karlmaður skuli framseldur til heimalandsins“):

    Spurningin er eiginlega sú hvað landið skuli heita á íslensku og hvert skuli vera þar af leitt lýsingarorð, svo og nafnorðin um íbúana og tungumál þeirra.

    Hvað skyldi landið heita á máli íbúanna? og á máli grannþjóða?
    Svar:
    Lietuva (fram borið nokkurn veginn líetúva) er heitið sem þorri íbúa notar um land sitt og sig sjálfa kalla þeir lietuviai. Tungumál sitt kalla þeir lietuviu (endar á u með krók niðrúr).
    Helstu nágrannar þeirra kalla landið Lítva (umritun til íslenskra hljóða), bæði pólverjar og rússar, að hvítrússum og úkraínumönnum meðtöldum en einnig flestir aðrir slavar. Þjóðverjar hafa löngum nefnt landið Litauen (fyrr meir ritað Lithauen en há-ið er brott fallið) og eftir því hafa norðurlandamenn farið, þeas danir, norðmenn og svíar; au-ið vitaskuld borið fram eins og íslenskt á. Þjóðverjar kalla þjóðina Litauer og tungumálið litauisch og sama leið er farin á Norðurlöndum, litauer og litauisk. Á latínu er heiti landsins Lituania og eftir því fara þjóðir rómanskra tungumála og engilsaxar. Frakkar skrifa landsheitið Lituanie, ítalir spánverjar portúgalir rúmenar Lituania. Á ensku hefur heitið Lithuania fest í sessi enda borið fram með þ-hljóði. Á öðrum tungumálum er ýmist að stafurinn h hefur aldrei verið í heiti landsins eða ritun h-s er löngu aflögð enda var stafurinn án hljóðgildis.
    Hér á landi hefir lengi verið til siðs að segja og rita Litháen að gamalþýskri fyrirmynd. Þó hélt Alþýðublaðið sig lengi við það að segja fréttir frá landinu Lithá, sleppti þýsku endingunni -en sem ekki hefur neina sérgreinda merkingu. Þjóðverjar hafa kannski ekki kunnað við að reka upp sársaukavein í hvert sinn sem landið barst í tal (þýska upphrópunin au! = ó hjá okkur). Fjölnismenn töluðu um Lithaugaland og það vildi meistari HH taka upp aftur í ágætri lýðveldishugvekju sinni um íslenskt mál.
    Nú er sennilega ekki raunhæft að kenna landið aftur við sína litgrónu hóla (orðalag Hallbjarnar) en mætti ekki lagfæra dálítið Lithár-nafn gamla Alþýðublaðsins? Semsé: er ekki ráð að sleppa hinu þýðingarlausa h-i, svo víðs fjarri sem það er líetúvu-fólki og okkar framburði, einnig skera -en endinguna afkáralegu aftan af? Aðskotaeðli endingarinnar verður ljós þegar íhugað er að fáum dettur í hug að kalla fólkið litháena eða tungu þess litháensku. Þótt koma muni fyrir.
    Auðvitað blasir við að eðlilegt íslenskt lýsingarorð dregið af heiti landsins er litáskur og íbúarnir tala litásku (85% þeirra eiga hana að móðurmáli, hinir flestir rússnesku og pólsku þótt búi í landinu Lítvu að því er sjálfir segja).

    Niðurstaða skálksins sem þessar athugasemdir ritar:
    Báðar orðageiflurnar litháenskur litháískur skulu brott rækar úr íslenskri tungu (hvaðan er þetta ískur?), berum höfuðið hátt, segjum og skrifum litáskur! – Litá = Lietuva. Litáar = lietuviai. Litásk tunga = lietuviu kalba.
    Vale

  3. Eiður skrifar:

    Jú að sjálfsögðu Ómar. Vigdís Hauksdóttir og íslensk tunga eiga ekki alltaf samleið. K kv ESG

  4. Jón Ómar Möller skrifar:

    Sæll og blessaður Eiður.
    Las í DV áðan að Vigdís Hauksdóttir vilji að ábyrgðaraðilar skóla verði gerðir ábyrgir
    vegna eineltis í skólum. Ábyrgðaraðilar skóla, er það ekki það sem við sem erum aðeins farin að reskjast köllum skólastjórnendur?
    Bestu kveðjur.
    Ómar Möller.

  5. Eiður skrifar:

    Rétt, athugað, Sigurður !

  6. Sigurður Karlsson skrifar:

    „Tvíbrotnaði og fór úr lið eftir hálkuslys“, segir um konu í fyrirsögn á dv.is. Það lítur út fyrir að eitthvað sýnu alvarlegra hafi komið fyrir hana eftir hálkuslysið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>