«

»

Molar um málfar og miðla 1121

Molavin skrifar: ,,Síminn hyggst eyða hundruðum milljóna í að tengja 40.000 ný heimili“ segir í forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins í dag (28.1.2013). Ekki tel ég þetta sóun hjá Símanum, öllu heldur fjárfestingu. Betra væri að segja ,,hyggst verja hundruðum milljóna.“ Minnist fyrirsagnar af slúðurfrétt: ,,Eyðir jólunum heima“ þar sem betur færi að segja ,,Dvelur heima um jólin.“ Þarna er merkingarmunur. Þau sem skrifa fréttir og fyrirsagnir þurfa að leggja hugsun í orðalagið.” Molaskrifari þakkar bréfið.

Þegar formaður Framsóknarflokksins segir á Alþingi (28.01.2013) að einkunnarorð Jóns Sigurðssonar hafi verið: Aldrei að víkja, fer hann ekki rétt með, að því er Molaskrifari best veit. Einkunnarorðin voru: Eigi víkja. Þau voru letruð á signethring sem Íslendingar gáfu Jóni Sigurðssyni.

Í fréttum Stöðvar tvö (27.01.2013) var talað um crepes pönnukökur. Crepes eru pönnukökur. Þessvegna var óþarfi að tala um pönnuköku pönnukökur. Í fréttum Ríkissjónvarps (28.01.2013) talaði þulur um X-games leikana, en íþróttafréttamaður talaði réttilega um X-leikana. Kvöldið eftir var fréttaþulur með þetta rétt. Sá hinn sami íþróttafréttamaður talaði hinsvegar um stærðarinnar hálsspelku. Hálfgert krakkamál. Rétt eins og þegar á mbl.is (27.01.2013) var talað um stóreflis ösp bæði í fyrirsögn og frétt finnst Molaskrifara það nálgast að vera barnamál sem ekki eigi heima í fréttum.

Í fréttum Ríkissjónvarps (27.01.2013) var ítrekað talað um að taka lögin í eigin hendur. Molaskrifari er vanari því að talað sé um að taka lögin í sínar hendur. Hefur verið nefnt hér áður.

Það var auðvitað ekki rétt sem sagt var í Silfri Egils (27.01.2013) að Sviss væri hluti af EES. Í EES eru Ísland, Noregur og Lichtenstein. Sviss hafnaði aðild.

Ríkissjónvarpið er oft heldur seinheppið í kvikmyndavali. Samtök blindra í Bandaríkjunum (National Federation of the Blind) fordæmdu og hörmuðu (condemned and deplored) gerð kvikmyndarinnar Blindu (Blindness) sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld (27.01.2013) vegna þeirrar afstöðu sem þar kæmi fram gagnvart blindum.

Á mánudaginn (28.01.2013) sýndi danska sjónvarpið DR mjög athyglisverða heimildamynd um Kína, Kapitalistabyltingin í Kína , hét hún. Myndin var frá fyrirtæki sem heitir Brook Lapping Productions og var framleidd fyrir BBC. Hversvegna eru heimildamyndir um sögu og samfélag á einhverskonar bannlista hjá Ríkissjónvarpinu okkar?

Sumum finnst það örugglega nöldur um smáatriði (eins og ýmislegt í þessum Molum), en ósköp er það pirrandi að heyra sífellt sagt í fréttum að þotur séu knúnar bensíni. Þær eru ekki frekar knúnar bensíni en skip. Þotur nota eldsneyti sem er miklu skyldara steinolíu en bensíni. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Smáatriðin verða líka að vera rétt.

Í tíufréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (28.01.2013) voru okkur sýndar eldgamlar myndir úr þingsal þar sem Sturla Böðvarsson sat í forsetastóli. Þess var ekki getið að þetta væru myndir úr safni. Það hefði átt að gera.

Hvað segja nú þeir sem hamra á því að aldrei verði í Evrópusamstarfi hlustað á rödd og rök Íslands? Ef við höfum góð rök og góða talsmenn er hlustað á sjónarmið okkar og tekið tillit til þeirra. Það sannaði dómur EFTA dómstólsins. Það telur Molaskrifari sig líka hafa sannreynt í lífinu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Nú segi ég eins og hjúin í Útvarpi Sögu, þegar þau komast í bobba, – já, þú segir það!

  2. Valur skrifar:

    Nei það er ekkert að því. En með því að kalla RÚV seinheppna í kvikmyndavali finnst mér þú taka afstöðu með gagnrýninni án þess að hafa séð myndina. Mér finnst ekki hægt að taka afstöðu með gagnrýni á kvikmynd án þess að hafa séð myndina

  3. Eiður skrifar:

    Það er ekkert að því að vitna í umsagnir annarra.

  4. Valur skrifar:

    José Saramago svaraði þessari gagnrýni svona: Stupidity doesn’t choose between the blind and the non-blind.
    Annars er ágætt að hafa séð myndir áður en maður gagnrýnir þær eða tekur afstöðu til þeirra.

  5. Eiður skrifar:

    Ég missti áhugann við að lesa umsagnir um myndina. Lét það nægja.

  6. Valur skrifar:

    „Ríkissjónvarpið er oft heldur seinheppið í kvikmyndavali.“

    Blindness var valin opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes 2008, þeir eru kannski seinheppnir þar líka. Þessi mynd fékk ágætis dóma, er í 6.6 á imdb.com og er byggð á einni frægustu bók Nóbelsverðlaunahafans José Saramago. Þú hefur líklegast ekki horft á myndina, né lesið bókina, þú leiðréttir mig ef það er rangt.

  7. Halldór Carlsson skrifar:

    Óskiljanleg afstaða blindrafélaga gagnvart myndinni; hún fjallar ekki um blint fólk eins og við þekkjum það yfirleitt, enda er blindan í bókinni og myndinni smitandi faraldur. Höfundurinn er að leika sér með hugmyndir um hvað gerist ef hópur fólks er lokaður inni – hvernig þróast valdahlutföllin innan hópsins (hópanna)?

    Mér sýnist höfundurinn Saramago, amk. vera í samskonar pælingum og Milgram með tilraunum sínum, eða undir áhrifum frá hinum vel þekktu Stanford – fangelsistilraunum.

    (sjá td. http://www.youtube.com/watch?v=sZwfNs1pqG0 )

    Það mætti helst gagnrýna myndina, eins og margir hafa gert, fyrir að hafa breytt einni aðalpersónunni, konunni sjáandi, ansi mikið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>