«

»

Molar um málfar og miðla 1135

Aldís Aðalbjarnardóttir sendi Molum þetta góða bréf (12.02.2013).
,,Sæll, Eiður.
Þakka þér fyrir þitt framtak. Margt er það sem hægt er að læra af pistlum þínum.
Ég las molann í dag og rakst á eftirfarandi:,,Þar er hinsvegar stundum tekið á málum sem aðrir…“
Ég sé æ oftar að ´hins vegar´ er skrifað í einu orði eins og þú gerir þarna. Ég hef alltaf skrifað það í tveimur orðum, sbr. annars vegar og hringdi í númer Orðabókar Háskólans um daginn til að heyra þeirra álit. Kona nokkur sagði að skrifa ætti orðið í tveimur orðum, annað kæmi ekki til greina.

Þá finnst mér áberandi að fleygaða samtengingin annaðhvort…eða sést oft skrifuð í þremur orðum:
,,Annað hvort kaupum við saltkjöt eða súpukjöt.“
(hinar fleyguðu samtengingarnar eru:

bæði…og
hvorki…né
ýmist …eða
hvort…eða). Þessu hef ég aldrei vanist, hef ævinlega skrifað samtenginguna í tveimur orðum en ekki þremur.

Ég hef nokkrum sinnum dæmt ritun nemenda á samræmdum prófum. Þá fer ég yfir fjölmörg ritunarverkefni á öllu landinu. Áberandi hefur verið að nemendur sleppa t í miðmynd sagna, oft í framsöguhætti. Dæmi: Þeir komas alla leið. Þær reynas mér vel. Þessar villur má einnig sjá nær daglega í blöðunum.

Einnig fannst mér áberandi að nafnháttarmerkinu var sleppt. Dæmi: Ég ætla fara. Þessa villu sé ég nánast daglega, m.a. hjá Jónasi Kristjánssyni sem þó er afar vel máli farinn- þótt ekki sé ég sátt við að hann vilji ekki hafa viðtengingarhátt í skrifum sínum.

Það er í raun sorglegt ef ritunarverkefnum nemenda er hent. Þarna eru góðar heimildir um málfar og verðugt rannsóknarefni.
Bestu kveðjur, Aldís Aðalbjarnardóttir

Molaskrifari þakkar bréfið og viðurkennir fúslega að honum hættir til að skrifa í einu orði hins vegar og hvers vegna. Leiðréttingaforritið í tölvunni gerir ekki athhugasemd við þetta sem sýnir að slík verkfæri eru ekki óbrigðul. Molaskrifari kann enga aðra skýringu á þessu en að honum sé með aldrinum heldur farið að förlast í réttritun!

Lesandi sendi Molum þessa ábendingu (13.02.2013): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Tengill við greinina: http://www.visir.is/article/20130212/VIDSKIPTI04/130219782
Hvað skyldi lands- og láðarbíll vera?? Ég hefði skilið tal um láðs- og lagarbíl!!” Þakka ábendinguna. Þetta era illla þýtt/skrifað.

Það er athyglisvert, þegar símadónarnir sem hringja í Útvarp Sögu eru búnir að úthúða, uppnefna og svívirða fjarstadda einstaklinga ( drusla, kerlingarherfa, pólitískt illmenni) og kalla þá öllum illum nöfnum, þá eru viðbrögð símstöðvarstjórans, stjórnarformannsins Péturs Gunnlaugssonar sem oft er titlaður lögmaður, yfirleitt þau sömu: Þakka þér fyrir, segir hann, og kveður. Þetta er með ólíkindum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. En bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréfin undir nafni, – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér fyrir, Þorvaldur. Það gleður mig að ég skuli ekki vera alvitlaus í þessum efnum.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Óskaplega ætlar -hinsvegar- að standa í mönnum. Er þó mála sannast að enginn bannar, né getur bannað, hverjum sem vill að stafsetja hvernig sem hann vill, nema um sé að ræða opinberar tilkynningar eður stafsetningarkennslu í skólakerfinu. Og rithátturinn -hinsvegar- er ekki „rangari“ en svo að í orðabók félaga Marðar eru báðir rithættirnir gefnir, -hins vegar- og -hinsvegar-, og þar með myndi ég, sem kennt hefi stafsetningu í áratugi, gef rétt fyrir hvorn tveggja.

  3. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Nú er skemmtileg fyrirsögn á vef Morgunblaðsins
    http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/02/15/fram_flugrask_i_koln_og_hamborg/

    Flugrask, hvernig ætli það sé?

    Í vikunni var frétt á vef einhvers miðilsins um Primera air, þar var meðal annars sagt, flugvél hleypur í skarðið.

    Það þarf stóran völl til að flugvélar geti hlaupið í skarðið og aðrar vélar en nú eru til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>