«

»

Molar um málfar og miðla 1137

Lesandi skrifar (15.02.2013):,,Sæll Eiður. Get ekki orða bundist. Veit heldur ekki hvert ég á að leita ef ekki til þín. Í grein um að Oscar Pistorius hafi banað unnustu sinni kemur fram þetta: Fyrstu fregnir af morði á kærustu hlaupastjörnunnar Oscar Pistorius gáfu það til kynna að hann hefði farið á mis við hana og innbrotsþjóf. Að hann hafi sem sagt ruglast á henni og innbrotsþjófi. Einu sinni gat maður lesið blöðin og lært af þeim hvernig á að skrifa texta. liðin tíð því miður. Kveðja frá lesanda”
http://www.dv.is/frettir/2013/2/15/thetta-kom-ekki-fra-okkur/
Rétt er það ekki hefur sá sem þetta skrifaði mikla ritleikni til að bera. Hann þarf að lesa upp og læra betur áður en honum er hleypt að lyklaborði sem veitir aðgang að fréttaskrifum á dv.is.

Úr hádegisfréttum Bylgjunnar (14.02.2013): Tæplega helmingur málanna var lokið , þegar … Enn einu sinni! Tæplega helmingi málanna var lokið, þegar ..

Það var gaman að sjá viðtalið við Sæmund Sigmundsson rútubílstjóra í Borgarnesi í fréttum Stöðvar tvö (16.02.2013). Fyrir tveimur árum fórum við í Félagi fyrrverandi alþingismanna í dagsferð um Snæfellsnesið. Sæmundur ók 64 manna rútu. Þær gerast ekki stærri hér á landi. Af Útnesveginum ók hann m.a. með okkur niður í Dritvík og niður að sjó á fleiri stöðum. Þetta voru örmjóir spottar og sneri svo við á smábletti sem var svo ótrúlega lítill að ég var eiginlega sannfærður um að hann mundi þurfa að bakka til baka. Nei hann bara sneri við sem ekkert væri. Það þótti gömlum meiraprófsmanni vel af sér vikið.

Þegar sagt var í fréttum Ríkissjónvarps (16.02.2013) var verðtryggingin væri ólögleg, var það ef til vill ekki mjög nákvæm fréttamennska. Ítarlegar var fjallað um málið í fréttum Stöðvar tvö rétt á undan. Þar var sagt að samkvæmt þeirri tilskipun ESB, sem hér um ræddi, væri verðtrygging neytendalána (upphæðir tilgreindar) ólögleg. Þessi tilskipun næði hinsvegar ekki til fasteignalána, en gæti hugsanlega náð til verðtryggðra bílalána eins og kom fram í umfjöllun Stöðvar tvö. Síðan hafa komið fram ýmis önnur sjónarmið í fréttum varðandi þetta flókna mál. Alls ekki virðist ljóst, enn sem komið er að minnsta kosti, hvort verðtryggingin er ólögleg og hvort hún gildi aðeins um neytendalán og hvað lán flokkast undir neytendalán? Þetta þarf að skýra betur.

Með fullum rétti má halda því fram að Ríkissjónvarpið stuðli að einangrunarhyggju og heimalningshugsunarhætti með því að sýna aldrei erlenda fréttaskýringaþætti eða annað efni um þróun mála í heiminum, pólitík og sögu.

Það er fín viðbót fyrir þá sem eru áskrifendur að Sjónvarpi Símans með norrænu stöðvunum að þar skuli færeyska sjónvarpið nú komið í hópinn. Gaman að því. Hef að vísu enn ekki getað horft mikið en þetta er góð viðbót. Færeyska sjónvarpið endursýnir mikið af efni úr danska sjónvarpinu, en þar er líka færeyskt efni. Takk fyrir það.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér, Sesselja. Þetta fór framhjá mér !

  2. Sesselja Guðmundsdóttir skrifar:

    Í Silfri Egils nefndi einn viðmælandinn að það þyrfti að binda svo um hnútuna að . . ..
    Það er auðvitað skynsamlegt að binda svo um hnútana að hnútan (beinið) skaði ekki þegar henni er kastað í mann og annan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>