«

»

Molar um málfar og miðla 1147

L.J. sendi eftirfarandi (27.02.2013) : ,Þegar ég las í gær fyrirsögn í Morgunblaðinu
„Málkenndin er í tómu tjóni“ þá datt mér í hug það sem fréttakona á Stöð 2 sagði í fréttum fyrir helgi.
Hún var að tala um framboð til væntanlegra alþingiskosninga og sagði að kjörseðillinn stefndi í að verða metri á breidd. Þá varð mér hugsað hversu langur hann yrði og enn fremur að þyrfti stærri borð í kjörklefana svo að fólk gæti breitt úr seðlunum þegar það væri að kjósa. Það er ekki sama lengd og breidd. Svo var fyrirsögn í Mbl.is í dag „Strákar voru líka í ástandinu“. Þar sagði að ísl. karlmenn hefðu haft samneyti við erlenda hermenn. Það var ekki annað að skilja á fréttinni en að orðið samneyti þýddi sama og samfarir. Ég held að fólk leggi ekki þann skilning í það orð.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Úr DV (27.02.2013): Nú þegar við horfum í bak kreppunni … Þarna hefði t.d. mátt segja: Nú þegar kreppan er að baki …

Af mbl.is (27.02.2013): Í dag reið enn eitt áfallið yfir breskan fjármálamarkað, en fjármálaeftirlitið þar í landi framkvæmdi þrjár handtökur og sex húsleitir í morgun í máli þar sem verið er að skoða innherjaviðskipti löggiltra miðlara. Miklar framkvæmdir. Þrír menn voru handteknir og húsleitir gerðar á sex stöðum. Svo var sennilega verið að rannsaka innherjaviðskipti fremur en að skoða innherjaviðskipti.

Úr reglum Samtaka félagsmiðstöðva,sem kallast því furðulega nafni Samfés, um klæðaburð sem birtar voru á mbl.is (27.02.2013): ,, … Þeir mega heldur ekki vera í stuttbuxum, þær verða að ná fyrir neðan hné“. Betra hefði verið: … þær verða að ná niður fyrir hné.

Segist hafa staðið í þeirri trú um að … var sagt í fréttum Stöðvar tvö (27.02.2013) Hér hefði nægt að segja: Segist hafa staðið í þeirri trú, að …

Í fréttum Ríkissjónvarps (27.02.2013) var marg tönnlast á því að yngsti stórmeistari heims í skák kæmi frá Kína. Hann er frá Kína.

Molaskrifara er sagt að í Útvarpi Sögu í morgun (28.02.2013) hafi sjálfur útvarpsstjórinn sagt um hinn nýja stjórnmálaflokk sem stöðin er búin að stofna, Lýðræðisvaktin heitir flokkurinn víst, – að þetta sé þverpólitískur flokkur! Það er svo sannarlega ekki öll vitleysan eins!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:

    Í íslenskri orðabók segir að samneyti geti verið umgengni eða mök. Þannig að þetta getur varla talist rangt hjá greyið Mogga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>