Í myndatexta á forsíðu Moggans (17.04) segir:„Á annað þúsund rúmmetrar af fyllingarefni fara í Landeyjahöfn á Bakkafjöru“. Þessi setning var svo lesin athugasemdalaust í morgunútvarpi Rásar tvö þegar stiklað var á efni dagblaðanna. Molahöfundur er ekki verkfróður, en sá þó í hendi sér, að hér var eitthvað málum blandið. Ef tíu námutrukkar flytja grjót í höfnina og hver þeirra ber 40-50 tonn í ferð þá eru þetta svona 30-50 ferðir. Samkvæmt upplýsingum Suðurverks sem gerir höfnina fara 600 þúsund rúmmetrar af grjóti í garðana við höfnina (1.2 milljónir tonna) en alls er efnismagnið sem notað er til hafnargerðarinnar meira en milljón rúmmetrar og er þá vegagerð íreiknuð. Það er dálítið meira en á annað þúsund rúmmetrar. Þetta er gott dæmi um hvernig augljós villa fer í gegn um allar síur Moggans (kannski eru engar síur lengur) og svo er villan lesin gagnrýnilaust fyrir hlustendur Ríkisútvarpsins. Líklega hefur sá sem skrifaði textann ekki hugmynd um hvað rúmmeter er og veit ekki heldur hvað höfn er. Skylt er að geta þess að ruglið var leiðrétt í Mogga daginn eftir.
„Ný sinfóníuhljómsveit lék saman í fyrsta skipti í kvöld“ var sagt (16.04.) í fréttum Stöðvar tvö. Hljómsveit er flokkur hljóðfæraleikara, sem leika saman. Þessvegna hefði hér átt að segja: Ný sinfóníuhljómsveit lék í fyrsta skipti í kvöld.
Alþingismaður talaði í dag (16.04.) um að fara í leiðangur til að flytja mál“. Þetta finnst mér ánalegt orðalag. Man ekki til þess þau fimmtán ár ,sem ég átti sæti á Alþingi að hafa heyrt nokkurn þingmann taka svo til orða. Mér er lífsins ómögulergt að tengja það saman að fara í leiðangur og að flytja mál á þingi. Mér finnst þetta vera rugl.
Makalaust er að auglýsingastofur eða auglýsingadeild RÚV skuli ekki leiðrétta augljósar málvillur í auglýsingum. Þannig er í sjónvarpsauglýsingu frá Frjálslynda flokknum (17.04.) sagt: „ Góðir landsmenn, með stuðning ykkar…“. Augljóst er að segja ætti : Með stuðningi ykkar. Þetta er kæruleysi og ekki vönduð vinnubrögð.
Skildu eftir svar