Athugull lesandi benti á eftirfarandi,,Hér er dæmi um eitt atriði sem þú hefur hamrað á í gegnum tíðina en virðist ekki síast inn hjá sumum blaðamönnum:
„Eftirmálar af ræðukeppni …“ segir í undirfyrirsögn . Þarna ætti að standa eftirmál.” Þetta var á fréttavef DV (15.03.2013) Sumum virðist alveg fyrirmunað að gera nokkurn greinarmun á þessu tvennu. http://www.dv.is/frettir/2013/3/15/hatrammar-deilur-eftir-raedukeppni/
Það er rausnarlegt orðalag þegar 70 ára gamall skúraklasi á Reykjavíkurflugvelli er kallaður flugstöð eins og gert var í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (15.03.2013) Aðstaða farþegaafgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli hefur verið höfuðborginni til skammar í áratugi. Þar er ekki við Flugfélag Íslands að sakast heldur sinnulausa stjórnmálamenn höfuðborgarinnar. Stjórnmálamenn sem nú hafa fundið sér gæluverkefni að byggja göngubrú frá flugbrautarenda yfir Fossvog í Kársnes fyrir einn milljarð króna. Á sama tíma er aðstaða farþegaflugs á Reykjavíkurflugvelli okkur til skammar og háðungar. Þetta virðist vera forgangsröðun þeirra sem ráða ríkjum í höfuðborg Íslands. Ótrúlegt en satt.
Í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (15.03.2013) var talað um mannavíg. Molaskrifari á því að venjast að talað sé um mannvíg, – ekki mannavíg.
Hann ásamt fimm öðrum konum bauð sig fram … var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.03.2013). Hann, ásamt fimm konum, bauð sig fram , hefði verið betra. Varla var hann kona?
Sigurður skrifaði (16.03.2013): ,,Ég hef sent þér nokkrum sinnum áður ábendingar um slæleg vinnubrögð á netmiðlum að mínum dómi Hér er frétt á dv.is sem ég rakst á í kvöld:
http://www.dv.is/frettir/2013/3/15/thetta-er-fidlan-sem-leikid-var-medan-titanic-sokk/
Ég verð að segja að mér finnst þessi grein ákaflega illa unnin og ýmsar setningar hreinlega mjög vondar. Dæmi:
„Sérfræðingar hafa staðfest að þetta?! er fiðlan“……..“Síðasta lagið sem þeir léku á hinstu andartökum skipsins!!“…….
„Hljómsveitin fórst með skipinu!!“…….
Og fleira væri hægt að nefna. Læt þetta duga.” Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið. Og bætir við: Á Fésbók bendir Kristinn Sigmundsson óperusöngvari einnig á að fréttabarninu sem þetta skrifaði virðist allsendis ókunnugt um heiti sálmsins ,,Hærra minn guð til þín …” Í fréttinni stendur: Síðasta lagið sem þeir léku á hinstu andartökum skipsins var „Nearer My God, to Thee.“ Hljómsveitin fórst með skipinu sem kunnugt er ásamt 1.494 öðrum einstaklingum. Hljómsveit er ekki einstaklingur. Þetta er með ólíkindum !
Í Fréttabréfi Garðabæjar frá 15. mars stendur: Nemendur frá 18 mánaða að níu ára aldri stendur til boða heildstæður skóladagur og heilsársskóli að frátöldu sumarleyfi. Hér ætti að standa: Nemendum frá átján mánaða að níu ára aldri stendur til boða … Einhverjum stendur til boða. Þá er dálítið undarlegt að skrifa 18 með tölustöfum en 9 með bókstöfum ! Heildstæður skóladagur? Er það ekki samfelldur skóladagur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar