«

»

Molar um málfar og miðla 1164

Magnús Einarsson sendi eftirfarandi (19.03.2013): ,,Símsvörun hjá fjölda fyrirtækja er oft svona: Þú ert kominn í samband við….. Vinsamlega bíðið, þú ert númer 5 í röðinni.
Þarna er þúað í öðru orðinu og þérað í því næsta.
Þá ætti þetta að vera svona: Þér eruð komnir í samband við….. Vinsamlega bíðið, þér eruð númer 5 í röðinni.
En það má líka sleppa því að þéra og þá gæti þetta verið svona: Þú ert kominn í samband við …… Vildirðu gera svo vel að bíða, þú ert næstur í röðinni.
Svo má líka agnúast út í þá venju að segja: Símtölum verður svarað í þeirri röð sem þau berast. Auðvitað er það alltaf gert nú til dags. Áður fyrr var það á fárra valdi að hafa þannig kerfi.
Fyrirsagnir eru oft mjög klaufalegar, sjá eftirfarandi, sem átti að merkja: Vetnisbílar verða alltaf of dýrir
http://www.mbl.is/bill/frettir/2013/03/17/vetnisbilar_verdi_alltaf_of_dyrir/
Bílar | mbl | 17.3.2013 | 13:42” Molaskrifari þakkar sendinguna. Fleiri hafa bent á klaufalega fyrirsögn um verð á vetnisbílum.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (19.03.2013) var sagt frá ákærum sérstaks saksóknara á hendur fyrrverandi Kaupþingsforstjórum og voru þeir nafngreindir. Þá var einnig sagt að nokkrir yfirmenn gamla Landsbankans hefðu einnig verið ákærðir. Þeir voru ekki nafngreindir. Ef einhver sérstök ástæða var fyrir því að nöfnin voru ekki birt, hefði átt að útskýra það.

Við stigana á Hótel Hilton, Nordica við Suðurlandsbraut eru viðvaranir til gesta um að gæta að sér. Þar stendur á ensku: Mind your steps ! Molaskrifara þykir líklegt að margir enskumælandi gestir brosi að þessu, því á ensku er ævinlega sagt: Mind your step! Ekki – steps.

Þorvaldur Friðriksson á fréttastofu Ríkisútvarpsins fær hrós fyrir vel flutta og vel skrifaða frétt um heimköllun danskra hermanna frá Afganistan í fjögur fréttum Ríkisútvarps (19.03.2013).

Í fréttum Stöðvar tvö var sagt frá stúlku sem stundað hefur hestamennsku frá unga aldri. Sagt var að hún hefði verið í hestum frá barnæsku. Verið í hestum er barnamál og ekki boðlegt í fréttum.

Í fréttum Ríkissjónvarps (19.03.2013) var sagt: Það kaupir ráðamönnum á Kýpur tíma … Ekki gott orðalag. Heldur slæmt, reyndar. Betra hefði verið: Það gefur ráðamönnum á Kýpur tíma, … eða ráðrúm …

Mikið væri gott, ef sumir fréttamenn Stöðvar tvö lærðu að segja saksóknari og hættu að tala um sasónara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>