«

»

Molar um málfar og miðla 1165

Af mbl.is (20.03.2013): Bandaríska olíufélagið Anadarko Petroleum segist hafa fundið „hugsanlega risastóra“ olíulind á hafi úti í Mexíkóflóa. Olíulind á hafi úti?

 

Í fyrirsögn á dv.is (20.03.2013) segir: Kaup á vændi er ólöglegt. Hér ætti að standa: Kaup á vændi eru ólögleg. Við segjum: Kaupunum var rift. Ekki: Kaupinu var rift. Réttilega hefst fréttin á orðunum: Kaup á vændi á Íslandi eru

refsiverð …

 

Stundum er fréttamatið á mbl. is undarlegt. Til dæmis þessi frétt: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/20/haettir_hja_sjalfstaedisflokknum/ Er það fréttnæmt þótt starfsmaður á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins hætti eftir rúmlega þriggja ára starf? Nei. Það er alls ekki fréttnæmt. Ekki einu sinni í Mogga

 

Meira um fréttamat. Er það fréttnæmt að körfuknattleikslið í Slóvakíu ( sem fáir hafa sjálfsagt heyrt um) tapi fyrir rússnesku liði, – er það fréttnæmt vegna þess að einn Íslendingur leikur með Slóvakíuliðinu? Nei. Það er ekki fréttnæmt.. Þetta var samt tíundað mjög rækilega í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.03.2013) Íþróttadeild Ríkisútvarpsins þjáist af Chauvinisma, hefði minn gamli sögukennari í MR , Ólafur Hansson, líklega sagt. Hann var ótrúlega iðinn við að kenna okkur svona orð. Úrslit þessa leiks voru sjálfsagt fréttnæm fyrir vini og vandamenn íslenska leikmannsins sem hefðu getað leitað frétta af leiknum á netinu. Þetta var fáránlegt, en jafnframt gott dæmi um undarleg vinnubrögð íþróttadeildarinnar í Efstaleiti, sem oft virðist lokuð inni í sinni eigin þröngu veröld.

 

Fyrirsögn af visir.is (21.03.2013): Fleiri tonn af dauðum rækjum rekur á land í Chile. Fleiri en hvað? Hér hefði t.d. mátt segja: Dauða rækju rekur á land í Chile. Ekkert óeðlilegt við að nota eintöluna, þótt ef til vill sé um ræða mörg hundruð eða þúsundir tonna af dauðri rækju.

 

Heldur gerðust menn fullyrðingasamir um skattamál stóriðjufyrirtækja í fréttum Ríkissjónvarps (20.03.2013) og þurftu að biðjast afsökunar kvöldið eftir. Annars var umfjöllun Helga Seljan í Kastljósi (20.03.2013) um skattamál stóriðjufyrirtækja mjög áhugaverð. Fyrirtækin komast upp með það sem heita líklega lögleg undanskot og sleppa þannig við að greiða réttmætan hlut hagnaðar til samfélagsins. Framhaldsumfjöllun kvöldið eftir færði manni heim sanninn um að við höfum sofið á verðinum og erum viðvaningar í samningum við stóriðjufyrirtækin sem hafa á að skipa harðsnúnum sveitum lögmanna og endurskoðenda sem eru sérfræðingar í að láta viðskipavini sína eða húsbændur nýta öll göt og gloppur í skattkerfinu. Kastljósið hefur hér eins og oft áður unnið þarft verk.

 

Hversvegna segir Ríkissjónvarpið okkur ekki, þegar í fréttatímum eru sýndar myndir úr safni sjónvarpsins? Ævinlega er látið svo sem verið sé að sýnar nýjar myndir, – jafnvel þegar sýnilega eru á ferðinni eldgamlar myndir t.d. úr sölum Alþingis. Í fréttum færeyska sjónvarpsins er þess getið þegar sýndar eru myndir úr safni. Það gera og flestar sjónvarpsstöðvar. Íslenska Ríkisjónvarpið lætur líka stundum undir höfuð leggjast að segja frá því þegar verið er að endursýna efni. Þetta eru óskiljanleg og óheiðarleg vinnubrögð.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>