Sigurður Karlsson skrifaði (27.04.2013): ,,Fréttabullið og ónákvæmnin er of mikil:
http://www.visir.is/fundu-hluta-af-lendingarbunad-thotu-sem-flaug-a-tviburaturnana/article/2013130429270
Hvað fannst hvar og hvenær,
og svo er það stafsetningin !!
Á maður ekki bara að sleppa því að lesa svona fréttasíður,
þá sefur maður betur !” Líklega er það rétt. En lítið mundi maður sofa ef allar ambögur sem sjást og heyrast í fjölmiðlum stæðu manni fyrir svefni !
Molaskrifari þakkar Sigurði sendinguna.
Brynjar skrifaði (26.04.2013): ,,Í enskumælandi löndum segir fólk gjarnan: Have a nice day.
Á Íslandi heyri maður oft: Eigðu góðan dag.
Sjá hér:
http://www.dv.is/blogg/marg/2012/2/9/ekki-eiga-godan-dag-njottu-hans-frekar/
Ég veit það ekki, en að segja við ókunnuga manneskju: ,,Njóttu dagsins“ finnst mér persónulega ekki alveg rétt.
Í dag hinsvegar var sagt við mig:
Áttu góðan dag.
Hvað finnst þér?”
Mér finnst svo sem sök sér , þegar sagt er: ,,Njóttu dagsins”. En þetta er samt lítt þörf ensk eftiröpun. En eigum við ekki að vona að góður hugur búi að baki? ,,Áttu góðan dag” er náttúrulega skelfilegt rugl. Þakka Brynjari bréfið.
Í umsögn Inga Freys Vilhjálmssonar, (sem er harðsnúinn blaðamaður) um veitingahús í DV (26.04.2013) segir: Ég fór á Steikhúsið á þriðjudaginn við tvo aðra menn. Þetta er bull. Ég fór á Steikhúsið við þriðja mann, – við fórum þrír á Steikhúsið.
Sjálfstæðisflokkurinn með skynsamar tillögur í málefnum aldraðra, skrifar bloggari á Moggabloggi (26.04.2013) Tillögur eru ekki skynsamar eða óskynsamar. Þær geta hinsvegar verið skynsamlegar eða óskynsamlegar.
Í Morgunblaðinu á kjördag (27.04.2013) var grein eftir verkfræðing þar sem fyrirsögnin var: In memorian Jóhanna og Steingrímur. Nú er ekki rétt að gera kröfur til verkfræðinga um mikla latínukunnáttu, en það flokkast nú eiginlega undir almenna þekkingu að vita að þetta ætti að vera In memoriam , – í minningu.
DV á að kalla hlutina réttu nafni. Í blaðinu á föstudag (26.04.2013) er á bls.8 eitthvað sem kallað er árétting. Þetta er ekki árétting heldur leiðrétting. Blaðið hafði nefnilega vitnað í nafngreindan mann á blaðamannafundi hjá ríkislögreglustjóra. Maðurinn var alls ekki á fundinum
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/04/2013 at 15:30 (UTC 0)
Kærar þakkir, Þorgils Hlynur. Kv ESG
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:
30/04/2013 at 14:33 (UTC 0)
Komdu sæll Eiður!
Á netmiðlinum pressan.is stóð: Brynjar afsakar hrokann. Þá hafði hann (Brynjar Níelsson, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins) verið i viðtali í þættinum Harmageddon á ágætri útvarpsstöð, X-inu, þar sem hann sagði skoðun sína á náttúruvernd. Baðst Brynjar ekki frekar afsökunar á hroka sínum? Það að afsaka eitthvað eða einhvern, þar með talinn sjálfan sig, er alls ekki það sama og að biðjast afsökunar. Rétt ætti þetta að vera svona: „Brynjar biðst afsökunar á hroka sínum“. Á þessu tvennu er munur. Það væri frekar að útvarpsmennirnir afsökuðu hrokann í Brynjari eða Brynjar afsakaði sig með þeim orðum að hann væri bara svona. Að afsaka og biðjast afsökunar er ekki alveg það sama. Kjarninn er sem sagt þessi: Að afsaka sig eða einhvern annan merkir að finna sjálfum sér eða einhverjum öðrum einhverjar málsbætur, en að biðjast afsökunar er að viðurkenna mistök sín og leita sátta. Það verður að viðurkennast að hann hljóp á sig, hann Brynjar, og enginn afsakar það. Mig langaði aðeins til þess að benda á þetta og þú mátt gjarnan birta þessa athugasemd með nafni mínu. Kærar kveðjur og þakkir, Þorgils Hlynur Þorbergsson.