Þorgils Hlynur Þorbergsson sendi þessa athugasemd (30.04.2013):
,,Á netmiðlinum pressan.is stóð: Brynjar afsakar hrokann. Þá hafði hann (Brynjar Níelsson, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins) verið i viðtali í þættinum Harmageddon á ágætri útvarpsstöð, X-inu, þar sem hann sagði skoðun sína á náttúruvernd. Baðst Brynjar ekki frekar afsökunar á hroka sínum? Það að afsaka eitthvað eða einhvern, þar með talinn sjálfan sig, er alls ekki það sama og að biðjast afsökunar. Rétt ætti þetta að vera svona: „Brynjar biðst afsökunar á hroka sínum“. Á þessu tvennu er munur. Það væri frekar að útvarpsmennirnir afsökuðu hrokann í Brynjari eða Brynjar afsakaði sig með þeim orðum að hann væri bara svona. Að afsaka og biðjast afsökunar er ekki alveg það sama. Kjarninn er sem sagt þessi: Að afsaka sig eða einhvern annan merkir að finna sjálfum sér eða einhverjum öðrum einhverjar málsbætur, en að biðjast afsökunar er að viðurkenna mistök sín og leita sátta. Það verður að viðurkennast að hann hljóp á sig, hann Brynjar, og enginn afsakar það. Mig langaði aðeins til þess að benda á þetta”. Molaskrifari þakkar þessa ágætu ábendingu.
Í framhaldi af því sem sagt var um handboltaútsendingu í Molum gærdagsins skrifar Egill (02.05.2013): ,, Handboltaleikurinn var á tímabili sýndur á allt að 5 stöðvum á sama tíma í gær. RÚV, RÚV+, RÚV-HD, RÚV-Aukarás og SportTV. Ég gæti hafa ruglast þegar ég var að stilla á milli stöðva, en þetta jaðraði við fáránleika. Þetta átti ekki að vera á aðalrás Ríkissjónvarpsins, frekar en aðrir íþróttakappleikir. Það er meira en nóg af íþróttum fyrir á þeirri stöð, til hvers að vera þá með sér íþróttarás?
Svo sá ég á vefsíðu SportTV setninguna: „Keflavík unnu leikinn í kvöld á móti KR …“ Ótrúlegt að sjá svona! “ – Molaskrifari þakkar Agli sendinguna. Enn einu sinni sannast að Ríkisútvarpið er stjórnlaus stofnun. Enn meiri handbolti á aðalrásinni í kvöld. Til hvers er aukarásin?
Gunnar skrifaði Molum (30.04.2013): ,,Jakob Bjarnar skrifar á visir.is: „Gríðarlega öflug sprengja sprakk í miðborg Prag, höfuðborg Tékklands, í morgun.“ Síðar í „fréttinni“ kemur fram að þetta var ekki sprengja, heldur afleiðing gasleka. Þó heldur Jakob áfram: „Sprengingin sprakk nálægt þjóðleikhúsi Tékka í námunda við Vltava-á.“ Það var og! Moldá heitir nú „Vltava-á“ á íslensku. Hann heldur áfram: „… og bygging við Divadelni St gereyðilegðist.“ Gatan heitir Divadelni, ekki „Divadelni St“, en bæta mætti orðinu „-gata“ fyrir aftan nafnið í fréttinni, ekki „St“. Fleiri ambögur er að finna í þessari stuttu frétt, m.a. ranga notkun á semíkommu (depilhöggi). En mesta furðu vekur að í upphaflegri frétt var sagt að Prag væri höfuðborg Tékkóslóvakíu, en merkilegt nokk … það var leiðrétt!
Svona fréttamennska er ekki boðleg!”. Það er rétt, Gunnar. Hér er það ekki eitt, heldur eiginlega allt, þar á meðal ,,sprengingin sprakk!” Þakka bréfið.
Enn býður Ríkissjónvarpið okkur upp á algjört rusl á besta tíma á föstudagskvöldi (03.05.2013). Í kvöld er okkur boðin ruslmynd sem fær einkunnina 4,5 , – falleinkunn, á IMDb. Nú er ljóst að þeim sem kaupa kvikmyndir til sýningar í Ríkissjónvarpinu er ekki sjálfrátt. Þar þarf að ráða nýtt fólk til starfa.
Húsið opnar klukkan 1400, var sagt í auglýsingu frá Samfylkingunni (01.05.2013). Þess var ekki getið hvað húsið mundi opna.
Þágufallssýkin er í sókn. Poppari skrifar ( vitnað til hans á dv.is 30.04.2013): … og hvort honum skipti það einhverju máli? Og hvort það skipti hann einhverju máli, hefði átt að standa þarna.
Undir forystu Ríkisútvarpsins tönnlast æ fleiri fjölmiðlar á þar síðustu helgi. Heyrðist í útvarpinu á þriðjudagsmorgni, muni ég rétt (30.04.2013). Þetta orðalag er hreint ekki til eftirbreytni. Hvar er þessi málfarsráðunautur?
Í fréttum Stöðvar tvö (01.05.2013) var sagt: … féll í grýttan jarðveg launamanna.
Betra hefði verið: … féll í grýttan jarðveg hjá launamönnum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
05/05/2013 at 15:27 (UTC 0)
Þakka þér þetta, Gunnar. Ég veit ekki hver gæti tekið þetta að sér. Ég veit reyndar afskaplega lítið um málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Allls ekki viss um að hann sé að störfum. þess sér lítil merki.
Gunnar Bergmann skrifar:
05/05/2013 at 12:42 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn og fleiri tönnlast látlaust á eftirfarandi orðum og orðasamböndum:
Óásættanlegt, í mínum huga, efnislegar umræðir (hvað er það?), farvegur, heildræn lausn, ferli (og kunna oft ekki hver er munurinn á: ferli / ferill) og mörgum öðrum.
Einnig blessað „borðið“: uppá…, útaf…, setja…, sópa… ýta… slá… o.s.frv.
Getur ekki einhver með menntun og/eða reynslu í íslensku tekið að sér að fræða þetta fólk?
Þó það sé annað mál, en þó skylt: Hvar/hver er málfarsráðunautur RÚV?
Bestu kveðjur , Gunnar Bergmann.