«

»

Molar um málfar og miðla 1203

Molaskrifari les jafnan Tungutakspistla í Morgunblaðinu á laugardögum , sér til gagns og fróðleiks. Pistillinn sl. laugardag (11.05.2013) hófst svona: Mörg hafa komið að máli við mig …. Molaskrifari hnaut um þetta. Mörg hvað? Mörg fólk? Svo fór hann að hugsa. Þetta skrifar prófessor í móðurmálsfræðum við Háskóla Íslands. Þetta hlýtur að vera rétt. Það er Molaskrifari sem er á villigötum. Hann hefur enga sérmenntun í málfræði eða málvísi, þótt hann sé sífellt að setja sig á háan hest. Molaskrifari játar fúslega að hann áttar sig ekki á þessu orðalagi. Nema þetta sé hluti af einhverskonar pólitískri rétthugsun. Ekki megi segja – Margir hafa komið að máli við mig , … það sé of karllægt, eins og það heitir víst. Molaskrifari er nú samt á því að það hefði verið betra orðalag í ljósi þess að samkvæmt íslenskri málvenju fornri og nýrri eru konur menn.

Á mbl.is (10.05.22013) segir í fyrirsögn: Gríðarlegur missir í Ferguson. Í textafréttarinnar er talað um missi af Ferguson, – Molaskrifari hefur vanist því að talað sé um að missir sé að hverju ekki af eða í.
Hvað segja Molalesendur um það?
Lesandi skrifar (10.03.2013) ,,Mér þykir skrítið að segja að trommuleikarar hefji upp raust sína þegar þeir leika á trommur. Það er ekkert í fréttinni um að trommuleikarar hafi sungið heldur að leikurinn gerðist sífellt háværari.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/05/10/sagdi_trommuleikurum_til_syndanna/ “ Molaskrifari er sammála.
Úr smáauglýsingum í Bændablaðinu (08.05.2013):Erum með frábæran spæni á aðeins 1.890 kr. Baggann, og Kerrur á einum og tveimur öxlum með og án bremsum. Þarna hefur prófarkalesturinn greinilega brugðist.

Dálítið undarlegt að heyra BBC fyrir fáeinum dögum þýða þýska orðið Schadenfreude, sem það að njóta sársauka (e. take pleasure in pain). Við köllum þetta Þórðargleði, að gleðjast yfir óförum annarra. Það orð á víst rætur að rekja til meistaraverks þeirra Þórbergs og séra Árna Þórarinssonar en þar segir Þórbergur svo frá í orðastað séra Árna:
,,Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalli mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: „He-he-he-he; he-he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur“. Svo hnippir hann í mann sem hann stóð hjá og segir ískrandi:„Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!“ Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir Skadefrohed og Skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa. En mikil fádæma hugarfarsspilling er nú þetta.” ( Af Wikpediu)

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>