«

»

Molar um málfar og miðla 1205

Sumir fréttaskrifarar hafa óskiljanlegt dálæti á sögnina að staðsetja. Af visir.is
(14.05.2013):
Breski auðmaðurinn Sir Richard Georg hefur keypt íslenska hesta fyrir í kringum 100 milljónir kr. Þeir eru staðsettir á bænum Lækjarmóti II í Víðidal í Húnaþingi. Hestarnir eru á bænum Lækjarmóti II í Víðidal … Blaðamaðurinn sem skrifaði þetta var víst staðsettur á fréttavefnum visir.is. Vikið var að samkynja orðalagi í Molum gærdagsins.

Af mbl.is (14.05.2013): Opnað hefur verið fyrir Þjóðveg 1 milli Breiðdalsvíkur og Egilsstaða, en hann lokaðist síðdegis vegna rútu sem var þversum á veginum.
Vegurinn hefur verið opnaður. Það er út í hött að tala um að opnað hafi verið fyrir veginn. Kannski mætti segja, að opnað hafi verið fyrir umferð um veginn. Svo var fréttin lagfærð og þá tók eiginlega ekki betra við: Opnað hefur verið á þjóðvegi 1 milli Breiðdalsvíkur og Egilsstaða, en hann lokaðist síðdegis vegna rútu sem var þversum á veginum.

Hafliði sendi eftirfarandi ábendingu (13.05.2013):
,,Sæll Eiður. Og þakka þér fyrir góða mola.
Nú er ég einn þeirra sem fylgist nokkuð reglulega með því sem er að gerast í knattspyrnuheiminum. Og til þess nota til dæmis íslenska vefmiðla.
Nú ber svo við að íslenskir fjölmiðlar virðast vanrækja þennan þátt blaðamennskunnar og því virðist ekki finnast íþróttafréttamaður sem skrifað getur íslenskt mál.
Þetta er þras, ég veit það. En þetta er eitthvað sem mér hefur legið á hjarta um góðan tíma og rifjaðist upp þegar ég smellti á fréttina hér að neðan fyrr í kvöld.
http://visir.is/rio-med-sigurmarkid-i-sidasta-heimaleik-ferguson/article/2013130519855
og þessa:
http://www.visir.is/neville-tok-sjaldsed-vidtal-vid-paul-scholes/article/2013130519765
Ég hefði skilið ef þessi texti hefði birst á fotbolti.net sem er rekin af einstaklingum úti í bæ og ungmenni skrifa inn á. En þetta er á fréttavef 365 miðla, Vísi.is.
Að mínu mati gerir miðillinn lítið úr lesendum með svona texta og einnig úr sér sjálfum.
Bið þig að afsaka langlokuna. Þurfti bara að deila þessari kvörtun með einhverjum sem kynni að meta hana.” Molaskrifari þakkar Hafliða kærlega fyrir þessa þörfu ábendingu. Vonandi lesa þeir sem þurfa.

Tvennt, jafnvel þrennt, var athugavert að mati Molaskrifara við frétt um strandveiðar í Ríkissjónvarpi í gærkveldi (15.05.2013) Sagt var að skip þyrfti að vera með gilt haffæri. Hvað er haffæri? Var ekki átt við gilt haffærisskírteini? Svo var talað um veiðigjald , – níu krónur og fimmtíu aura fyrir hvert þorskígildistonn. Það segir nú heilbrigði skynsemi strax að geti varla verið rétt. Auðvitað eru þetta níu krónur og fimmtíu aurar á hvert kíló Eitt er kíló og annað tonn, eða þúsund kíló. Hér er textinn: ,,Skipið þarf að vera á skipaskrá og með gilt haffæri. Eigandi skips þarf sjálfur að vera um borð og því lögskráður. Skipstjórinn þarf að hafa gild skipstjórnarréttindi og vélstjórnarskírteini og þarf ásamt öðrum í áhöfn að hafa lokið öryggisfræðslu. Til að virkja strandveiðileyfi þarf að greiða 72 þúsund krónur og veiðigjald er níu krónur og 50 aurar á hvert þorskígildistonn.” Svo er ágætt að hafa samræmi milli bókstafa og tölustafa. Hafa lokið öryggisfræðslu. Ekki gott orðalag.
Eftirfarandi er af vef Fiskistofu: ,,Til þess að virkja strandveiðileyfi þarf því að greiða 72.000 kr. Athygli er vakin á því að strandveiðum loknum verður veiðigjald lagt á landaðan afla og verða greiðsluseðlar fyrir því sendir út í lok ágúst. Veiðigjaldið er 9,50 kr. á hvert þorskígildiskíló”.Líklega les enginn yfir. Molaskrifara finnst að fréttastjóri og vaktstjóri eigi að hlusta á fréttirnar og leiðrétta rangfærslur og mishermi. Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri leiðrétt. Þarna skakkaði þúsundfalt. Við eigum að geta treyst því að satt og rétt sé frá greint í fréttum Ríkisútvarpsins og leiðrétt , sé af slysni eða óviljandi, rangt farið með. Ekki satt? Ef eðlileg verkstjórn og ritstjórn væri við lýði í Efstaleiti þyrfti ekki að skrifa svona athugasemdir.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>