Þetta var skrifað í Vefdv 26.04. : „Einnig var nokkuð um að strikað væri yfir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Þráinn Bertelsson.“ Væri ekki ágætt ef ritstjóri DV kenndi sínum skriffinnum meginreglur um beygingu mannanafna? '
Það er algjör óþarfi að bæta orðum inn í orðatiltæki sem eru föst í tungunni. Talað er um að vera milli steins og sleggju, lendi maður í vondri klípu, eigi aðeins tveggja illra kosta völ eða sé milli tveggja elda. Nýlega sá Molahöfundur á prenti (man ekki hvar) tekið svo til orða „að vera fastur milli steins og sleggju.“ Sú breyting er ekki til bóta.
Líklega er það orðið býsna fast í málinu að tala um að mannvirki sé „vígt“, þegar það er tekið í gagnið og notkun þess hafin. Á fréttastofu sjónvarpsins á sínum tíma lagði fréttastjórinn, séra Emil Björnsson ríka áherslu á að sögnin að vígja væri ekki notuið með þessum hætti nema því aðeins að prestur, vígður maður, bæði mannvirkinu guðsblessunar. Fæstir hugsa sjálfsagt um upphaflegu merkinguna þegar sögnin að vígja er notuð um ný mannvirki.
Hugsunarleysisskrif í Vefdv (24.04.): „En prófkjörsbarátta þeirra þriggja síðastnefndu í borgarstjórnarkosningunum árið 2006 voru afar áberandi.“ Það er alltof algengt að maður hnjóti um svona setningar.
Á Vefvísi mátti lesa (25.04.): „ …segir Sturla sem er með bílinn, gáminn og vagninn í láni hjá félögum sínum.“.Hér er líklega átt við að Sturla hafi fengið bílinn, gáminn og vagninn að láni hjá félögum sínum. En orðalagið er út úr kú og óskiljanlegt.
Fróðlegt væri að heyra hvað lesendum finnst um þann sið sumra fréttamanna í útvarpi að ljúka viðtölum með þakkarorðunum: „Þakka þér„? Persónulega kann ég betur við þegar sagt er: Þakka þér fyrir. Finnst enskukeimur af hinu.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Ellen Klara Eyjólfsdóttir skrifar:
28/04/2009 at 15:26 (UTC 1)
Í þessu sambandi bendi ég á vefinn Málfarsmolar sem er inn á vef Námsgagnastofnunar http://www.nams.is.
slóðin er http://www.nams.is/malfarsmolar/index.htm
Vefurinn er samstarfsverkefni Námsgagnastofnunar og málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Steingrímur Kristinsson skrifar:
27/04/2009 at 19:18 (UTC 1)
Það er því miður allt of algengt að fjölmiðlafólk, talandi og skrifandi tali ekki eðlilega íslensku, heldur sé með allskonar orðatiltæki og styttingum sem oftar en ekki eru „beinar þýðingar“ frá enskri tungu.
Og svo er það annað sem ég vil gjarnan gera athugasemd við, það eru fréttamenn og eða þeir sem lesa fréttir fyrirfram á band, sem síðar er látin fylgja myndrænni frétt, þeir lesa fréttina, segja ekki frá eins og sá sem að segir fréttir í beinni útsendingu. Þetta á við bæði RÚV og Stöð 2.
Og ofan á allt saman tala þessir baktjaldaþulir eins og þeir hafi enga þekkingu á hvernig tala skuli í hljóðnema, það er með orðum blandast tungutak þar sem viðkomandi er með hljóðnemann og nærri munninum. Þetta er nánast venja frekar en undantekning. Furðulegt að tæknimenn viðkomandi stöðva hafi ekki gripið inn í.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
26/04/2009 at 22:54 (UTC 1)
Jóhanna Guðný, — hjartanlega sammála.