«

»

Molar um málfar og miðla 1211

Gunnar sendi eftirfarandi (22.05.2013): ,,Óttaleg sorpblaðamennska einkenndi frétt á www.vidskiptabladid.is, 22. maí. Þar var fyrirsögnin: „Löggan stoppaði Sigmund fyrir hraðakstur“. Undir mynd af Toyota-bifreið og lögreglubifreið stóð: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tekinn“. Svo stóð í undirfyrirsögn: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og aðstoðarmaður hans voru stöðvaðir vegna hraðaksturs í Mosfellsdal á leið frá Laugarvatni“. En nánast í lok „fréttarinnar“ stóð: „Jóhannes Þór sat undir stýri“. Þetta er með ólíkindum og furðulegt að gera farþegann ítrekað að lögbrjóti í þessari frétt sem er í raun engin frétt.” Molaskrifari segir: Deila má um hvort þetta er frétt eða ekki, en þetta eru óheiðarleg og ámælisverð vinnubrögð hjá blaðamanninum sem skrifaði þetta. Hann er ekki vandur að virðingu sinni. Það er reyndar mjög algengt í fjölmiðlum að reynt sé að villa um fyrir lesendum með því að gefa eitthvað í skyn í fyrirsögn sem alls ekki er að finna í fréttinni. Það eru auðvitað vond vinnubrögð.

Enn eitt dæmi um fallafælni. Í fréttapistli á Eyjunni segir (22.05.2013): ,,… en bent hefur verið á að hópur reyndra þýðenda hafi verið sagt upp sem verktökum í hagræðingarskyni.”. Hópur reyndra þýðenda hefur ekki verið sagt upp. Hópi reyndra þýðenda hefur verið sagt upp.

Meira af Eyjunni (22.05.2013): Ráðherrar Framsóknar verða þó einungis fjórir til að byrja með þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur fyrir umhverfismál. Sá sem þetta skrifaði hefur ekki verið að vanda sig.

Á Rás tvö (22.05.2013) var flutt auglýsing frá veitingastaðnum American Style. Auglýsingin er öll á ensku. Enn einu sinni þverbrýtur auglýsingadeild Ríkisútvarpsins allar reglur. Til hvers er að hafa reglur? Til þess eins að brjóta þær? Auglýsingadeildin er greinilega stjórnlaust fyrirbæri innan Ríkisútvarpsins.

Lesandi benti á þessa frétt á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/05/22/tulkarnir_geta_flutt_til_bretlands/ (22.05.2013) , en þar stendur meðal annars: Um 600 afgönskum túlkum sem störfuðu við hlið breskra hermanna í stríðinu í Afganistan, geta nú fengið landvistarleyfi í Bretlandi. Þarna á auðvitað að standa: Um 600 afganskir túlkar ….

Samningar og viljayfirlýsingar eru ekki það sama eins og gefið var í skyn í frétt Ríkissjónvarps um fríverslunarsamning við Kína í Ríkissjónvarpi (22.05.2013). Í opinberri heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar til Kína 2005 var til dæmis skrifað undir viljayfirlýsingar með pompi og pragt sem ekkert var síðan gert með og aldrei varð neitt úr.

Vilji maður vita eitthvað örlítið um það sem er að gerast í veröldinni, verður maður að fylgjast með erlendum fjölmiðlum. Til dæmis útvarpssendingum BBC World Service sem hægt er að hlusta á örbylgju (FM) á höfuðborgarsvæðinu, eða notfæra sér sjónvarpsþjónustuna sem Síminn og Vodafon hafa á boðstólum. Íslenskir fjölmiðlar standa sig illa í þessum efnum. Sama gildir vilji fólk fræðast um sögu og samfélagsþróun í heiminum á liðnum áratugum. Þá verður fólk að leita á náðir erlendra fjölmiðla. Það er einfaldast fyrir þá sem setja saman dagskrá Ríkissjónvarpsins að panta endalausar þáttaraðir og henda þeim inn á vikudagana. Þeim finnst óþarfi að vera að eltast við stakar áhugaverðar heimildamyndir. Í þessum efnum hefur íslenska Ríkissjónvarpið gjörsamlega brugðist hlutverki sínu. Sorgleg staðreynd.
Það er nær algjör undantekning að sjá einhverjar fréttir frá Norðurlöndunum í Ríkissjónvarpinu. Það er einna helst að Bogi Ágústsson birti okkur eitthvað það,en hann á greinilega undir högg að sækja. Á Stöð tvö hefur Kristján Már fylgst með þróun olíumála í Noregi. Annars þarf yfirleitt meiriháttar náttúruhamfarir til þess að norrænt efni nái inn í fréttatímana, – nú síðast mikil flóð í Noregi.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>