Af mbl.is (29.05.2013): ,Flestir í þorpinu þekkja hver annan og Dahle var mjög þekktur. Þetta er mjög sorglegt,“ sagði Ørnulf Hasla, yfirmaður útvarpsstöðvarinnar, í samtali við VG. Bæjarstjórinn sagði morðið hafa haft mikil áhrif á andrúmsloftið í bænum enda búi þar aðeins um 1.300 manns og allir kunnugir hver öðrum.” Þetta hefði mátt orða betur. Flestir í þorpinu þekkjast og allir eru kunningjar.
Í Molum var nýlega fjallað um örnefnið Kaldakinn. Af því tilefni skrifaði Þórhallur Birgir Jósepsson (30.05.2013): ,,Í Molum dagsins segir: „Lesandi spyr (28.05.2013): „Er ekki nafn Kaldakinnar dregið af nafnorðinu kalda (nefnifall: kaldi), en ekki lýsingarorðinu?? „http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/28/aurskrida_lokar_veginum_um_koldukinn/ Í fréttinni segir: ,,Norðurlandsvegur, vegur 85, er lokaður við Ystafell í Köldukinn vegna aurskriðu sem féll á veginn í nótt. Aurskriðan var 50-100 metra breið að sögn lögreglunnar á Akureyri og um einn metri að þykkt.” Nú stendur Molaskrifari á gati. Hvað segja staðkunnugir?“
Ég telst reyndar ekki sérlega staðkunnugur á þessum slóðum, en hef þó búið í nágrenni Kaldakinnar nokkra vetur og nokkur sumur fyrr á tíð. Þá fékk ég fróðleik frá heimamönnum um nafn þessa landsvæðis, sem nær eftir því sem ég best veit frá Ljósavatnsskarði í suðri út með Kinnarfjöllum við Skjálfandaflóa. Kinnin er vestanvert á svæðinu, þ.e. austurhlíðar fjallanna sem þar eru, kannski landfræðilega framhald Bárðardals? Nafnið Kaldakinn, sögðu þeir, er dregið af kaldanum sem leggur inn með Kinninni frá sjónum. Þess vegna er rangt að beygja fyrri hluta nafnsins.
Verið getur að þessi fróðleikur sé að glatast í vitund manna, rétt eins og er um ýmis önnur örnefni. Ég nefni þar bæ einn í Austur Húnavatnssýslu. Hann stendur allhátt uppi í fjallshlíð (því miður hef ég ekki nafn fjallsins) vestan Vatnsdalshóla, held ég muni rétt að hann teljist vera í Þingi fremur en í Vatnsdal. Þessi bær kallast nú Uppsalir. Á 7. áratugnum hét hann enn Umsvalir, en svo virðist sem almennt hafi menn ekki skilið það nafn og brugðið á það ráð að kalla bæinn skiljanlegra nafni: Uppsali. Umsvalir hétu hins vegar svo, vegna þess að þar uppi þótti vera nokkuð vindasamt: Þar svalaði um.
Eins er með Kaldakinnina. Menn skilja ekki upprunann og gera því skóna að Kinnin heiti svo vegna þess að hún sé svo köld. Kannski er bara best, úr því öll landafræðikennsla er aflögð í skólum landsins, að tala eingöngu eins og heimamenn gera gjarnan í daglegu tali og segja einfaldlega Kinn, en sleppa kaldanum?” Molaskrifari þakkar Þórhalli Birgi þetta fróðlega bréf.
Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri skrifar athyglisverðan pistil í Morgunblaðið í dag (01.06.2013) þar sem hann meðal annars vitnar í orð forseta Finnlands sem hér var á ferð í vikunni. Forsetinn sagði að Finnum hefði reynst vel í kjölfar kreppunnar þar í landi að leggja áherslu á virðingu fyrir menntun og þekkingu og endurskoðun á lífsgildum þjóðarinnar. Þetta eru orð að sönnu. Gott hjá Styrmi að vekja athygli á þessu. Forseti Finnlands lét sér einnig um munn fara mjög athyglisverð ummæli um reynslu Finna að ESB-aðildinni. Ekki síst finnskra bænda. Styrmir hefði gjarnan mátt vitna til þeirra. Það gerði hann ekki. Kannski kemur það seinna.
Á sömu síðu Mogga er góður Tungutakspistill Þórðar Helgasonar. Hann fjallar m.a. um auglýsingar bílasala. Molaskrifari tekur undir með Þórði. Hann hefur t.d. aldrei skilið auglýsingu þess ágæta fyrirtækis Brimborgar, sem hann hefur átt löng og góð samskipti við, að fyrirtækið sé sérstaklega öruggur staður til að vera á. Það er réttilega bara bull.
Reyndur kennari kom að máli við Molaskrifari og lýstri megnri óánægju með nafn nýrra þátta á Stöð tvö. Þættirnir eru ýmist nefndir Tossi eða Tossarnir. Kennarinn sagði: Þetta orð hef ég aldrei tekið mér munn. Það er niðurlægjandi að tala um tossa. Það á enginn nemandi skilið að hljóta þá lítillækkandi nafngift.
Molaskrifari er kennaranum sammála.
Molaskrifara er það undrunarefni að Kastljós Ríkissjónvarpsins (29.05.2013) skuli hafa gert út sérstakan leiðangur til Lundúna til að taka viðtal, svokallað,,einkaviðtal” við Julian Assange forstjóra og eiganda Wikileaks. Eitthvað hlýtur það að hafa kostað í öllu auraleysinu og taprekstrinum í Efstaleiti. Assange messaði síðan yfir íslenskum sjónvarpsáhorfendum heilan Kastljósþátt, þar sem hann meðal annars dylgjaði um ráðamenn og réttarkerfið í Sviþjóð og rakkaði Amnesty samtökin í Bretlandi niður. Ástandinu í Ekvador,sem veitt hefur honum pólitískt hæli í sendiráði sínu í Lundúnum, hrósaði hann í hástert. Það gera ekki margir. Samfarasaga Julians Assange í Svíþjóð sem rakin var nokkuð ítarlega í þættinum á ekkert sérstakt erindi við okkur hér á Íslandi. Málefni þessa manns og Wikileaks eiga undarlega greiðan aðgang að Ríkisútvarpinu og sjónvarpinu. Það tengist auðvitað ekkert þeirri staðreynd að nánasti samstarfsmaður, Julians Assange er fyrrverandi starfsmaður Ríkisútvarpsins og Ríkissjónvarpsins. Á fréttavef Ríkisútvarpsins er flennifyrirsögn: Assange segir ætlun Svía að framselja sig. Hann hefur haldið þessu fram í marga mánuði. Þetta er ekki frétt. Það er næsta fastur liður að í tíufréttum sjónvarps sé vitnað í eitthvað bitastætt úr Kastljósi fyrr um kvöldið. Svo var ekki þetta kvöld og er það skiljanlegt. Svo er Carl Bildt ekki forsætisráðherra Svía eins og sagt var í texta viðtalsins. Hann er utanríkisráðherra Svíþjóðar. Þetta ranghermi var ekki leiðrétt. Margt gera þau vel í Kastljósi. Ekki þetta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
01/06/2013 at 14:03 (UTC 0)
Takk fyrir, Sveinn. Skemmtileg umræða. K kv ESG
Eiður skrifar:
01/06/2013 at 14:02 (UTC 0)
Takk. Það hefur farið fram hjé mér, – eins og ýmislegt annað. ESG
Sveinn skrifar:
01/06/2013 at 13:58 (UTC 0)
Kaldakinn kemur fyrir í eftirfarandi kvæði eftir Jónas Hallgrímsson. Er hann ekki nokkuð kennivald í þessum efnum?
Nú er sumar í Köldukinn, –
kveð ég á millum vita.
Fyrr má nú vera, faðir minn,
en flugurnar springi af hita!
Jón skrifar:
01/06/2013 at 13:44 (UTC 0)
Þetta kom fram í DV þar sem maðurinn var nafngreindur.
Eiður skrifar:
01/06/2013 at 12:36 (UTC 0)
Þakka þér, Þorvaldur S. – ESG
Þorvaldur S skrifar:
01/06/2013 at 12:33 (UTC 0)
Enn um Kinnina. Það kæmi sennilega skrítinn svipur á oss Skagfirðingana ef alþjóð færi almennt að tala um Vörmuhlíð eins og tíðast um Kaldakinn. Nú, eða ef húnvetnskir flykktust að Bröttuhlíð í Svartárdal á leið sinni í Stafnsrétt.
Eiður skrifar:
01/06/2013 at 12:07 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Jón. Athyglisvert. Þetta hefur ekki komið fram í neinum íslenskum fjölmiðli. Skrítið.
Jón skrifar:
01/06/2013 at 12:04 (UTC 0)
Ef þú skoðar norska fjölmiðla er meintur morðingi aldrei sagður íslenskur, hann er talinn norskur. Hann var að sögn tveggja ára þegar foreldrarnir fluttu til Noregs.