Sigurgeir sendi eftirfarandi (01.006.2013): ,,Ágæti Molaskrifari.
Á DV á netinu í dag (1. júní) er frétt frá ritstjórn um væntanlegan, nýjan fjölmiðil á vegum Björgólfs Thors. Þar segir: „Að undanförnu hafa gengið orðrómar þess efnis að þeir félagar hyggist koma á fót eigin fjölmiðli…“
Í fávisku minni hélt ég að orðrómur væri eintöluorð (alla vega fer betur á því að nota orðið í eintölu). Reyndar virðast mörg orð á vorum tímum vera að taka á sig fleirtölumynd, sem áður þekktist ekki; til að mynda segist fólk vera í tveimur vinnum en ekki tveimur störfum. Spurning hvenær maður fer að biðja um tvö eða þrjú kjöt í búðinni.
Kannski er þetta bara þróun tungumálsins en líklega ekki öllum að skapi.” Molaskrifari þakkar Sigurgeiri þetta ágæta bréf. Víst er um það að þessi þróun tungumálsins er ekki öllum að skapi.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á Sjómannadaginn (02.06.2013) var sagt að Brass Band Reykjavíkur hefði spilað við athöfn sem fram fór í tilefni dagsins.
Brass Band Reykjavíkur? Lúðrasveit Reykjavíkur hefur lengi verið til. Hún var stofnuð 7. júlí 1922. Hvaða rugl er þetta? Lúðrasveit er fínt orð yfir það sem á ensku er kallað brass band. Hljómsveitin verður ekkert betri við það skrýðast ensku nafni. Móðurmálið á greinilega í vök að verjast.
Glöggur Molalesandi benti á þessa frétt (31.05.2013) á visir og sagði réttilega að þarna mætti margt betur fara. http://www.visir.is/likamshlutar-endurnyttir-og-seldir-ur-landi/article/2013130539729 . Þessi setning er til dæmis ekki til sérstakrar fyrirmyndar: Nú í vor voru gerviliðir úr íslensku fólki sem hefur verið brennt, í fyrsta skipti sendir utan til endurnýtingar, Einnig mætti nefna þetta úr annarri frétt sama dag á visir.is: Fjöldi bálfara á Íslandi hefur tvöfaldast undanfarinn áratug og nú lætur um fjórðungur landsmanna brenna sig.
Í Ríkissjónvarpinu auglýsir Lífstykkjabúðin (31.05.2013) Brúðar aðhaldsfatnað. Ekki er víst að allir viti hvað við er átt. Raunar skilja líklega fáir lengur orðið lífstykki!
Af dv.is (02.006.2013): Leikarinn Michael Douglas segir í viðtali við breska blaðið Guardian að kynsjúkdómur hafi ollið krabbameininu sem hann greindist með í hálsi árið 2010, – sögnin að valda veldur mörgum fréttaskrifaranum vandræðum. Hér hefði átt að segja, — … hafi valdið krabbameininu …
Orðið heitur þýðir ekki lengur bara heitur á íslensku. Það þýðir ýmislegt annað. Talsmaður björgunarsveita sem leituðu konu fyrir vestan sagði í útvarpsfréttum (01.06.2013): … farið yfir þau svæði sem talin eru heitust …. Heitur er þarna notað í merkingunni líklegur. Íþróttamenn eru sagðir heitir, ef þeir standa sig vel á vellinum. Allt eru þetta áhrif úr ensku. Hvort þau eru góð eða slæm geta menn deilt um. Þetta er sjálfsagt þróun sem ekki verður breytt. Allavega ekki meðan fjölmiðlar halda þessu sífellt að fólki.
Molaskrifara þótt það orðalag bera keim af fréttabernsku, þegar fréttamaður Ríkisútvarps sagði (01.06.2013) að ekki væri hægt að meta ástand túna fyrir norðan fyrr en allur snjór væri bráðnaður. Hér hefði einhverjum líklega þótt eðlilegra að segja fyrr en allan snjó hefur tekið upp eða fyrr en snjóa hefði leyst.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
05/06/2013 at 09:01 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Þorvaldur.
Þorvaldur S skrifar:
04/06/2013 at 23:10 (UTC 0)
Nú má að sönnu deila um smekk eða smekkleysi þess eða þeirra sem kjósa að láta hljómsveit sína heita Brassband Reykjavíkur. Því má þó ekki gleyma að brassband er ekki hefðbundin lúðrasveit heldur sér fyrirbæri sem einkennist af tiltekinni hljóðfæraskipan sbr. td. https://www.facebook.com/BrassbandReykjavikur?ref=stream og http://en.wikipedia.org/wiki/Brass_band.
Um heit svæði eða köld minnist ég þess að hafa farið í leik sem hét „Að fela hlut“ í æsku. Gengi nú illa mátti spyrja hvort leitandinn væri heitur eða kaldur og fékk svar eftir því hvort hið týnda nálgaðist eða fjarlægðist. Engum datt þá í hug að enska læddist með þessum hætti lymskulega að ómótaðri barnssálinni. Og ekki stóðu menn sig vel í erfiði á þeim tímum fyrr en þeir voru orðnir heitir, jafnvel svo að rauk upp af þeim. Hins vegar er ég ekki viss um ef enskumælandi íþróttafréttamaður segði um tiltekinn íþróttamann að hann væri heitur (hot) að heyrendur skildu það sem svo að hann stæði sig vel í leiknum; ég er nánast viss um að flestir legðu aðra merkingu í það orðalag. Getur hver sem er sannfærst um þetta með því t.d. að leita að „hot volleyball player“ á netinu.