«

»

Molar um málfar og miðla 1236

Í Molum 1233 var vikið að enskuslettum í máli ráðherra og þingmanna Framsóknarflokks undanfarna daga. Í umræðum á Alþingi (21.06.2013) talaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um sándbæt ( e. soundbite), hljóðbút sem notaður er í fréttum, tekinn úr lengra máli. Þetta var sami Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem sagði við þjóðina á Austurvelli 17. júní: Íslensk tunga og orðsins list er líklega mikilvægasta arfleifð okkar. Þess vegna ber okkur skylda til að styðja við íslenskuna. Það var og. Hann gerir það í verki. Einar Kr. Guðfinnsson þingforseti fær hrós fyrir að setja ofan í við bæði Sigmund Davíð ( sem svaraði með hallærislegum útúrsnúningi) og Guðmund Steingrímsson sem bullaði um frjálslynda málverndarstefnu! Sjá: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/uppakoma-i-thingsal-herra-forseti-okei-eg-skil-hvad-thu-ert-ad-segja-myndskeid?Pressandate=200904251%25252527%25252bor%25252b1%2525253d%25252540%25252540version%2525252fleggjumst-oll-a-eitt
Í lokin má nefna að svo kom Birgitta Jónsdóttir alþingismaður í fréttir um helgina og talaði um ,,öryggis klírans”. Þingmanninum virðast enskuslettur afar tamar í viðtölum við fjölmiðla.

Af mbl.is (21.06.2013): Bílstjóri í South Wales í Bretlandi fékk hóstakast og … Væri ekki rétt að tala um suður Wales á íslensku?

Valdimar skrifaði (20.06.2013): ,,Er ekki vert að taka fyrir lestur veðurfregna á Rás 1? Það virðist orðin venja á Veðurstofunni að fá ungar konur til að lesa þessi mikilvægu boð fyrir landsmenn með sönglanda sem er rétt eins og sá enski sönglandi sem dynur stöðugt á fólki á flugvöllum víða um lönd. Þetta sker í eyru og er óþolandi. Er það ekki eitt af verkefnum málfarsráðunautar RÚV að gera athugasemdir við ranga hrynjandi og rangar áherslur í íslensku máli sem stofnunin sendir út?” Margir koma að lestri veðurfregna. Sumir eru mjög góðir lesarar, öðrum tekst miður upp. Alveg eins og með þuli Ríkisútvarpsins sem nær allir lesa prýðisvel , með réttum áherslum og réttri hrynjandi og þægilegt er að hlusta á.. Þar er þó því miður ein illskiljanleg undantekning sem glumið hefur í eyrum ð undanförnu.

Þóroddur benti á eftirfarandi (20.06.2013): ,,Algjör kaos myndaðist á svæðinu. Þetta voru orð sem Edda Sif Pálsdóttir lét út úr sér í tíufréttunum í Sjónvarpinu áðan.” Ekki vandað málfar.

Ríkið Connecticut kom við sögu í fréttum Stöðvar tvö (24.06.2013). Enn var þar talað um /konnekktikött/ Fréttaþulir eiga sumir hverjir afar erfitt með að bera þetta heiti rétt fram. /konnettikött/

Enn einu sinni heyrðum við subbulega hljóðklippingu í lok frétta Ríkissjónvarps (23.06.2013) þegar verið var flytja hið undurfallega lag Jóns Nordal við ljóð Jónasar , Smávinir fagrir. Allsendis óþörf smekkleysa.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sigvaldi Júlíusson er reyndar einn af bestu þulum Ríkisútvarpsins að mati Molaskrifara. Hér var átt við konu sem hefur ekki verið lengi við störf og ég veit ekki hvað heitir. En hrynjandin í lestri hennar er ekki eins og á að vera í íslensku máli. Auðheyrt öllum hefði ég haldið.

  2. Jón Axel Egilsson skrifar:

    Eitthvað vantar fyrir aftan þessa setningu „Þar er þó því miður ein illskiljanleg undantekning sem glumið hefur í eyrum ð undanförnu.“
    …og vær gaman að vita hvað þarna kæmi á eftir.
    Ef ég má giska þá er það Sigvaldi Júlíusson, sem alltaf les með áhersluna á seinna atkvæðið t.d. les hann Borgar-Leikhúsið og Smiðju-Stígur. – enda rýk ég alltaf upp og slekk áútvarpinu þegar hann hefur upp raust sína.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>