Frá Molavin (24.06.2013): ,,Fréttaþulur hádegisfrétta RUV 23. júní talaði ítrekað um að lóðasala í borginni myndi valda verðbólgu. Það fannst mér skrýtið og hlustaði því á viðtalið í fréttinni sjálfri. Þar var talað um verðbólu, sem er annað mál. Í afkynningu frétta var svo verðbólgan aftur komin á sinn stað. Eru þulir hættir að lesa textann fyrir fréttalestur til að glöggva sig á honum?”
Rétt ábending. Kærar þakkir. Molaskrifari hjó einnig eftir þessu.
Í Fréttablaðinu (24.06.2013) er viðtal við Íslandsmeistara í holukeppni í golfi. Fyrirsögnin er svona: Vissi að púttið myndi detta. Í fréttinni er ekki að finna neina skýringu á þessu undarlega orðalagi í fyrirsögninni. Líklega á þetta að þýða: Vissi að púttið myndi ganga vel.
Það er ekki auraleysið hjá Ríkissjónvarpi allra landsmanna,sem hefur ekki efni á að kaupa almennilegar kvikmyndir, þegar sendur er sérstakur fréttamaður (og væntanlega myndatökumaður að auki ) með Ólafi Ragnari í heldur ómerkilega opinbera heimsókn til Þýskalands, – heimsókn þaðan sem engra sérstakra tíðinda er að vænta.
Þorleifur vitnar í texta af mbl.is (22.06.2013) og segir: Texti verður varla lélegri en þetta: ,,Gaupa gekk laus í Saint-Tropez
Franska lögreglan tókst í dag að handsama gaupu sem sloppið hafði frá rússneskum eigendum sínum í ferðamannabænum Saint-Tropez í suðurhluta Frakklands. Dýrið slapp frá glæsivillu sem fólkið hefur á leigu í gær.” Nokkuð til í því. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/06/22/gaupa_gekk_laus_i_saint_tropez/
Franska lögreglan tókst!. Það var og.
Skemmtileg samantekt Andrésar Indriðasonar um Stefán Íslandi í Ríkissjónvarpi á sunnudagskvöld (23.06.2013). Fátt hefur náð eins vel inn að hjarta þjóðarinnar eins og flutningur Stefáns á rússneska þjóðlaginu, Ökuljóði, – Áfram veginn ….. Þar fer saman frábær söngur Stefáns og Karlakórs Reykjavíkur, falleg útsetning Sigurðar Þórðarsonar, ljóð Freysteins Gunnarssonar og svo auðvitað þetta einstaklega fallega lag.. Yfir þessu er einhver angurværð og dulúð sem erfitt er að lýsa, en skilar sér í ljóðlínunum:..
,,Nú er söngurinn hljóður og horfinn,
aðeins hljómar frá bjöllunnar klið.
Allt er hljótt yfir langferða leiðum
þess er leitar að óminni’ og frið”. Takk.
Molalesandi skrifaði eftirfarandi (23.06.2013): ,,Ég hef undanfarið lesið greinar þínar og líkað vel. Þegar ég heyrði þetta í fréttum ákvað ég að nú væri nóg komið, nú skyldu fréttamenn hunskast til að tala rétt mál. Í fréttinni klúðrar fréttamaður eignarfallinu; Íslands og gerir sögnina að fljúga veika. Ég vildi endilega benda þér á þetta”. Þetta er fréttin sem bréfritari á við: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV970DA9AB-4E4C-4ACC-A2B1-EC2C7D8333ED. Molaskrifara heyrist reyndar fréttamaður nota sögnina flýja, en ekki fljúga. Þetta er að vísu frekar óskýrt. Fréttamaður talað um að Snowden hafi farið frá Hong Kong til Moskvu með farþegaflugvél”. Hann átti líklega við að uppljóstrarinn hefði ferðast með flugvél í venjulegu áætlunarflugi. En Wikileaks hafði reyndar sagst hafa haft þrjár einkaþotur til reiðu fyrir hann.
Í þessari sömu frétt talaði Kristinn Hrafnsson umboðsmaður Julians Assange forsprakka Wikileaks um að umsókn Snowdens yrði ,,ferluð”. Líkast til átti hann við að umsóknin yrði afgreidd.
Það má svo nefna í þessu samhengi að Wikileaks forsprakkinn Julian Assange hefur í heilt ár falið sig í sendiráði Ekvador í London því hann vill ekki svara spurningum í Svíþjóð um að hafa þar beitt tvær konur kynferðislegu ofbeldi. Uppljóstrrarinn Snowden er sagður á leiðinni til Ekvador og umboðsmaður Assange , Kristinn Hrafnsson segir við íslenska fjölmiðla: ,,Ég var að koma sjálfur frá Ekvador”!(Fréttablaðið 24.06.2013). Merkilegt land Ekvador og sérstaklega í hávegum haft fyrir fjölmiðlafrelsi að því er fram hefur komið í fréttum að undanförnu. Sjá til dæmis (24.06.2013): http://www.ruv.is/frett/umdeild-fjolmidlalog-i-ekvador Þetta er líklega skýringin á því hve mjög þeir Wikileaksmenn sækja í þetta Suður-Ameríku land.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Engar athugasemdir
1 ping
Ekkert auraleysi hjá Ríkissjónvarpinu skrifar:
26/06/2013 at 10:41 (UTC 0)
[…] Guðnason í pistli á heimasíðu sinni 26. júní […]