«

»

Molar málfar og miðla 1240

Í fréttum Ríkisútvarps á þriðjudagskvöld (25.06.2013) talaði utanríkisráðherra okkar um hin ýmsustu verkefni. Molaskrifara hefur alltaf þótt þetta orðalag vera barnamál.

 

Gunnar sendi eftirfarandi (26.06.2013): „Hópurinn skilaði áliti til … Ragnheiðar Elínu Árnadóttur,“ var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, miðvikudag. Ekki einu sinni, heldur tvisvar, því fréttamaður sagði þetta í pistli sínum og svo las þulurinn sömu vitleysuna upp aftur í lok fréttarinnar. Nafnið „Elín“ er „Elínar“ í eignarfalli. Kjánalegt að hafa þetta rangt, en sumum finnst nóg að fallbeygja annað hvort fyrra eða seinna nafn þeirra sem bera tvö nöfn. Dæmi um það: „Til Jón Páls“ eða „Hjá Ólafi Ragnar“, sem á að sjálfsögðu að vera “Til Jóns Páls“ og „Hjá Ólafi Ragnari“. Molaskrifari þakkar Gunnar bréfið og þarfar ábendingar.

 

Úr Virkum morgnum á Rás tvö (26.06.2013) …hvað þetta kostar fyrir þér, sagði Andri Freyr Viðarsson annar tveggja umsjónarmanna þáttarins. Það væri annars ágætt ef umsjónarmenn fylgdust sæmilega fréttum í Ríkisútvarpinu, – þó ekki væri nema til að leiðrétta rugl og rangar fullyrðingar sumra þeirra sem hringja til þáttarins, sbr. umræðu þennan morgun um kýr sem þurfti að farga. Hlustandi hringdi til þáttarins til að skýra málið fyrir umsjónarmönnum.

 

Íþróttafélagi tókst að landa þjálfara var sagt í íþróttafréttum Stöðvar tvö (26.06.2013) Ótrúlegt hvað íþróttafréttamenn telja hlustendur hafa mikinn áhuga á þjálfarmálum knattspyrnufélaga um víða veröld.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (26.06.2013) var tvísagt að lántakendur yrðu krafnir um greiðslu. Máltilfinning Molaskrifara, sem auðvitað er ekki óbrigðul, segir honum að þarna hefði átt að segja, – að lántakendur yrðu krafðir um greiðslu.

 

Í sjónvarpsauglýsingu frá Knattspyrnusambandi Íslands (26.06.2013) segir: Þetta móment skilar þér lengra. Hversvegna ekki að tala við okkur á íslensku, forráðamenn KSÍ?

 

Tvisvar sinnum (26.06.2013) var í skjátexta í Ríkissjónvarpinu vakin athygli á mynd sem á ensku héti Secred State. Þetta hefur áður verið nefnt í Molum, enda villan ekki ný. Hefur sést á skjánum áður. Orðið Secred er ekki til í ensku. Hér hefði átt að standa Secret State. Sjá menn ekki svona augljósa hluti í Efstaleiti? Kannski horfir enginn. Einkennilegt. Smáatriðin skipta líka máli. Þetta er subbuskapur.

 

Hversvegna þarf Ríkissjónvarpið að vera með 15-20 mínútna fjas á undan og eftir hálfum knattspyrnuleik í kvölddagskrá? Dagskráin var ekki burðug í gærkveldi og ekki bætti þetta úr skák, – að minnsta kosti ekki hjá sumum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Axel skrifar:

    Flestir sem fylgjast náið með boltaíþróttum hafa áhuga á hrókeringum í þjálfaramálum. Má það ekki bara vera þannig?

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Var rétt í þessu að hlusta á 18:00 fréttir í Rás 1. Þar var langur pistill um erindi XY, samantekinn af Arnhildi Hálfdanardóttur. Pistillinn var góður og konan hefur þægilega rödd, en þann hvimleiða galla að eins og skyrpa út úr sér síðasta orði hverrar setningar. Ekki í fyrsta skipti sem ég tek eftir þessi. Þetta ætti að vera auðvelt að betrumbæta.

    En hefur engin tekið eftir þessu?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>