«

»

Molar um málfar og miðla 1242

Molavin sendi eftirfarandi (29.06.2013): ,,Á bílasíðum Morgunblaðsins 28.6.13 má lesa þetta: „Auk þessa þá sögðu bílstjórarnir að til þess að minnka eyðsluna skal aka hnökralaust…“ Hér er „þá“ ofaukið og talmálslegt og á ekki heima í ritmáli, auk þess sem ætti að standa „skuli aka…“ Þekkingarleysi, óvandvirkni og hreint fúsk er orðið regla frekar en undantekning, jafnvel í virtustu fjölmiðlum.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Í sjónvarpsfréttum (27.06.2013) var sagt um skip sem strandaði  á skeri við Skoreyjar á Breiðafirði að það hefði hefði tekið niður. Þetta er ekki rétt. Þegar skip steytir á skeri tekur það niðri, – ekki niður. Í sama fréttatíma talaði fjármálaráðherra okkar um að vísa ábyrgð á herðar einhvers. Venja er að tala um að vísa ábyrgð eða lýsa ábyrgð á hendur einhverjum.

 

Af mbl.is (28.06.2013): Fjórar einkaþotur og tvær minni einkavélar eru nú staðsettar á Reykjavíkurflugvelli. Einkennileg er ást sumra fréttaskrifara á orðinu að staðsetja. Hér hefði nægt að segja: Fjórar einkaþotur og tvær minni einkavélar eru nú á Reykjavíkurflugvelli.

 

Farið var rangt með nafn í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (28.06.2013). Steinunn Jóhannesdóttir var sögð Jóhannsdóttir. Engin leiðréttingin.

 

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (28.06.2013) var enn einu sinni talað um að taka þátt á móti. Föst málvenja er að tala um að taka þátt í móti, en keppa á móti. Kvöldið áður var sagt í sama miðli að eitthvað væri samkvæmt bókinni. Þetta er heldur óíslenskulegt orðalag. Ekki var hinsvegar vísað til þess við hvaða bók átt var við!

 

Haukur skrifaði (28.06.2013): ,,Var rétt í þessu að hlusta á 18:00 fréttir í Rás 1. Þar var langur pistill um erindi XY, samantekinn af Arnhildi Hálfdanardóttur. Pistillinn var góður og konan hefur þægilega rödd, en þann hvimleiða galla að eins og skyrpa út úr sér síðasta orði hverrar setningar. Ekki í fyrsta skipti sem ég tek eftir þessi. Þetta ætti að vera auðvelt að betrumbæta.
En hefur engin tekið eftir þessu?”.Molaskrifari viðurkennir að hafa ekki tekið eftir þessu.

 

Margt er oft undarlegt við uppröðun dagskrár Í Ríkissjónvarpi allrar þjóðarinnar. Til dæmis að endursýna heimildamynd um þá frægu Rolling Stones klukkan eitt eftir miðnæti. Jæja, látum það nú vera, en hversvegna segir Ríkisjónvarpið ekki að verið sé að endursýna myndina? Þess var ekki getið í dagskrárkynningu sem niðursoðna konuröddin dembdi yfir okkur. Þess var ekki getið í dagskrárkynningunni á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Hversvegna pukrast Ríkisútvarpið með endursýningar á efni og reynir að láta líta út eins og verið sé að frumsýna efnið? Um þetta hefur oft verið spurt. Stjórnendur Ríkisútvarpsins telja sig ekki  þurfa að svara spurningum hlustenda. Lúta ekki svo lágt. En það er ekki þar með sagt að þeir horfi hærra. Þetta er að blekkja okkur, áhorfendur, hlustendur. Í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu mátti hinsvegar sjá að verið var að endursýna Rolling Stones heimildamyndina.

 

Það er ekki að Molaskrifari sakni þess, en mikið er langt síðan fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur rætt við Birgittu Jónsdóttur, alþingismann og Kristin Hrafnsson aðaltalsmann Julians Assange, Wikileaksforsprakka. Assange virðist hafa klúðrað því að skjólstæðingur hans, uppljóstrarinn Snowden komist til Ekvador.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Bernharð. – nota þetta næstu daga.

  2. Bernharð Haraldsson skrifar:

    Eiður!
    Þatta er úr Mbl.is í dag:

    „Hún drapst vegna fáfræði, afskiptaleysi og vondri meðferð,“ segir dýralæknirinn sem hefur sinnt henni undanfarna daga.

    Ekki er máltilfinningunni fyrir að fara.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>