«

»

Molar um málfar og miðla 1244

 

Gunnar sendi eftirfarandi (01.07.2013): „Hundruðir smábáta …“ sagði Heimir Már Pétursson í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, mánudag. Maður hefði haldið að svo reyndur fréttamaður vissi betur og segði: „Hundruð smábáta“.
Þá virðist vefjast fyrir mörgum hvort tala eigi um hljómsveitir og íþróttahópa í eintölu eða fleirtölu. Andri Freyr sagði í morgun: „Brother Grass leika …“ „Botnleðja spiluðu …“ og í íþróttafréttum hefur heyrst: „Fram leika við Val …“Molaskrifari þakkar Gunnari sendinguna. Allt eru þetta réttmætar ábendingar.

Bernharð benti á eftirfarandi af mbl.is í athugasemd við Mola (01.07.2013): „Hún drapst vegna fáfræði, afskiptaleysi og vondri meðferð,“ segir dýralæknirinn sem hefur sinnt henni undanfarna daga. Ekki er máltilfinningunni fyrir að fara. Rétt er það. Máltilfinningin er ekkert að þvælast fyrir þeim sem þetta skrifaði. Þakka sendinguna, Bernharð.

 

Blygðunarlaust brýtur Ríkissjónvarpið lögin um bann við áfengisauglýsingum og auglýsir bjór, Egils Gull, rétt fyrir fréttir (01.07.2013). Þetta mundi engin ríkisstofnun komast upp með átölulaust í nokkru landi, nema hinu löglausa Íslandi. Ráðherrar sem bera ábyrgð á rekstri og ráðamönnum Ríkisútvarpsins horfa greinilega ekki á sjónvarp.

 

Það er umhugsunarefni að erlendar fréttir skuli sífellt vera hornreka í sjónvarpsfréttum á Íslandi. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (01.07.2013) var aðalfréttin frá útlöndum um slæma umgengni á Glastonbury tónlistarhátíðinni. Sem er nú reyndar ekki mjög fréttnæmt. Vantaði þó ekki að ýmislegt væri að gerast í veröldinni bæði austan hafs og vestan.

 

Fyrirsögn í Fréttablaðinu (02.07.2013): Fjármálaráðherra segir ríkisstjórnina ekki hafa verið í jafn mikilli tímaþröng: Hér vantar eitthvað í setninguna svo hún sé skiljanleg. Ef til vill vantar eitthvað í hugsun fyrirsagnarsmiðsins.

 

Fréttamenn Ríkissjónvarps sögðu okkur að Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefði í gærkveldi (02.07.2013) setið hátíðarkvöldverð á Bessastöðum. Áður hafði Ríkissjónvarpið sagt okkur frá hátíðarkvöldverði sem Ólafur Ragnar snæddi í Þýskalandi og hátíðarræðu sem hann flutti þar. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Er Ríkissjónvarpið komið í einhverskonar snobb-leik? Er allt hátíðar- eitthvað sem gerist í tengslum við Ólaf Ragnar Grímsson?

 

Báðar fjölluðu sjónvarpsstöðvarnar um svörtu skýrsluna um Íbúðalánasjóð í fréttum á þriðjudagskvöld (02.07.2013). Umfjöllun Stöðvar tvö var þó sýnu ítarlegri en umfjöllun Ríkissjónvarpsins. Það var mjög hógvært orðalag sem notað var í fréttum Ríkissjónvarps:,, Mistök við rekstur og stjórnun Íbúðalánasjóðs hafa kostað þjóðina milljarða króna …”. Látið var ósagt í fréttayfirliti hve margir milljarðarnir voru.

 

Daginn eftir birtingu kolsvörtu skýrslunnar (0e3.07.2013) um Íbúðalánasjóð birtir Moggi leiðara um skógrækt á Íslandi. ,,Skógar gegna mikilvægu hlutverki í lífríki jarðarinnar”,segir þar. Fínt blað og árvökult, Mogginn.

 

Molaskrifari opinberaði fáfræði sína um spilamennsku er hann misskildi bloggskrif um Hornarfjarðarmanna. Klara Kristín Einarsdóttir sendi þessa leiðréttingu (02.07.2013)sem hér með er þakkað fyrir: ,,Töluverðs misskilnings gætir i vangaveltum um Hornafjarðarmanna í pistli þínum Molar um málfar og miðla 1243: „Af fésbók (29.06.2013) Kannski þátttaka í heimsmeistarakeppninni í Hornarfjarðarmanna, nú kannski verður mín minnst fyrir að hafa orðið heimsmeistari í Hornafjarðarmanna 2013. Skrifari virðist ekki hafa heyrt talað um Hornfirðinga!“

Hér er ekki verið að fjalla um Hornfirðinga (Hornafjarðarmenn) heldur útgáfu Hornfirðinga af hefðbundnum manna sem er þriggja manna spil, spilað með hefðbundnum spilastokk. Sjá hér spilareglur http://www.hornafjordur.is/humar/humarfrettir/nr/8671

Þetta leiðréttist hér með. Molaskrifari biðst afsökunar á fáfræði sinni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>