«

»

Molar um málfar og miðla 1246

Egill Þorfinnsson skrifaði Molum þetta ágæta bréf fyrr í vikunni (02.07.2013): ,,Sæll Eiður,
Það er ekki oft sem ég sendi þér línu en geri það núna og mætti kannski gera það oftar.  Þessi frétt er á dv.is í dag undir fyrirsögninni „Vísað burt út af Gordon Ramsey“
Ég gríp hér í miðja fréttina.

En á leiðinni út hittu þau fyrir umrædda frægu einstaklinga, þar var enginn annar á fer en stjörnukokkurinn Gordon Ramsey og föruneyti hans. “ Sem jú starfar við að aðstoða veitingastaði fyrir að gera mistök eins og Loftið með að láta ekki hinn almenna viðskiptavin finnast hann velkominn“.

Stundum hef ég það á tilfinningunni Eiður að fréttaskrifarar séu, sérstaklega á dv.is og Fréttablaðinu með öllu óhæfir í starfi og á ég þá ekki einungis við málfar.
Í Fréttablaðinu er líka oft farið æði frjálslega með staðreyndir og hef ég fyrir nokkru síðan byrjað að safna rangfærslum og rugli, sérstaklega dálknum sem greinir frá ártölum og merkum atburðum.
Einnig má minnast á þýðingar Stöðvar 2 þar fara bæði saman vitlausar þýðingar og mikil vankunnátta á atburðum heimssögunnar.
Tvö dæmi sem að ég man eftir í fljótu bragði eru úr kvikmyndum sem ég sá fyrir nokkrum vikum síðan og átti önnur að gerast í Írak. Þar var „captain“ í landher þýtt sem skipsstjóri en ekki höfuðsmaður. Ekki mikil hugsun hjá þýðandanum þarna.
Seinna tilvikið var kvikmynd sem gerðist að nokkru um borð í farþegaflugvél, þar var orðið ,,air marshall“ ( öryggisvörður ) þýtt sem flugstjóri.
Já, Eiður það er stundum mikið grín og gaman að fylgjast með lélegri tungumálakunnáttu þýðenda Stöðvar tvö og almennri vankunnáttu.

E.S Í fasteignablaði Fréttablaðsins í síðustu viku var auglýst glæsileg sérhæð á tveimur hæðum ???”. Kærar þakkir fyrir bréfið, Egill.

Það var ágætlega sagt í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (03.07.2013) að Ban Ki-moon hefði snætt dögurð á Þingvöllum og að á hestamannamóti á Kaldármelum  leiddu menn saman hesta sína.

Í  kvöldfréttum Ríkisútvarps (03.07.2013) var í frétt frá Egyptalandi sagt að menn væru tilbúnir til að fórna blóði sínu. Molaskrifara þykir þetta heldur óíslenskulegt orðalag. Eðlilegra hefði verið að segja að menn væru reiðubúnir til að fórna lífi sínu.

Barnamálið náði inn í fjögurra dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu á miðvikudag (03.07.2013): Klesst aftan á Margréti Láru. Í fréttinni segir: ,, Eyjamærin var á leið af Kringlumýrarbraut inn á Bústaðaveg en varð að hægja á sér og þá klessti ungur ökumaður aftan á bifreið hennar svo nokkuð sá á bílnum.”  Það var sem sagt ekki neinu klesst aftan á Margréti Láru heldur var ekið aftan á bíl hennar. Barnamál fréttabarna er í sókn um þessar mundir.

Hversvegna birtast ekki borganöfn á veðurkortum í veðurfréttum í Ríkissjónvarpinu? Borganöfn eru á veðurkortum í veðurfréttum á Stöð tvö. Sama gildir um veðurkort flestra erlendra sjónvarpsstöðva. Það mundi bæta landafræðikunnáttuna hjá ýmsum ef borganöfnin væru birt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>