«

»

Molar um málfar og miðla 1286

Í neðanmálstexta í fréttum Ríkissjónvarps (21.08.2013) var tvisvar sinnum minnst á Ramsa-samninginn. Samningur er kenndur við Ramsar í Íran þar sem hann var undirritaður. Smáatriðin skipta líka máli.

 

Molaskrifari skrifaði nýlega um Vegagerð ríkisins þar sem hann starfaði þrjú sumur fyrir meira en hálfri öld. Hann hefur nú fengið ábendingar um að Samgöngustofa sé ný stofnun er hafi komist á koppinn þann 1. júlí, 2013 við sameiningu fjögurra stofnana, Siglingastofnunar, Vegagerðar ríkisins , Umferðarstofu og Flugmálastjórnar. Þetta mun rétt vera. Nú heitir allt –stofa. Ekkert má lengur kenna við ríkið. Í Ríkisútvarpinu má ekki einu sinni kalla þá stofnun sínu rétta nafni, Ríkisútvarpið. Stofa er mikið tískuorð í málfari hjá hinu opinbera. Þetta er svipað og þegar hætt var að tala um nefndir og þær heita nú nær eingöngu starfshópar. Sjá til dæmis mbl.is (22.08.2013) : Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að meta efnahagslegar forsendur fyrir ríkisstyrkjakerfi … Í ljósi umræðunnar að undanförnu er auðvital fráleitt og útilokað að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skipi nefnd! Svo var sú tíð að ekki mátti auglýsa eftir starfsmanni heldur varð að leita að starfskrafti. Og það þótt konur séu menn að íslenskri málvenju fornri og nýrri. Þetta stofu- fyrirbæri er líka þekkt úr orðum tungumálum. Sá ágæti rithöfundur Bill Bryson, sem margt hefur skrifað skemmtilegt um undarlegheit enskrar tungu gerði mikið grín að hliðstæðu fyrirbæri í einni af bókum sínum. – Fyrst minnst er á Bryson sakar ekki að geta þess, að bók hans A Walk in the Woods er ein allra fyndnasta bók sem Molaskrifari hefur lesið.

 

Molaskrifari undrast það alltaf dálítið hvað sérstakur fulltrúi Julians Assange og starfsmaður Wikileaks, Kristinn Hrafnsson fyrrum starfsmaður Ríkisútvarpsins, á greiðan aðgang að fréttum og fréttatengdum þáttum hjá gömlum starfsfélögum í Ríkisútvarpinu. Á miðvikudagsmorgni (21.08.2013) var hann í næstum hálftíma viðtali í morgunþætti Rásar tvö. Ekki heyrði Molaskrifari svo sem að þar kæmi margt nýtt fram. – Svo var að sjálfsögðu viðtal við Kristin Hrafnsson í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins! Uppljóstrarinn Bradley Manning sem málið snýst um þessa dagana ljóstraði því svo upp í gær í gær að hann væri alls ekki Bradley Manning, heldur væri hann kona og héti Chelsea Manning. Hann er sem sagt búinn að vera að blekkja okkur. Þetta voru auðvitað nokkur tíðindi, en einhverra hluta vegna var Kristinn Hrafnsson ekki kallaður í viðtal í Efstaleitið af því tilefni.

 

Útvarpsstjóri sem illu heilli innleiddi Rúv skammstöfunina og bannfærði hið rétta heiti Ríkisútvarpsins ætti að samræma framburð sinna manna á skammstöfuninni. Ýmist talar fólk um Rúff eða rúv.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>