«

»

Molar um málfar og miðla 1287

Í Garðapóstinum (22.08.2013) er frétt um ungan veiðimann sem veiddi vænan silung í Arnarneslæknum. Í fréttinni segir: Hann hafði verið við veiðar lungað úr degi og verið að fiska víða í læknum … Hér hefði átt að segja: Hann hafði verið við veiðar lungann úr deginum. Hér er ekki á ferðinni hvorugkynsorðið lunga, öndunarfæri, heldur karlkynsorðið lungi, sem þýðir kjarni, eða það besta , eða mesta úr eða af einhverju. Í fréttinni segir líka: … fiskurinn negldi fluguna … dálítið óvenjuleg líking. Maður sér ekki alveg fyrir sér hvernig fiskur neglir flugu!

 

Eirný Vals sendi eftirfarandi athugasemd (22.08.2013): ,,Þegar ég hlustaði á fréttir útvarpsins í vikunni fannst mér vera lesið, þyrla Landghelgisgæslunnar TFGNA (ég hélt að þyrlan bæri nafnið Gná, sem væri á flugmáli TF-GNA).

Þegar ég renndi í gegnum upptökur til að finna réttan fréttatíma heyrði ég
foreldrakönnun meðal foreldra – þetta hlýtur að hafa verið forvitnileg könnun, ég hefði haldið að könnun meðal foreldra hefði verið réttara
– íbúðaverðsvísitala – heilir 17 stafir í einu orði, betra væri vísitala íbúðaverðs (sem er einnig klúðurslegt).” Molaskrifari þakkar athugasemdina sem hér með er komið á framfæri.

 

Molavin benti á eftirfarandi (23.08.2013): ,,Bale til Real fyrir metfé“ segir í fyrirsögn á ruv.is og þar er átt við að leikmaður Tottenham hafi verið seldur til Real Madrid fyrir hærra verð en áður hefur verið greitt fyrir knattspyrnumann. Hér er ekki rétt merking orðsins ,,metfé” að mínu mati. Merkingin var gripur sem var í miklum metum, verðmætur. „Þótti þeim pokinn metfé og föluðu hann [ […]] til kaups.“ (Úr bókinni Ódáðahraun frá 1945.) Það má með sanni segja að Bale sé metfé í knattspyrnuheiminum. – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hárrétt.

 

Í Speglinum eða fréttum Ríkisútvarps (22.08.2013) var sagt: … en einungis til sjálfsþurftarbúskaps. Eignarfall orðsins búskapur er búskapar , ekki búskaps. Les enginn yfir? Veit enginn betur? Er enginn málfarsráðunautur?

Hversvegna líðst Ríkisútvarpinu að flytja Thule bjórauglýsingu á ensku, óþýdda (22.08.2013)? Hefur menntamálráðherra engan áhuga á því að þessi stofnun í eigu þjóðarinnar fari að lögum? Er auglýsingadeild Ríkisútvarpsins hafin yfir lög? Það getur varla verið.

Það er með ólíkindum að svona rugl skuli rata á vef Ríkisútvarpsins (fyrst birt 19.08.2013) . Les enginn yfir? Hvar er gæðaeftirlitið? Hvar er vandvirknin? Hvar er metnaðurinn til að gera vel og skila vönduðu verki?  Þetta eru vond vinnubrögð. Hreint ótrúlega vond. Sjá http://www.flickmylife.com/archives/32041

 

Af mbl.is (23.08.2013): Verður efnahagsráðið skipað Ragnari Árnasyni, hagfræðiprófessor, Þránni Eggertssyni, hagfræðiprófessor , …  Eitthvað hefur beyging mannsnafnsins Þráinn vafist fyrir þeim sem fréttina skrifaði. Kannski áhrif fá því sem er að verða nokkuð algengt að sjá: Hann fór yfir brúnna til að sækja skónna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>