«

»

Molar um málfar og miðla 1297

Sveinn Snorrason skrifaði (03.09.2013): ,,Sæll Eiður. Þakka þér fyrir þína mola, ekki er vanþörf á. Þú hefur nú oft minnst á óþarfa notkun aðila í fréttum og er hér eitt dæmi.
(mbl.is 1.9) Kerry segir að greining á hár- og blóðsýnum sem bandarísk yfirvöld fengu í hendur frá viðbragðsaðilum á vettvangi sanni að saríngas hafi verið notað.
Með þessu vakti blaðamaðurinn hjá mér upp margar spurningar en veitti engin svör. Til dæmis um þessa viðbragsaðila. Hverjir eru þeir? Sjúkraflutningamenn eru varla í því að senda utanríkisráðherra Bandaríkjanna sýni.
Þetta þarf að vera skýrt.” Molaskrifari tekur undir með Sveini og þakkar honum bréfið.

 

Molaskrifara þótti það hálfhallærisleg tilraun til aulafyndni þegar fréttamaður Ríkisútvarps kallaði konur kvenpening í kvöldfréttum Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld (04.09.2013)

 

Í fréttum Ríkisútvarps á þriðjudagskvöld (03.09.2013) var sagt frá borginni Edmond í Kanada þangað sem Icelandair ráðgerði áætlunarflug næsta sumar. Borg með þessu nafni er ekki til. Átt var við Edmonton Í Alberta, – eina af stærstu borgum Kanada. Landafræði  ekki lengur kennd í skólum.

 

Anna Kristjánsdóttir skrifaði (01.09.2013) og spyr: ,,Hvernig fannst landanum að heyra Þjóðleikhússtjóra hjá Sirrý í morgun segja þig getur farið að hlakka til? – Molaskrifari játar að þetta heyrði hann ekki. Vonandi var þetta misheyrn.

 

Pétur Snorrason skrifaði Molum (03.09.2013) undir fyrirsögninni: Úff! Sæll Eiður, þakka þér fyrir góða mola.
Nú get ég ekki orða bundist. Eins og margir fylgist ég með mínu liði í knattspyrnunni. Og datt óvart inn á frétt á vefnum Fótbolti.net.
http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=152247
Ég ætla að birta hér fréttina í heild sinni svo þú þurfir ekki að heimsækja vefinn.
Mér finnst ég ekki þurfa að benda á neitt eitt atriði. Þessi texti er í heild sinni hörmulegur.
Leik ÍBV og Vals í Pepsi deild karla hefur verið frestað vegna veðurs. Mikil rigning er í Eyjum og rok með.

Leikurinn átti að fara fram klukkan 17:00 í dag en að því verður ekki. Enn er óákveðið hvenær leikurinn fer fram.

Leikmenn Vals eru vissulega mættir til Eyja en þurfa nú að sætta sig við fýluferð. Hvort þeir verði fastir í Eyjum jafn lengi og leikmenn Keflavíkur á dögunum á eftir að koma í ljós.

Valur er í 5. sæti deildarinnar með 25 stig, en Eyjamenn eru sæti neðar með 23 stig. Bæði lið hafa spilað 17 leiki.

Að þessum leik frátöldum fer þó að óbreyttu fram heil umferð í Pepsi deildinni í dag. Hefst fyrsti leikur á milli Þórs og Fram klukkan 17:00” Molaskrifari þakkar bréfið, en játar að hann hefur nú séð ýmislegt svartara en þetta á áður nefndum vef.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála, Eirný.

  2. Eirný Vals skrifar:

    Sæll Eiður,
    Í Fréttablaðinu miðvikudaginn 4. september var skrifað að í lærðu máli væri notað orðið strámaður yfir það að villa um með því að búa til rétta skoðun og að rök gegn henni væru röng.

    Ég hef haldið og held enn að strámaður sé bein þýðing á ensku orðunum straw man. Það hlýtur að vera til betra orðalag sem nær þessu betur.

    Hvað með að nota villuljós, smjörklípu eða eitthvað annað sem þeir sem vanir eru að móta umræðu finnst eðlilegt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>