«

»

Molar um málfar og miðla 1314

Slæm fyrirsögn á mbl.is (27.09.2013): Ísland selur í Hollywood http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/27/islenskt_landslag_selur_i_hollywood/ Ísland er ekki að selja eitt eða neitt í Hollywood. Bandarískir kvikmyndastjórar hafa hinsvegar vaxandi áhuga á því að gera kvikmyndir á Íslandi vegna hins einstaka landslags sem hér er að finna. Hvar er metnaður Morgunblaðsins? Hann á að vera meiri.

 

Í sjónvarpsauglýsingu segir: Þú færð það betra hjá Ormsson. Færð hvað betra? Hvað merkir þetta? Eiginlega er þetta málleysa.

 

Rafn skrifaði (27.09.2013): ,,Ef eitthvað er komið heldur lengra en í burðarliðinn, þá hefði ég haldið að fyrirbærið væri þegar fætt. Hvernig getur hlutur sem væntanlegur er að ári verið kominn lengra en í burðarliðinn?? “

Tilefnið var þessi frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/bill/frettir/2013/09/27/nyr_skoda_fabia_a_naesta_ari/

Í fréttinni segir: ,,Skoda er með nýja kynslóð af Fabia í burðarliðunum og reyndar gott betur því sá nýi er væntanlegur á götuna á seinni hluta næsta árs, 2014. Hann mun falla í stærð á milli Citigo og Rapid.”  Ef öll fréttin er lesin sést að tilvitnuð setning er alls ekki það eina sem er athugavert við fréttina. Hún er illa skrifuð.

 

Fleiri bátar gera nú út frá Raufarhöfn en áður, .. var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (27.09.2013. Bátar gera ekki út. Bátar eru gerðir út Útgerðarmenn gera út.

 

Lítur út eins og hvað annað heimilistæki, var sagt í Fréttum Stöðvar tvö (27.09.2013). Molaskrifari hefði sagt: Lítur út eins og hvert annað heimilistæki. Í sama fréttatíma var sagt: Skattrannsóknarstjóra hafa borist töluvert af ábendingum. Þarna hefði farið betur á að segja: Skattrannsóknastjóra hefur borist töluvert af ábendingum. Eða: Töluvert margar ábendingar hafa borist til skattrannsóknastjóra.

 

Á vef Ríkisútvarpsins (27.09.2013) er talað um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins. Stofnanamál. Til dæmis hefði mátt tala um tekjuöflunarleiðir í væntanlegu fjárlagafrumvarpi.

 

Þriðji þátturinn í  tónlistarþáttaröð Ríkissjónvarpsins Útúrdúr, sem sýndur var í gærkveldi, brást ekki, – ekki  frekar en hinir fyrri tveir.  Frábært efni og vel fram reitt.-  Texta vantaði á langt viðtal á ensku í fyrrihluta þáttarins. Tæknimistök eða klaufaskapur. Ekki var beðist afsökunar á því. Hvorki í skjátexta né þulartexta.  Það flokkast undir almenna mannasiði að biðjast afsökunar á mistökum. En þetta var svo sem ekki í fyrsta skipti, sem  Ríkissjónvarpið lætur sem ekkert sé, þótt mistök verði við útsendingu. Með niðursoðna konurödd sem dagskrárkynni kann það að  vera stofnuninni ofviða að biðjast afsökunar á útsendingarmistökum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>