Hversvegna sýnir Ríkissjónvarpið aldrei fréttaskýringaþætti um erlend málefni? Nóg framboð ætti að vera af slíku efni frá Norðurlöndunum, öðrum Evrópulöndum og úr vesturheimi. Nú er til dæmis meiri gerjun á Kóreuskaga en oftast áður, allt upp í loft í stjórnmálum á Ítalíu, alltaf eitthvað mikið að gerast í Kína, ýmis opinber starfsemi í Bandaríkjunum lömuð vegna pólitískra deilna og svo mætti áfram telja. Það er eins og efni af þessu tagi sé á einhverskonar bannlista í Efstaleiti, – svona eins og sígildar kvikmyndir frá árum áður og erlent efni um samfélag og sögu! Þeir viðskiptavinir Ríkissjónvarpsins sem áhuga hafa á umheiminum verða að leita á vit erlendra stöðva.
Í Fréttablaðinu var stuttur pistill á mánudag (30.09.2013) um að þann dag voru 47 ár liðin frá fyrstu útsendingu íslenska sjónvarpsins, Ríkissjónvarpsins. Vægast sagt var þessi frétt ekki mjög nákvæm. Til dæmis var sagt að í upphafi dagskrár hafi Gylfi Þ. Gíslason útvarpsstjóri flutt ávarp. Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra. Vilhjálmur Þ. Gíslason bróðir Gylfa var útvarpsstjóri og flutti ávarp í sjónvarpinu við upphaf útsendinga. Þá var þess ógetið að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði setið fyrir svörum Á blaðamannafundi þetta fyrsta sjónvarpskvöld.
Meiru fjármagni hefur verið varið í að styrkja liðið, var sagt í íþróttafréttum Stöðvar tvö (30.09.2013). Betra hefði verið: Meira fjármagni hefur verið varið í að styrkja liðið.
Skemmtilegt innslag í Kastljósi á mánudagskvöld (30.09.2013) um ótrúlegan völund, Jóhann Sigmarsson, sem með annarri hendinni smíðar húsgögn úr gömlum bryggjuviðum af mikilli list og meiri hagleik en margir sem hafa tvær hendur til smíðanna.
Þættirnir um Foyle lögregluforingja, sem nú eru sýndir á DR1, Með Michael Kitchen í aðalhlutverki, eru með bestu lögregluþáttum sem Bretar hafa framleitt. Þeir tóku við af gömlu Morseþáttunum á sínum tíma (2000). Öndvegisefni, sem einhverra hluta vegna hefur aldrei ratað á skjá Ríkissjónvarpsins. Fellur kannski ekki að smekk þeirra sem þar ráða ríkjum? Það er ekkert ofbeldi í þessum þáttum eins og nú virðist svo vinsælt. Þeir eru vandaðir og vel gerðir.
Skyldi Ríkissjónvarpið ekkert vera að huga að breyttu fyrirkomulagi dagskrárkynninga? Á að halda áfram að bjóða okkur upp á eina niðursoðna rödd? Uppskrúfaða tilgerð sem er heldur leiðigjörn til lengdar. Gott væri að fá fleiri raddir , tilgerðarlausar raddir með eðlilega framsögn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
02/10/2013 at 17:09 (UTC 0)
Kærar þakkir, Egill. Þetta hefur farið fram hjá mér. Man aldrei eftir þessu á skjánum hér, en þú ert greinilega minnugri en ég , eða að þetta hefur verið sýnt þegar ég var við störf erlendis.
Egill Þorfinnsson skrifar:
02/10/2013 at 13:30 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Smá athugasemd við ummæli þín hér að ofan. Sjónvarpið hefur sýnt nokkra þætti um Foyle lögregluforingja. Michael Kitchen stendur sig með prýði, rólegur og yfirvegaður og er skemmtileg andstæða við hinn geðvonskulega Morse. Sennilega má þó telja þættina á fingrum annarrar handar.
Kveðja Egill