«

»

Molar um málfar og miðla 1327

Molavin skrifaði (13.10.2013): ,,Samkvæmt upplýsingum frá Örnólfi Thors, forsetaritari,“ – Svona segir i frétt á síðu sjálfs Ríkisútvarpsins í dag, 13. okt. Vonandi getur einhver á fréttastofunni upplýst þennan fréttamann um að Örnólfur er sonur Margrétar Indriðadóttur, fyrrum fréttastjóra Ríkisútvarpsins og Thors Vilhjálmssonar, rithöfundar. Sem sagt: „frá Örnólfi Thorssyni, forsetaritara…“ Ég hef fullvissu fyrir því að Margrét leið ekki hroðvirkni í fréttaskrifum í sinni fréttastjóratíð. – Það er örugglega rétt. Furðuleg villa. Molaskrifari þakkar bréfið,

 

Fyrrum fréttamaður nefndi við Molaskrifara nýlega, að nú væru meðlimir á hverri blaðsíðu og í öðrum hverjum fréttatíma. Hann rifjaði upp að á fréttastofu útvarpsins (eins og hún hét þá!) hefði verið gert átak til að eyða þessu nöturlega orði. Það var fyrir allmörgum árum og hafði Margrét Indriðadóttir, fréttastjóri forgöngu um það.  Hann segir: ,,Tókst á skömmum tíma að uppræta þetta. Getum við ekki skorið upp herör gegn meðlimum ?” Jú, auðvitað getum við það, bætir Molaskrifari við, en til þess þarf atbeina þeirra sem skrifa fréttir og þeirra sem stjórna fjölmiðlum. Atbeina og vilja.

 

Af mbl.is (13.10.2013): Segir Haukur að þrátt fyrir að stórar umfjallanir skili miklu, … Stórar umfjallanir !!! Mikil umfjöllun.

 

Það er að sjálfsögðu ekkert athugavert við að fréttamaður sé í bleikri peysu, – hver hefur sinn smekk (Ríkissjónvarpið 13.10.2013).  En það er betra að peysan nái niður fyrir buxnastrenginn.

 

,,Ég í vondum málum” er millifyrirsögn í grein í DV (14.10.2013) . Millifyrirsögnin er byggð á ummælum þess sem er rætt er við, en haft er eftir honum: ,,Hafi ég gert eitthvað rangt, þá er ég í vondum málum”. Um þetta verður fátt annað sagt en að þetta er vond blaðamennska. Ummæli slitin úr samhengi til að gefa ranga mynd af því sem sagt var. Sá sem þetta skrifaði ætti með réttu að vera í vondum málum. Kannski þykja þetta bara fyrirmyndar vinnubrögð á DV.

 

Af mbl.is (14.10.2013): Ingibjörg Ringsted framkvæmdarstjóri Lostætis á Akureyri sigraði keppnina  dömulegur eftirréttur sem haldin var á sýningunni Matur-inn 2013 um helgina. Fréttinni fylgir tilvísun í aðra frétt þar sem segir að Sigurður Már hafi sigrað nemakeppnina! Gæðaeftirlit Morgunblaðsins með framleiðslunni virðist úr sögunni. Það sigrar enginn keppni. Svo einfalt er nú það.

Egill spyr í athugasemdadálki Molanna (14.10.2013): ,,Ég var að hlusta á þátt eftir hádegi í gær á Bylgjunni. Þar var umsjónarmaður þáttarins að rifja upp merkisatburði sem átt hafa sér þennan sama dag, 13. október, í gegnum tíðina. Meðal annars sagði hann “ þennan dag árið 1925 fæddist Margaret Tatcher en hún er nú lögst undir helgan stein “ Ég veit um einn „helgan“ stein og hann er í Mekka. Hvílir fyrrum forsætisráðherra Breta í Saudi-Arabíu ?” Ja, hérna. Snilldinni eru lítil takmörk sett.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Það er rétt að orðatiltækið að setjast í helgan stein er notað í rangri merkingu í dæminu sem er nefnt. Orðatiltækið kemur hins vegar helgum stein í Mekka ekkert við, heldur vísar það til þess þegar menn gengu í klaustur (og gáfu sig guði).

  2. Þorvaldur S skrifar:

    En hefði Egill þessi gert athugasemd við orðalagið: Járnfrúin er sest í helgan stein?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>