Jón Gnarr vígir listaverk, stóð í Morgunblaðinu (20.12.2013) Jón Gnarr borgarstjóri er ekki vígður maður. Hann vígir því hvorki eitt né neitt. Það hefur hinsvegar færst í vöxt seinni árin að tala um að vígja mannvirki þegar þau eru tekin í notkun. Varla er hægt að segja að listaverk sé tekið í notkun. Þetta er því í alla staðið röng málnotkun að mati Molaskrifara.
Lifandis ósköp hefur fréttaflutningur Ríkisútvarpsins rýrnað og þynnst eftir hreinsanir og uppsagnir á dögunum. Það er mikil afturför.
Það er svolítið undarlegt að þessi þjóð skuli vera með forsætisráðherra sem í fréttaviðtali ((20.12.2013) virtist alls ekki skilja að það að þegar sagt er ósatt er það nákvæmlega það sama og á íslensku heitir að ljúga. Hann talar um blæbrigðamun og reynir þannig að bulla sig út úr öngstrætinu.
Egill skrifaði í athugasemdadálk Molanna (21.12.2013): ,Sæll Eiður,
Ég tók eftir hópferðabifreið í umferðinni í dag sem var með auglýsingu frá einhverri fasteignasölu og á henni stóð ,, Frítt söluverðmat“. Eignir og hlutir eru verðmetnir en ég hef aldrei heyrt talað um verðmat á sölu enda er þetta bara rugl.. Oft eru auglýsingastofur ekkert betri en fjölmiðlar, það fer reyndar versnandi með ári hverju það sem auglýsingastofur senda frá sér.” Rétt ábending, Egill. Og einna verst er auglýsingadeild Ríkisútvarpsins sem kokgleypir hugsunarlaust allar þær ambögur sem að henni eru réttar. Þakka þér bréfið, Egill.
Verslunin Lindex auglýsir á fésbók (21.12.2013): Áttu enn eftir að versla inn jólagjafir? Það er mörgum erfitt að hafa þetta rétt, eins og hér hefur oft verið nefnt.
Í dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpinu var talað um púðursnjó. Hversvegna nota hráa enskuþýðingu (powder snow) þegar við eigum hið gullfallega orð lausamjöll? Ríkisútvarpið þarf að ráða málfarsráðunaut sem sinnir málfarsráðgjöf.
Valgeir Sigurðsson vinur Molaskrifara og fyrrverandi blaðamaður skrifaði í athugasemdadálk Molanna (21.12.2013): ,,Það er auðvitað eitthvað mjög mikið að, þegar menn eru enn frétta“börn“ það er að segja viðvaningar í meðferð móðurmáls síns, eftir að hafa lært íslenzku í „barnaskóla, menntaskóla og háskóla“ eins og sagt var í gamla daga. Vitaskuld liggja slíkir hlutir misjafnlega vel fyrir mönnum, en þeir verða þá að þekkja takmörk sín og vanda sig þeim mun betur.” Satt segir þú, Valgeir sem jafnan.
Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins skrifaði í vikulegum pistli sínum í Morgunblaðinu (21.12.2013): ,,Alvarlegar málvillur í Morgunblaðinu á ritstjóraárum Matthíasar Johannessen höfðu þau áhrif á hann að hann var ekki mönnum sinnandi þann dag. Ég gat ekki betur séð en að hann verkjaði ekki bara andlega heldur líkamlega af þeim sökum. – Þannig þarf þjóðinni að líða þegar illa er farið með íslenskt mál”
Morgunblaðið var yfirleitt prýðilega vel skrifað í ritstjóratíð þeirra Matthíasar og Styrmis. Miklu betur en um þessar mundir. Það er hverju orðið sannara en þar er ekki einungis við ritstjórana að sakast. Og seint verður Davíð Oddsson sakaður um að vera illa sér um notkun móðurmálsins. Málfar er samt mun lakara í blaðinu nú en áður var. Veldur því einkum að minni kröfur virðast gerðar til þeirra sem ráðnir eru til skrifta og að gæðaeftirlit , yfirlestur eða prófarkalestur frétta og annars efnis er að mestu úr sögunni. Það er líklega eins gott að minn gamli kollega og góði vinur Matthías er ekki enn ritstjóri blaðsins. Hann væri þá líklega að mestu við rúmið flesta daga.
Molaskrifari óskar lesendum Molanna Gleðilegra jóla og gæfuríks árs og þakkar óteljandi bréf, þakkir og kveðjur , vinsamlegar ábendingar og ánægjuleg samskipti á liðnum árum. – Lifið heil !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
24/12/2013 at 10:17 (UTC 0)
Sæll, Þorgils Hlynur. Þetta finnst mér svolítið langsóttt en má kannski til sannsvegar færa. Þakka þér hlý orð og óska þér og þínum gleðilegra jóla og alls hins besta á nýju ári.
Eiður skrifar:
24/12/2013 at 10:14 (UTC 0)
Ég hef aldrei séð neitt athugavert við þetta orðalag, Þorvaldur. Held að þetta sé fast í málinu.
Þorvaldur S skrifar:
23/12/2013 at 23:45 (UTC 0)
Nú segja menn næsta hiklaust: „Hann átti sér einskis ills von.“ Er svoddan þá fordæmanlegt orðalag?
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:
23/12/2013 at 22:09 (UTC 0)
Sæll Eiður!
Við lok pistils þíns gerir þú versnandi málfar Morgunblaðsins að umtalsefni og lýsir meðal annars yfuir áhyggjum af heilsufari Matthíasar Johannesen. En þar verður þér ögn á. Þú endar pistilinn svohljóðandi: „Það er líklega eins gott að minn gamli kollega og góði vinur Matthías er ekki enn ritstjóri blaðsins. Hann væri þá líklega að mestu við rúmið flesta daga.“ Þú ættir eiginlega frekar að segja: „Það er líklega eins gott að minn gamli kollega og góði vinur Matthías er ekki lengur ritstjóri blaðsins. Hann væri þá líklega að mestu við rúmið flesta daga.“ Matthías er búinn að vera ritstjóri Morgunblaðsins. Var hann það ekki drjúgan hluta síðari helmings síðastliðinnar aldar? En hann er það ekki lengur. Ef þú segir að hann sé það ekki ennþá, á hann það eftir.
Þetta var aðeins vinsamleg ábending um leið og ég þakka þér innilega fyrir góða pistla þinna. Sömuleiðis vil ég nota tækifærið og óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, með ósk um fleiri slíka pistla. Ekki veitir af!
Með vinsemd og virðingu, Þorgils Hlynur Þorbergsson.
Eiður skrifar:
23/12/2013 at 09:28 (UTC 0)
Vissulega, Haukur. Gleðileg jól
Haukur Kristinsson skrifar:
23/12/2013 at 09:19 (UTC 0)
„Von á mjög slæmu ferðaveðri“, er fyrirsögn í DV í dag.
Hefði ekki verið nær að skrifa: „Útlit er fyrir slæmt ferðaveður“.
Varla er mikil eftirvænting eftir slæmu ferðaveðri.