«

»

Molar um málfar og miðla 1376

Gleðilegt nýtt ár og þakka samstarf á liðnu ári, ágætu Molalesendur.

 

Molaskrifari er varla dómbær á Áramótaskaupið á Gamlárskvöld vegna þess að hann sá það ekki í heild. Gaman var hinsvegar að sjá hvernig skoðanir fólks í netmiðlum skiptust mjög í tvö horn. Annars vegar var Skaupinu hrósað í hástert en aðrir fundu því flest til foráttu fannst það lítil skemmtan. Sennilega hefur þetta því verið nokkuð gott! Það sem Molaskrifari sá var vel gert og kunnáttusamlega , en hann hló hinsvegar ekki mikið. En það er svo sem ekkert að marka.

 

Af dv.is (30.12.2013): ,,Þetta er rangt en í skjalinu sem vísað var til – birt undir yfirskriftinni Loans.pdf – eru tíundaðar hlutaféseiningar.” Hlutaféseiningar! Það var og. Ritsnilldin á dv.is er söm við sig.

 

Áskell skrifaði (30.12.2013): ,,Einn af þekktari fjölmiðlamönnum landsins, Máni Pétursson, er ósáttur við viðbrögð fólks eftir að Gylfi Þór var kosinn íþróttamaður ársins. Máni á greinilega ,,auðvelt“ með að tjá sig en í Pressunni er haft eftir Mána: ,,… En það er svo gaman að vera á gremju- og fórnarlamba vagninum að allir eru virkir. Ég legg til að áramótaheitið ykkar sé að slaka fucking á.“ Svo mörg voru þau orð en eftir vakir sú tilfinning að útvarpsmaðurinn eigi ekki auðvelt með að tjá sig á íslensku.” Sú tilfinning, Áskell er ekki upp sprottin að ástæðulausu. Þakka þér bréfið.

 

,, … og þeim langaði til að halda áfram”, sagði Birgitta Jónsdóttir alþingismaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps (30.12.2013). Einmitt það.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (30.12.2013) var sagt að umræður hefðu spunnist um það á netinu hvort leynd heimildarmanna væri ekki nægilega vel gætt á á síðunni. Hér hefði fremur átt að segja : .. hvort leyndar heimildarmanna væri ekki nægilega vel gætt…

 

Á mbl.is (30.12.2013) var sagt frá áramótabrennum. Þar var sagt: Tendrað verður í brennunni …. Betra hefði verið að segja, til dæmis: Kveikt verður í bálkestinum ….Á þetta hefur  einnig verið bent í athugasemd á fésbók.

 

Á fréttavef Ríkisútvarpsins (30.12.2013) var sagt að Lísa Pálsdóttir hefði verið mjög sátt með sýninguna (á leikriti Guðmundar Steinssonar Lúkasi). Fremur hefði Molaskrifari sagt að hún hefði verið mjög ánægð með sýninguna eða mjög sátt við sýninguna.

 

Fyrirsögn af mbl.is (30.12.2013):Hálka samfara þýðu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/30/halka_samfara_thydu/  Í fréttinni segir síðan: ,,Búast má við mikilli hálku í kvöld og í nótt en spáð er vægri þýðu á láglendi, fyrst sunnantil og í kvöld og nótt einnig norðantil.” Hér ætti að sjálfsögðu að tala um þíðu, hláku, hlýindi, –  ekki þýðu. Í gamla daga var þetta kennt í barna- og gagnfræðaskólum.

 

Molaskrifari tekur undir með þeim sem lýst hafa þeirri skoðun á netinu að síðasti Orðbragðsþáttur Ríkissjónvarpsins (29.12.2013) hafi verið fremur bragðdaufur, svo ágætir sem fyrri þættir voru. Full ástæða er þó til að hvetja Ríkissjónvarpið til að halda áfram á sömu braut, – framleiða áhugaverða þætti þar sem fjallað er um móðurmálið og nýttir þeir margvíslegu möguleikar sem myndmiðillinn gefur í þeim efnum.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (30.12.2013) talaði fréttamaður skýrt og greinilega um bráðabirgðaruppgjör. Átti að sjálfsögðu að vera bráðabirgðauppgjör.

 

Á mbl.is (30.12.2013) var vitnað í vefsíðu þjóðgarðsins á Þingvöllum þar sem segir: ,,Ferðamenn voru af öllum þjóðarbrotum og mátti heyra fjömörg (fjölmörg) og framandi tungumál óma í Almannagjá. Ferðafólkið var misjafnlega vant þeim vetraraðstæðum sem ríkja inn til landsins á þessum árstíma”. – Af öllum þjóðarbrotum? Ekki vel orðað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>