«

»

Molar um málfar og miðla 1384

 

Það er fokið í flest skjól þegar þeir sem skrifa fréttir á mbl.is tala um ,,að versla sér”, – ,,Aðspurður segir hann fólk á öllum aldri versla sér mannbrodda. „Það var t.a.m. einn hér um daginn sem var að fara að spila fótbolta og vildi standa í lappirnar í leiknum.“ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/09/halkuslys_tepptu_rontgendeild/

 

Gunnar skrifaði (09.01.2014) : ,,Sorglegt var að heyra Guðjón Auðunsson, forstjóra Reita, tala um „hvern einasta fermeter Kringlunnar“, en ekki um „fermetra“ í fréttum Stöðvar 2 7. janúar sl. Það heitir metri á íslensku, en meter bæði á ensku og dönsku.” Satt og rétt.

 

Í hryllingsfrétt frá Afríku í Ríkissjónvarpi (09.01.2014) var sagt að börn hefðu verið afhöfðuð. Á íslensku er venjulega talað um að hálshöggva.

 

Þorgrímur Gestsson skrifaði í athugasemdadálk Molanna ((10.01.2014): ,,Komdu sæll
Þegar ég renndi yfir Fréttablaðið í morgun blasti þessi málsgrein við mér í frétt um bruggara sem kveðst blanda hvalmjöli saman við bjórinn: „Við búum á Íslandi og erum vel sett uppi í sveit.“ Þetta hefur líklega átt að vera: „Vel í sveit sett“. En svo versnar það heldur í næstu málsgrein: Við teljum okkur vera nokkuð einangruð“. Varla er það að vera vel í sveit settur! Þarna finnst mér blaðamaðurinn sýna heldur litla máltilfinningu, svo ekki sé nú meira sagt!
Annað: Í þessari frétt er talað um „hvalamjöl“ og „hvalabein“. Ég hef nú vanist því að sagt sé og skrifað: Hvalmjöl og hvalbein.
Má ég að lokum gera athugasemd við athugasemd frá þér í pistli dagsins? Hún snýst um að réttara sé að tala um að „á annar tugur mála“ hafi komið upp, frekar en að „á annan tug mála“ hafi komið upp. Þarna er ég ósammála. Málin voru á annan tug (fleiri en tíu) en ekki „á annar tugur“.Með bestu kveðju, Þorgrímur Gestsson. Molaskrifari þakkar Þorgrími bréfið og viðurkennir að þetta með málatuginn orkar sjálfsagt tvímælis.

Og Rafn skrifar um sama efni (10.01.2014) : Sæll Eiður.

Ég get ekki fallist á það með þér að láta forsetninguna á stýra nefnifalli í samhenginu „á annan tug“. Forsetningar stýra ávallt aukaföllum í íslenzku máli, hér þolfalli.

Angi af sama meiði er, að í fjölda tilvika er forsetningin  látin stýra nefnifalli í stað þágufalls í samhenginu „allt að einhverjum hlut“ (t.d. umbreytist allt að tíu kílómetrum og verður allt að 10 kílómetrar, eða allt að ákveðnum afslætti verður allt að ákveðinn afsláttur).

 

Þetta eru ummerki nefnifallssýkinnar, sem stöðugt sækir á, t.d. í notkun nafna. T.d. er sagt: „Fjallað var um bókina Ævisaga í sjónvarpsþættinum Kiljan“ í stað þess að segja, sem rétt er: „Fjallað var um bókina Ævisögu í sjónvarpsþættinum Kiljunni“.

 

Fyrst afsláttur var nefndur hér að framan má nefna rökvillu, sem honum tengist. Fjöldi verzlana auglýsir vörur falar á ákveðnum afslætti. Hér væri eðlilegra að auglýsa viðkomandi vöru með ákveðnum afslætti. Ef varan er föl á afslættinum, þá segir minn málskilningur, að greiða skuli afsláttarhlutfallið. Hins vegar mun hugsun auglýsenda (það er, ef um hugsun er að ræða) vera, að varan sé föl með viðkomandi afslætti. Molaskrifari þakkar bréfið og hefur greinilega ekki sterkan málstað að verja !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Arnbjörn. Fæ að birta þetta eftir helgina. – K kv esg

  2. Arnbjörn skrifar:

    Í kveri sínu Íslenzkri setningafræði / Íslenzk setningafræði bls. 21 ræðir Björn Guðfinnsson um óbeygða einkunn. Hann er að vanda reglufastur en viðurkennir engu að síður gildi málvenju sem stangast á við regluna sem hann boðar. Þetta hefur hann að segja um óbeygða einkunn:
    „[Grein] 65. Algengt er nú [formáli 2. útgáfu er skrifaður 1943] orðið að nota einkunnir óbeygðar, þegar þær eru heiti.
    Dæmi: Greinin birtist í dagblaðinu Vísir. – Ég keypti þetta í verzluninni Baldur. – Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðinn.
    Sérstaklega tíðkast óbeygð einkunn, þegar heitið er orðasamband, tvö eða fleiri samhliða orð.
    Dæmi: Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöt og fiskur. – Hann er meðlimur í bókmenntafélaginu Mál og menning. – Þetta er úr verzluninni Blóm og ávextir.
    [Grein] 66. Notkun óbeygðrar einkunnar er málfræðilega röng. Hún er og að jafnaði óþörf og til lýta. . Þó mundu sumir kunna illa við þessar setningar:
    Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöti og fiski. Þetta er úr verzluninni Blómum og ávöxtum.
    Hins vegar er ekki hægt að finna neitt að beygðri einkunn, þegar hún er eitt orð:
    Greinin birtist í dagblaðinu Vísi. Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðni.“
    Kannski eru menn nú sáttir við að svo sé tekið til orða: „Hvaða hugrenningar skyldu vakna við lestur skáldsögunnar Sjálfstæðs fólks?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>