«

»

Molar um málfar og miðla 1394

Úr frétt um flugvélakaup á mbl.is (21.01.2014): … til að mæta aukinni eftirspurn eftir sparsömum flugvélum, … Hér hefur eitthvað skolast til. Flugvélar eru ekki sparsamar. Átt er við sparneytnar flugvélar, vélar sem nota lítið eldsneyti.

 

Þorvaldur G. skrifaði eftirfarandi við Molana á blog.is (21.04.2014): ,,Sæll Eiður og þakkir fyrir gullmolana
Í gær var minnst á fyrirbærið Justin Bieber hér á vefsíu Mogga. Þar stóð: Hann innbirgði (tiltekið magn) af hóstasaft. Gott væri ef skrifarar kynntu sér stafsetningu.” Rétt er það, Þorvaldur. Kærarþakkir.

 

Það verður engu til sparað var sagt í fréttum Ríkissjónvarpsins (21.01.2014) um kostnað við vetrarólympíuleikana í Rússlandi. Endalaust rugla menn saman: Ekkert til sparað og engu til kostað. Einfalt mál, – ef menn kunna það.

 

Árangur íslenskra nemenda fari hrakandi var sagt í fréttum Stöðvar tvö (21.01.2014). Árangri íslenskra fari hrakanandi hefði verið betra. Einhverju fer hrakandi.

 

Rafn skrifaði (21.10.2014): ,,Sæll Eiður

Bæði í þínum pistlum og víðar hefir verið fjallað um heimskuleg og óheppileg ummæli forstöðumanns EM-stofu ríkissjónvarpsins. Hins vegar hafa litlar athugasemdir komið fram um til hvers hann var að vísa. Eftir því, sem ég tel mig hafa lesið, því þetta gerðist áður en ég fæddist, þá var innlimun Austurríkis í Stórþýzka ríkið, „der Anscluß“, án blóðsúthellinga eða slátrunar. Innlimunin var gerð samkvæmt austurrískum lögum (þó settum af stjórninni án aðkomu þingsins) um „endursameiningu Austurríkis við Hið þýzka ríki“.

Þótt líklegt sé, að einhverjir hafi verið teknir af lífi eftir „endursameininguna“, þá var aðgerðin sjálf án „slátrunar“ og afar hæpið að nota það orðalag um aðgerðina.” Þakka bréfið, Rafn.

 

Alls 31 fyrrverandi yfirmenn í Bandaríska hernum hafa skorað á Barack Obama … Þannig hófst frétt í morgun fréttum Ríkisútvarps (22.01.2014- tekið af vef Ríkisútvarpsins) . Molaskrifari hefði byrjað fréttina svona: Alls hefur þrjátíu og einn yfirmaður í bandaríska hernum…  Lítið b  er í bandarískur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>