«

»

Molar um málfar og miðla 1396

Í sjónvarpinu auglýsir Ríkisútvarpið ( t.d. 22.01.2014) frumflutning þriggja nýrra íslenskra útvarpsleikrita. Heiti leikritanna eru öll höfð í nefnifalli enda þótt þau ættu að fallbeygjast samkvæmt reglum og eðli máls. Hvað yrði sagt ef Þjóðleikhúsið auglýsti: Frumsýnum Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness á þriðjudagskvöld. Þetta er alveg hliðstætt. Hvað er málfarsráðunauturinn að sýsla? Kannski var hann rekinn í hreinsunum miklu ?

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.1.2014) var í þingfréttum talað um skattaívilnanir fyrir hátekjuhópum. Hefði átt að vera: Skattaívilnanir fyrir hátekjuhópa.

 

Fréttabarn á vaktinni á mbl.is (23.01.2014): En fólk sem tók lestina sem sýnd er í þessu myndskeiði var ekki skemmt þegar inn var komið því snjórinn hafði blásið inn í einhverja vagna með tilheyrandi kulda. Fólk var ekki skemmt! Alveg óskemmt. Snjórinn hafði blásið inn í einhverja vagna ! Þetta er með ólíkindum. Enginn les yfir. Enginn metnaður til þess að gera vel. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/23/thvilikur_kuldi_i_lestinni/

Meira af mbl.is sama dag: Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ökumaðurinn komin út úr bílnum og er lítið slösuð. Ekki batnar það!

 

Gunnar nefnir þetta einnig í tölvubréfi (24.01.2014): „Kanínukjöt á boðstólnum á Íslandi fyrir næstu jól“ er fyrirsögn á vefsíðunni visir.is. Boðstóll er ekki til í eintölu. Fleirtöluorðið er „boðstólar“ svo kjötið verður á boðstólum.

Og á mbl.is er hin kostulega setning: „Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ökumaðurinn komin út úr bílnum og er lítið slösuð.“ Í tvígang er „ökumaður“ fólksbíls nefndur til sögunnar. Hvernig getur ökumaður verið „komin“ úr bílnum og verið „lítið slösuð“? Ökumaðurinn er kominn úr bílnum og er lítið slasaður, hvort sem hann er karlmaður eða kvenmaður. (Hann kvenmaðurinn) – Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Enn er spurt, því aldrei hefur verið svarað: Hversvegna eru ekki birt bæja- og borganöfn á veðurkortunum í Ríkissjónvarpinu? Á veðurkortum færeyska sjónvarpsins eru birt borganöfn. Hvað veldur þessu?

 

Sá ágæti fréttanmaður Stöðvar tvö, Þorbjörn Þórðarson, má til með að læra að bera fram orðið saksóknari. Hætta að segja sífellt saksónari. Þetta var einkar áberandi í fréttum á föstudagskvöld (24.01.2014).

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>