Skúli sendi úrklippu úr Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins (24.01.2014): ,,Sæll Eiður. Ég sendi þér hér úrklippu af mbl.is í dag. ,,Samt sem áður langar honum til þess…….“ Ég get skilið að það læðist inn villur í texta á netmiðlana, en mér finnst ótrúlegt að þágufallsveikin geti ekki a.m.k. verið undanskilin.” Molaskrifari þakkar Skúla bréfið. Skrifin má sjá hér: http://www.mbl.is/monitor/frettir/2014/01/24/jafnrettis_heilkennid/
Í fréttum Ríkissjónvarps (25.01.2014) var talað um feitan íþróttapakka. Hvað er feitur íþróttapakki? Í sama fréttatíma var sagt frá listviðburðum í Garðinum. Þar var talað um að listamenn héldu vinnustofur. Ekki áttar Molaskrifari sig á því orðalagi.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (26.01.2014) talaði fréttamaður um hærri verð fyrir tapaða orku. Viðmælandi hans talaði um magn tapanna. Þetta þykir sjálfsagt gott og eðlilegt málfar. Molaskrifari kann þó ekki meta að svona sé tekið til orða.
Hversvegna tala íþróttamenn um að opna markareikninginn?
Orðið viðhlítandi var tvívegis rangt skrifað í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (26.01.2014). Var enginn á vaktinni sem vissi betur?
Ljót og óþörf þolmyndarnotkun hjá fréttamanni Stöðvar tvö í upphafi frétta á sunnudagskvöld (26.01.2014). Fréttamaður sagði: Telpan var flutt hingað til lands seinnihluta árs 2012 af móðurafa sínum. Betra hefði verið: Móðurafi telpunnar kom með hana hingað til lands á seinni hluta ársins 2012. Germynd er alltaf betri. Ekki mikil máltilfinning til staðar þarna. Þessi þolmyndarnotkun var endurtekin í frétt um sama efni í gærkveldi (27.01.2014)
Hversvegna var lýsi stundum kallað fiskiolía í fréttum Ríkisvarps (26.01.2014)? Var annars ekki verið að tala um það sama?
Handboltaveislunni er lokið , sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (26.01.2014). Molaskrifara fannst þetta nú á stundum fremur plága en veisla. Sök sér að sýna leiki íslenska liðsins og útslitaleikinn,ekkert að því, en ótækt að láta íþróttastjóra komast upp með að riðla dagskránni kvöld eftir kvöld. Þessi skoðun Molaskrifara kallar sjálfsagt á mótmæli! Treysti nýjum útvarpsstjóra til að stöðva yfirgang íþróttastjóra og íþróttadeildar í dagskrá Ríkissjónvarpsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar