Molavin skrifaði (03.02.2014): ,,Ferðamálastofa kunngjörir á heimasíðu sinni að Elías Bj. Gíslason hafi verið skipaður ferðamálastjóri í fjögurra mánaða starfsleyfi þeirrar konu, sem gegnir embættinu. Þetta er svo orðað á heimasíðu Ferðamálastofu en hljómar þó einkennilega, þar sem ætla mætti að viðkomandi hafi verið settur tímabundið í embætti. Ferðamálastofa ætti að hafa þetta á hreinu”.
Molaskrifari þakkar bréfið.
Gestastofa í Snæfellsþjóðgarði opnar á morgun, var sagt í morgunþætti Rásar tvö (04.02.2014). Ekki var frá því greint hvað gestastofan mundi opna. Fréttastofan er alveg búin að ná þessu og hætt að láta kjörstaði opna. Betur má ef duga skal.
Rafn sendi Molum dæmi um sama af mbl.is (04.02.2014): ,,Ríkiskaup, fyrir hönd RKÍ, hafa óskað eftir tilboðum í 13 nýjar sjúkrabifreiðar, sem eru í tveimur stærðarflokkum, til afhendingar fyrir 10. desember 2014. Útboðið opnar 11. febrúar nk. “ Og Rafn spyr: ,,Hvað skyldi útboðið eiga að opna???” – Ekki er nema von að spurt sé. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Gunnar skrifaði Molum (02.02.2014): ,, „ Og í kvöld erum við að fara að sjá viðureign Menntaskólans á Akureyri og Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi,“ sagði Björn Arnarsson, kynnir í Gettu betur. Mun betra hefði verið að segja: „Í kvöld sjáum við …“
„Við erum allavega ekki að fara að sjá eitthvað markalausa viðureign hérna í kvöld,“ spurði hann dómarana. Markalaus spurningakeppni? Fá liðin mörk í stað stiga eða er spyrillinn fastur í handboltaumfjöllun?
Hér þarf vanda sig betur.” – Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.
Bæði í fréttum Ríkisútvarps og á mbl.is (04.02.2014) var sagt að verið væri að leita að manni í sjónum við norðurenda Reykjavíkurhafnar. Molaskrifari hnaut um þetta og velti fyrir sér hvort fréttaskrifarar vissu hvar norðurendi Reykjavíkurhafnar væri. Rafn skrifaði Molum um þetta og vitnar í fréttina:
,,Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu leita nú manns sem talið er að hafi farið í sjóinn við norðurenda Reykjavíkurhafnar í kvöld. Sást til hans fara út á varnargarðinn um klukkan 21.00 en hann kom ekki til baka. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita um 45 mínútum síðar.”
Rafn spyr:,,Hvar er norðurendi þess sem liggur milli austurs og vesturs?? Rafn sendi mynd af hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en Molaskrifara tókst ekki að koma henni hér fyrir.
Hann segir svo: PS: Trúlega er hér vísað til Norðurgarðs, eða jafnvel olíubryggjunnar sem er utan hafnar. Þótt strandlengjan snúi mót norðri, þá eru Örfirisey og uppfyllingar henni tengdar norðan við strandlínuna, þótt hæpið sé að tala um „enda“. Molaskrifari þakkar bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar